Hoppa yfir valmynd
22. júní 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 89/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 89/2017

Fimmtudaginn 22. júní 2017

AgegnVinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 22. febrúar 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. janúar 2017, um að synja beiðni hennar um endurupptöku máls.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta 11. apríl 2013 og fékk greiddar atvinnuleysisbætur til 15. ágúst 2013 en þá stöðvaði Vinnumálastofnun greiðslur til hennar vegna ótilkynntrar vinnu. Með bréfi, dags. 15. ágúst 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnunin hefði ákveðið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar á grundvelli 60. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og að hún skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefði starfað að minnsta kosti 12 mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kærandi var einnig krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 fyrir tímabilið 2. júní til 31. júlí 2013. Í kjölfar niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-2547/2015 óskaði kærandi eftir endurupptöku á máli sínu hjá Vinnumálastofnun. Með bréfi, dags. 2. nóvember 2016, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnunin hefði fellt úr gildi fyrri ákvörðun um viðurlög samkvæmt 60. gr. laga nr. 54/2006. Vinnumálastofnun taldi að endurgreiðsluskylda kæranda samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 væri óbreytt þar sem hún hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta án þess að eiga rétt á þeim. Kærandi óskaði á ný eftir endurupptöku á máli sínu þann 8. desember 2016. Endurupptökubeiðni kæranda var tekin fyrir á fundi Vinnumálastofnunar og með bréfi, dags. 5. janúar 2017, var þeirri beiðni hafnað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála vegna synjunar á endurupptöku þann 22. febrúar 2017 en var undirrituð 3. maí 2017. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 1. júní 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að Vinnumálastofnun hafi krafið hana um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum vegna órökstudds gruns um að hún hafi þegið laun frá [...]. Kærandi tekur fram að hún hafi reynt að afla sér verkefna eftir útskrift en án árangurs. Hún hafi hins vegar tekið að sér nokkur verkefni launalaust til þess að afla reynslu. Kærandi óskar eftir endurupptöku á máli sínu með vísan til niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2547/2015.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi verið krafinn um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 2. júní til 31. júlí 2013 vegna ótilkynntrar vinnu. Það hafi verið mat stofnunarinnar að kærandi hefði ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum á því tímabili þar sem hún hafi verið í vinnu. Kæranda sé skylt að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006, og hvorki séu efni til að falla frá kröfu um endurgreiðslu né breyta fyrri ákvörðun Vinnumálastofnunar.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. janúar 2017, um að synja kæranda um endurupptöku máls.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Við mat á því hvort ákvörðun hefur byggst á „ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik“, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, er horft til þess hvort fram séu komnar nýjar eða fyllri upplýsingar um málsatvik sem telja má að hefðu haft þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Þær skýringar sem kærandi lagði fram með endurupptökubeiðni sinni 3. október 2016 eru efnislega þær sömu og hún lagði fram með endurupptökubeiðni frá 8. desember 2016. Að mati úrskurðarnefndarinnar hafa því ekki komið fram upplýsingar sem leiða til þess að Vinnumálastofnun skuli taka ákvörðun sína frá 2. nóvember 2016 til endurskoðunar, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá verður ekki séð að aðstæður kæranda hafi breyst verulega á þann veg að réttlætanlegt sé að mál hennar verði tekið aftur til meðferðar hjá Vinnumálastofnun, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta synjun Vinnumálastofnunar á beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. janúar 2017, um að synja beiðni A, um endurupptöku máls er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum