Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2002 Heilbrigðisráðuneytið

12. - 18. janúar 2002

Fréttapistill vikunnar
12. - 18. janúar 2002


Fyrstu samningar nýrrar nefndar um greiðsluþátttöku almannatrygginga vegna heilbrigðisþjónustu undirritaðir

Nýskipuð samninganefnd um greiðsluþátttöku almannatrygginga vegna heilbrigðisþjónustu undirritaði í vikunni tvo samninga um kaup á geisla- og myndgreiningarrannsóknum af Læknisfræðilegri myndgreiningu og Íslenskri myndgreiningu. Þetta eru stærstu fyrirtækin á þessu sviði í einkaeign. Samninganefndin, sem heilbrigðis og tryggingamálaráðherra skipaði í síðustu viku, hefur það hlutverk að semja við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn um greiðsluþátttöku ríkisins vegna heilbrigðisþjónustu og við fyrirtæki og stofnanir vegna sambærilegrar þjónustu sem þar er veitt. Samningarnir um kaup á geisla- og myndgreiningarrannsóknir eru fyrstu samningarnir sem nefndin lýkur en hennar bíða ærin verkefni framundan.

LSH: Launagjöld hærri en áætlað var - hækkun á rannsóknar og hjúkrunarvörum langt umfram áætlun fjárlaga
Rekstaruppgjör Landspítala - háskólasjúkrahúss eftir fyrstu tíu mánuði ársins sýnir 485 m.kr. umfram fjárheimildir sem eru um 2,8% frávik frá fjárheimildum tímabilsins. Launagjöld eru stærsti kostnaðarliðurinn, 68,5% af heildargjöldum. Þau reyndust 1,7% hærri en áætlað hafði verið. Lækninga- og hjúkrunarvörur hafa hækkað um 16,6% milli ára og rannsóknarvörur um 25,8%, en í fjárlögum ársins var gert ráð fyrir 4% hækkun. Ástæða þessarar miklu hækkunar er einkum sú að um sérhæfðar vörur er að ræða, flestar fluttar inn fyrir sjúkrahúsið og því hefur mikil lækkun á gengi íslensku krónunnar bein áhrif. Þetta kemur fram í greinargerð framkvæmdastjóra fjárreiðna og upplýsinga með Stjórnunarupplýsingum sjúkrahússins fyrir fyrstu 10 mánuði ársins. Þar segir ennfremur að óhagstæð verðlags- og gengisþróun á árinu sé aðalástæðan fyrir umframkeyrslu á spítalanum og að áríðandi sé að fjármálayfirvöld leiðrétti þann mismun. Í Stjórnunarupplýsingum er að þessu sinni fjallað um fjarvistir starfsfólks vegna veikinda, greint eftir starfsstéttum og er munur á milli stétta verulegur. Á hverjum tíma eru um 200 starfsmenn sjúkrahússins fjarverandi vegna veikinda eða veikinda barna sinna. Miðað við síðasta ár hefur innlögnum á sólarhringsdeildir sjúkrahússins fjölgað um 2,0% en legudögum hefur fækkað um 6,7%. Þá hefur meðallegutími styttst verulega, eða úr 9,3 dögum í 8,5 daga.
MEIRA...

Tryggingastofnun ríkisins endurnýjar samning við Bláa lónið
Tryggingastofnun hefur endurnýjað samning sinn við Bláa lónið um þátttöku í meðferð húðsjúkdóma. Psoriasis- og exemsjúklingar hafa fengið meðferð sjúkdómum sínum við göngudeild Bláa lónsins en hún tók til starfa árið 1994 og var viðurkennd af heilbrigðisyfirvöldum þremur árum síðar. Um 5000 Íslendingar fá árlega meðferð á göngudeildinni. Tryggingastofnun greiðir kostnað vegna psoriasissjúklinga, sem að mati sérfræðinga þurfa að leita læknishjálpar á meðferðarstofnunum psoriasissjúklinga. Psoriasis- og exemsjúklingar geta átt rétt á sérstakri meðferð í Bláa lóninu að undangengnu mati læknis og samþykki húðlæknis Bláa lónsins. Meðferðin er fólgin í böðun í sérstakri meðferðarlaug og ljósa- og rakakremsmeðferð.

Flutningur lungnadeildar LSH frá Vífilsstöðum á nýja deild sjúkrahússins í Fossvogi
Sjúklingar lungnadeildar Landspítala - háskólasjúkrahúss fluttust í vikunni á nýja deild sjúkrahússins, A-6, í Fossvogi. Á nýju lungnadeildinni eru 25 rúm, þar af eru þrjú rúm fyrir svefnrannsóknir. Gangurinn sem hýsir nýju deildina hefur verið endurnýjaður frá grunni og er aðstaða sjúklinga og starfsfólks mjög góð.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
18. janúar, 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum