Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2016 Utanríkisráðuneytið

Samningalota TiSA 8.– 18. júlí 2016

Samningalota í TiSA-viðræðunum var haldin í Genf 8.-18. júlí 2016. Af Íslands hálfu tóku Martin Eyjólfsson, Þórður Jónsson og Bergþór Magnússon þátt í lotunni.  Rætt var um annars vegar tilboð samningsaðila um markaðsaðgang og hins vegar samningstexta meginmáls fyrirhugaðs samnings og einstakra viðauka hans. Heilt yfir var nokkuð góður gangur í viðræðunum.

Í umræðum um markaðsaðgang var farið yfir þau tilboð sem einstök ríki sem taka þátt í viðræðunum hafa lagt fram. Haldnir voru bæði sameiginlegir fundir allra samninganefnda þar sem farið var í gegnum hvert og eitt tilboð sem lagt hefur verið fram í viðræðunum og tvíhliða fundir einstakra ríkja. Gert er ráð fyrir að ríkin leggi fram lokatilboð sín um markaðsaðgang fyrir 21. október nk.

Hvað varðar texta meginmáls fyrirhugaðs samnings þá var ítarlega rætt um svokölluð stofnanaákvæði samningsins, þ.ám. ákvæði samningsins sem varða lausn deilumála, aðild nýrra ríkja að samningnum eftir gildistöku hans og möguleika á að samningurinn verði á síðari stigum felldur undir regluverk Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).  Umræður um þessa texta byggðu á óformlegum textatillögum sem ESB sendi út fyrir lotuna. Ljóst er að talsverð vinna er framundan við að ljúka umræðu um þessi ákvæði og ná samstöðu um endanlega samningstexta.

Haldið var áfram yfirferð á drögum að þeim viðaukum samningsins sem telja má víst að verði hlutar af endanlegum samningstexta. Þannig var farið ítarlega yfir drög að viðaukum um fjármálaþjónustu, fjarskiptaþjónustu, rafræn viðskipti, innlendar reglur og gagnsæi. Einnig var rætt um tillögur sem meiri óvissa ríkir um hvort verði hlutar af endanlegum samningstexta, þ.e. þremur viðaukum á sviði flutningsþjónustu  (í lofti, láði og legi),  svo og að viðaukum um fagþjónustu og orkutengda þjónustu.

Á fundinum var ítrekaður vilji aðildarríkjanna til að ljúka viðræðunum fyrir lok þessa árs. Í þvi skyni var samþykkt ný vinnuáætlun fram til áramóta þar sem gert er ráð fyrir þremur heildstæðum samningalotum, í september, nóvember og desember, auk sérstakra funda aðalsamningamanna og sérfræðinga á einstökum sviðum.

Næsta samningalota verður haldin 19.-25. september nk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum