Hoppa yfir valmynd
8. janúar 2001 Heilbrigðisráðuneytið

1. - 5. janúar 2001

Fréttapistill vikunnar
1. - 5. janúar



Gagnvirkt upplýsingakerfi fyrir starfsfólk og viðskiptavini FSA

SkjáVarp hf., Gagnvirk Miðlun hf. (GMi) og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA), hafa undirritað viljayfirlýsingu um að standa sameiginlega að uppbyggingu upplýsinga- og afþreyingakerfis í húsakynnum FSA. FSA verður fyrsta heilbrigðisstofnun landsins til að bjóða upp á þjónustu af þessu tagi. Byggt verður upp staðbundið innanhússkerfi í öllum byggingum FSA þar sem miðlað verður í gegnum sjónvarpsskjái, upplýsingum til starfsmanna og viðskiptavina FSA, t.d. um fundi, opnunartíma, viðtalstíma lækna, sérfræðiaðstoð og fleira sem að gagni kemur fyrir starfsmenn og viðskiptavini. Einnig verður hægt að koma á framfæri fréttum og upplýsingum sem koma fram á nýju vefsvæði FSA sem kynnt verður innan skamms. Í kerfinu mun SkjáVarp jafnframt miðla utanaðkomandi upplýsingum og auglýsingum, þar sem starfsmenn og viðskiptavinir FSA geti fylgst með því sem um er að vera á Akureyri og nágrenni. Í húsakynnum FSA verða sett upp sjónvarpstæki þar sem viðskiptavinir geta nálgast stafræna sjónvarpsþjónustu GMi til afþreyingar á meðan á dvöl þeirra hjá FSA stendur. Sem dæmi um slíka þjónustu má nefna aðgang að sjónvarpsstöðvum, myndefnaveitu (Video-on-demand), Interneti og tölvupósti gegnum sjónvarp, aðgang að rafrænni verslun, bankaþjónustu o.fl. Þetta gerir viðskiptavinum FSA kleift að sinna margskonar erindum í gegnum tölvupóst og Internet þó aðgangur að tölvu sé ekki fyrir hendi. Stefnt er að því að upplýsingakerfið SkjáVarp-FSA verði tilbúið til notkunar í febrúar og að GMi geti boðið stafræna sjónvarpsþjónustu á afþreyingarkerfinu um mitt næsta ár.

Kröfulýsing fyrir rafræn sjúkraskrárkerfi á næsta leiti
Á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins hefur um skeið verið unnið að gerð kröfulýsingar fyrir rafræn sjúkrakerfi. Árið 1999 voru unnin fyrstu drög að lýsingu á almennum kröfum til sjúkraskrárkerfa, þ.e. grunnkröfur til sjúkraskrárkerfa sem ætlað er að halda utan um sjúkragögn einstaklings sem verða til vegna meðferðar hans á heilbrigðisstofnun. Kerfið þarf að geyma upplýsingar þar sem fram kemur ástæða fyrir komu sjúklingsins á sjúkrastofnun, skoðun, meðferð, áragnur og afdrif. Einnig þarf kerfið að geyma upplýsingar um öll formleg samskipti milli heilbrigðisstarfsmanna um sjúklinginn, t.d. bréf, beiðnir og svör. Árið 1999 voru unnin fyrstu drög að almennri kröfulýsingu fyrir sjúkraskrárkerfi og voru þau send fjölmörgum aðilum til umsagnar. Athugasemdir þeirra og alþjóðleg þróun á þessu sviði erlendis var höfð til hliðsjónar við gerð þeirrar almennu kröfulýsingar sem nú liggur fyrir. Í ljósi þess að verulegar breytingar hafa verið gerðar á upphaflegum drögum hefur verið ákveðið bjóða þeim sem áhuga hafa á að koma með frekari athugasemdir við almennu kröfulýsinguna fram 15. febrúar 2001. Stefnt er að því að almenna kröfulýsingin verði gefin út 1. mars 2001 og að hún taki gildi 10. apríl 2001. Tekið skal fram að gefinn verður ákveðinn tími til að laga þau sjúkraskrárkerfi sem þegar eru í notkun að settum kröfum.
Sjá nánar>






Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
08. janúar 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum