Hoppa yfir valmynd
21. júní 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 26/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 26/2017

Miðvikudaginn 21. júní 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, móttekinni 19. janúar 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. desember 2016 um að synja honum um 50-60% styrk til bifreiðakaupa og uppbót vegna reksturs bifreiðar.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um uppbót vegna reksturs bifreiðar og 50-60% styrk til bifreiðakaupa með umsókn, dags. 15. nóvember 2016. Með bréfi, dags. 27. desember 2016 var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki læknisfræðileg skilyrði um hreyfihömlun. Í kjölfar kæru var kæranda sent leiðrétt synjunarbréf, dags. 20. febrúar 2017, með frekari rökstuðningi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 19. janúar 2017. Með bréfi, dags. 23. janúar 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 20. febrúar 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. febrúar 2017, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að synjun Tryggingastofnunar ríkisins um uppbót vegna reksturs bifreiðar og 50-60% styrk til bifreiðakaupa verði endurskoðuð.

Fram kemur í kæru til úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi sótt um styrk til að geta eignast bifreið ásamt eldsneytisstyrk en hafi verið synjað. Staðan sé sú að hann eigi við stoðkerfisvandamál að stríða og finni til við hvert skref. Hann geti með hörku gengið um 50 metra og sé þá allur orðinn skakkur og verkirnir á eftir séu ákaflega slæmir. Staðan hjá honum sé sú að hann eigi heima þrettán kílómetra utan við B og búi einn og þurfi þar af leiðandi að hafa ökutæki. Hann treysti sér ekki til að fjármagna kaupin einn og hafi hann því farið fram á styrk eða einhvers konar hjálp við kaupin.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé synjun á umsókn um uppbót vegna reksturs bifreiðar samkvæmt 2. gr. og styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiðamála. Umsókn kæranda hafi verið synjað með bréfi, dags. 27. desember 2016.

Við meðferð málsins hafi komið í ljós að kæranda hafi ekki verið sent rétt synjunarbréf. Í bréfi Tryggingastofnunar hafi komið fram að kæranda hefði verið synjað á þeim forsendum að hann uppfyllti ekki hreyfihömlunarskilyrði 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Það hafi ekki verið rétt. Tryggingastofnun hafi því skoðað mál kæranda aftur og sent honum nýtt bréf þar sem fram hafi komið réttar forsendur fyrir synjun stofnunarinnar. Greinargerð Tryggingastofnunar miðist við forsendur þær sem fram koma í nýju synjunarbréfi stofnunarinnar, dags. 20. febrúar 2017, og gerir stofnunin ráð fyrir því að kærandi haldi sig við kæru sína þó að synjun stofnunarinnar hafi nú verið endurskoðuð.

Í málinu reyni eingöngu á rétt kæranda til uppbótar til reksturs bifreiðar samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 og 2. gr. reglugerðar nr. 170/2009 og styrks til kaupa á bifreið samkvæmt 3. mgr. 10. gr. sömu laga og 5. gr. sömu reglugerðar. Þrátt fyrir það sé nauðsynlegt samhengisins vegna að rekja hvaða kröfur séu gerðar vegna 1. mgr. 10. gr. laganna og 3. og 4. gr. reglugerðarinnar.

Uppbót til reksturs bifreiðar sé veitt á grundvelli 2. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 2. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. sé það ófrávíkjanlegt skilyrði að eingöngu sé heimilt að veita einstaklingum uppbót vegna reksturs bifreiðar ef þeir eru elli- eða örorkulífeyrisþegar eða örorkustyrksþegar. Sambærilegar kröfur séu gerðar til einstaklinga sem sækja um uppbót til kaupa á bifreið samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð og 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé fram á að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé Tryggingastofnun heimilt að veita styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða líkamshluta vantar.

Í 1.–3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 komi meðal annars fram að heimilt sé að greiða elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé fram á að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Skilyrði 2. og 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar hljóði svo:

„Uppbót er eingöngu heimilt að veita þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.

2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggi fyrir.

Við mat á umsóknum skal fyrst og fremst líta á bifreiðina sem hjálpartæki hreyfihamlaðra og hvort umsækjandi þurfi bifreið til að komast ferða sinna, s.s. til vinnu, í skóla, sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.“

Sambærilegar kröfur séu gerðar til umsókna um uppbót til reksturs á bifreið samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð.

Strangari kröfur séu gerðar til þeirra sem hljóta styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga. Í þeim tilvikum sé skilyrði að umsækjandi sé verulega hreyfihamlaður og noti til dæmis tvær hækjur og/eða sé bundinn hjólastól að staðaldri. Markmiðið sé að koma til móts við þá sem séu verr settir en þeir sem fái uppbót samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar þar sem þeir þurfi meira rými vegna fötlunar sinnar. Til þess að fá styrkinn þurfi því að sýna fram á að vegna hreyfihömlunarinnar sé aukin þörf fyrir bíl sem sé dýrari en almennt gerist. Skilyrði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar hljóði svo:

„Styrkur skal vera kr. 1.200.000 og skal eingöngu veittur þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.

2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggur fyrir.

3. Einstaklingur er verulega hreyfihamlaður og er t.d. bundinn hjólastól og/eða notar tvær hækjur að staðaldri.

4. Mat á ökuhæfni liggur fyrir.

5. Hinn hreyfihamlaði er sjúkratryggður hér á landi, sbr. 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.“

Í 5. gr. reglugerðarinnar sé veitt heimild til Tryggingastofnunar til að veita styrk til að afla bifreiðar sem nemi allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar, þ.e. grunnverði án aukabúnaðar eins og kærandi sótti um til Tryggingastofnunar með umsókn, dags. 15. nóvember 2016. Í þeim tilvikum þarf að vera um að ræða einstakling sem ekki kemst af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Heimildin eigi þó einungis við þegar umsækjandi uppfylli skilyrði 4. gr. og ekur sjálfur eða annar heimilismaður. Markmiðið sé að koma til móts við þá sem séu verr settir en þeir sem fái uppbót samkvæmt 3. gr. og styrk samkvæmt 4. gr. og þurfi meira rými vegna fötlunar sinnar. Til þess að fá styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar þurfi því að sýna fram á að vegna hreyfihömlunarinnar sé aukin þörf fyrir stóran eða sérútbúinn bíl sem sé dýrari en almennt gerist um bifreiðar sem heimilt er að veita uppbót samkvæmt 3. gr. eða styrk samkvæmt 4. gr.

Við mat á hreyfihömlun þann 19. desember 2016 hafi legið fyrir læknisvottorð C, dags. 14. nóvember 2016.

Fram hafi komið að kærandi hafi verið mjög slæmur í mjóbaki með leiðslu og dofa í vinstri ganglim. Miklir vöðvaverkir í baki og lærum en rannsóknir hafi ekki gefið skýringar á verkjunum. Kærandi sé í sjúkraþjáfun og í VIRK endurhæfingu og hafi talist óvinnufær frá febrúar 2016. Göngugeta kæranda sé lítil. Hann geti gengið nokkra tugi metra og sé þá alveg frá af verkjum.

Skilyrði til þess að fá uppbót samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 sé meðal annars að einstaklingur sé hreyfihamlaður og auknar kröfur séu gerðar í tilviki styrks samkvæmt 4. gr. sömu reglugerðar. Veiting styrks samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar eigi við í þeim tilvikum þar sem um sé að ræða einstakling sem ekki komist af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Markmiðið sé að koma til móts við þá sem séu verr settir en þeir sem fái uppbót samkvæmt 3. gr. og styrk samkvæmt 4. gr. og þurfi meira rými vegna fötlunar sinnar. Til þess að fá styrkinn þurfi því að sýna fram á að vegna hreyfihömlunarinnar sé aukin þörf fyrir stóran eða sérútbúinn bíl sem sé dýrari en almennt gerist um bifreiðar sem heimilt sé að veita uppbót fyrir samkvæmt 3. gr. eða styrk samkvæmt 4. gr.

Kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann sé verulega hreyfihamlaður í skilningi laga um félagslega aðstoð nr. 99/2009 og reglugerðar nr. 170/2009 og þurfi vegna hreyfihömlunar sinnar að nota hjálpartæki, t.d. tvær hækjur eða hjólastól til að komast leiðar sinnar. Jafnframt sé tekið fram að til að hljóta uppbót eða styrk samkvæmt ofangreindum lögum og reglugerð þá megi ekki vera um tímabundið ástand að ræða eins og í tilviki kæranda sem njóti greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins í formi endurhæfingarlífeyris.

Tryggingastofnun hafi farið ítarlega yfir mál kæranda. Stofnunin telji að miðað við fyrirliggjandi gögn sé ljóst að afgreiðsla málsins hafi að fullu og öllu verið í samræmi við almannatryggingalög, reglugerð nr. 170/2009 og við ítrekaða úrskurði úrskurðarnefndarinnar vegna núgildandi reglugerðar og sambærilegt ákvæði fyrri reglugerðar nr. 752/2002.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda annars vegar um uppbót vegna reksturs bifreiðar hins vegar um 50-60% styrk til kaupa á bifreið.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrkja til bifreiðakaupa og uppbót vegna reksturs bifreiða er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sem er svohljóðandi:

Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Sama gildir um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkulífeyrisþegar.

Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Á grundvelli 3. málsliðar 3. mgr. framangreinds ákvæðis og 2. mgr. 14. gr. sömu laga var sett reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða með síðari breytingum.

Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir svo um styrki til kaupa á sérútbúnum og dýrum bifreiðum:

„Heimilt er að veita styrk til að afla bifreiðar sem nemur allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar, þ.e. grunnverði án aukabúnaðar, ef um er að ræða einstakling sem ekki kemst af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Heimildin á þó einungis við þegar umsækjandi uppfyllir skilyrði 4. gr.“

Skilyrði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar með síðari breytingum eru svohljóðandi:

„Styrkur skal vera kr. 1.400.000 og skal eingöngu veittur þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. Þetta á þó ekki við þegar um er að ræða hreyfihamlaða einstaklinga í sjálfstæðri búsetu, sbr. 6. mgr. 1. gr., sem hafa persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag viðkomandi, t.d. samning um notendastýrða persónulega aðstoð, beingreiðslusamning eða sambærilegan samn­ing.

2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggur fyrir.

3. Einstaklingur er verulega hreyfihamlaður og er t.d. bundinn hjólastól og/eða notar tvær hækjur að staðaldri.

4. Mat á ökuhæfni liggur fyrir.

5. Hinn hreyfihamlaði er sjúkratryggður hér á landi, sbr. 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.“

Fyrir liggur í málinu læknisvottorð C, dags. 14. nóvember 2016, um hreyfihömlun. Þar segir meðal annars svo:

„Mefur verið mjög slæmur í mjóbaki með leiðslu og dofa í vi ganglim.Miklir vöðvaverkir í baki og lærum. rannsóknir hafa ekki gefið fullkomna skýringar á verkjum. Er í sjúkraþjálfun og Virk endurh. Hefur verið óvinnufær frá því í febr.2016 Göngugeta hans er lítil. Getur gengið nokkra tugi metra, þá alveg frá af verkjum.“

Eins og fram kemur í 2. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð uppfylla þeir einir skilyrði uppbótar til reksturs bifreiðar sem eru elli- og örorkulífeyrisþegar, örorkustyrkþegar og umönnunargreiðsluþegar. Kærandi er endurhæfingarlífeyrisþegi og þegar af þeirri ástæðu uppfyllir hann ekki skilyrði fyrir veitingu uppbótar vegna reksturs bifreiðar.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 er það skilyrði fyrir veitingu styrks, sem nemur allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar, að umsækjandi komist ekki af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Í fyrrgreindu læknisvottorði C kemur fram að göngugeta kæranda sé lítil en ekki verður ráðið af vottorðinu að hann noti hjálpartæki að staðaldri. Því er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki verði ráðið af gögnum málsins að kærandi komist ekki af án sérútbúinnar bifreiðar. Að mati úrskurðarnefndar uppfyllir kærandi því ekki skilyrði fyrir greiðslu 50-60% styrks til bifreiðakaupa, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Úrskurðarnefndin tekur ekki afstöðu til þess hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir veitingu uppbótar/styrks til bifreiðakaupa samkvæmt 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009, enda sótti kærandi ekki um slíkt.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um 50-60% styrk vegna kaupa á bifreið og uppbót vegna reksturs bifreiðar staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um 50-60% styrk vegna kaupa á bifreið og uppbót vegna reksturs bifreiðar, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum