Hoppa yfir valmynd
2. desember 2016 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Hringtengingu ljósleiðara um Vestfirði lokið

Hringtengingu ljósleiðara um Vestfirði er nú lokið. - mynd

Af þessu tilefni var í dag efnt til málþings á Ísafirði á vegum Neyðarlínunnar undir yfirskriftinni stillum saman strengina – öflugri og öruggari innviðir á Vestfjörðum. Fjallað var um áhrif af lagningu ljósleiðara og þriggja fasa rafstrengs milli Hrútafjarðarbotns og Ísafjarðar.

Fjarskiptasjóður, Orkubú Vestfjarða, Míla og Neyðarlínan/Öryggisfjarskipti stóðu að umræddum verkefnum. Vann Míla ásamt Orkubúi Vestfjarða fyrri hluta verksins árið 2015 þegar lagður var 110 km ljósleiðarastrengur og 105 km rafstrengur. Á þessu ári luku Öryggisfjarskipti verkinu með lagningu 45 km ljósleiðara og samhliða lagði Orkubú Vestfjarða 25 km rafstreng. Fjarskiptasjóður hafði forgöngu um ljósleiðaraverkefnið með útboði og þátttöku í kostnaði og Orkubú Vestfjarða tryggði framgang verkefnisins með þessari endurnýjun á rafdreifikerfinu.

Haraldur Benediktsson, alþingismaður og formaður stjórnar fjarskiptasjóðs ræddi á málþinginu um aðdraganda verkefnisins og tækifæri sem felast í bættum fjarskiptum og Pétur Markan, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, ræddi efnið ljós á milli manna. Erindi Elíasar Jónatanssonar, orkubústjóra Orkubús Vestfjarða, hét allt er þegar þrennt er og Jón Ríkharð Kristjánsson, framkvæmdastjóri Mílu, fjallaði um aukið öryggi með hringtengingu fjarskipta á Vestfjörðum. Lokaerindið flutti Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, sem einnig ræddi um bætt fjarskipti og aukið öryggi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum