Hoppa yfir valmynd
4. janúar 2012 Dómsmálaráðuneytið

Hönnunarsamkeppni um fangelsisbyggingu auglýst í næstu viku

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Logi Már Einarsson, formaður Arkitektafélags Íslands, undirrituðu í dag samning um útfærslu hönnunarsamkeppni um byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði í Reykjavík. Samkeppnin verður auglýst á evrópska efnahagssvæðinu og verða samkeppnisgögn afhent frá næstkomandi mánudegi 9. janúar.

Skrifað undir samning um hönnunarsamkeppni vegna fangelsisbyggingar
Skrifað undir samning um hönnunarsamkeppni vegna fangelsisbyggingar

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist í lok ársins og að nýtt fangelsi verði tekið í gagnið 2014. Fyrirhugað er að reisa á Hólmsheiði í Reykjavík nýtt gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi með deild fyrir kvenfanga og aðstöðu fyrir afplánun skemmri fangelsisrefsinga og vararefsinga. Um er að ræða fangelsisbyggingu með 56 fangarýmum en nýja fangelsið á að leysa af hólmi Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og fangelsið í Kópavogi. Einnig verður gæsluvarðhaldsdeild í fangelsinu á Litla Hrauni lögð niður og aðstaða hennar tekin fyrir afplánun.

Bygginguna skal hanna í samræmi við þá stefnu Fangelsisstofnunar að föngum verði tryggð örugg og vel skipulögð afplánun, að mannleg og virðingarverð samskipti sitji í fyrirrúmi og að fyrir hendi verði aðstæður og umhverfi sem hvetur fanga til að takast á við vandamál sín.    

Niðurstöður í byrjun júní

Dómnefnd sem skipuð var vegna samkeppninnar hefur nú lokið við gerð samkeppnislýsingar. Dómnefnd skipa fyrir hönd ráðherra Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður, Páll E. Winkel fangelsismálastjóri og Pétur Örn Björnsson arkitekt og tilnefnd af Arkitektafélagi Íslands, arkitektarnir Gylfi Guðjónsson og Hildur Gunnarsdóttir.

Skrifað undir samning um hönnunarsamkeppni vegna fangelsisbyggingarÖgmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði við undirritunina að í fyrstu hefði verið ætlunin að auglýsa verkefnið í alútboði en eftir rökstuddar ábendingar frá Arkitektafélagi Íslands hefði verið horfið frá því og ákveðið að ráðast í hönnunarsamkeppni.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður dómnefndar, sagði að gert væri ráð fyrir að tillögum yrði skilað um miðjan apríl og að dómnefndin lyki störfum eigi síðar en 4. júní. Þá taka við samningar við hönnunarteymið sem verður fyrir valinu og miðað við það mætti búast við að framkvæmdir gætu hafist á árinu og að nýtt fangelsi yrði tekið í notkun árið 2014.

Logi Már Einarsson, formaður Arkitektafélags Íslands, þakkaði innanríkisráðherra fyrir þá víðsýni að bregðast við ábendingum arkitekta og fagnaði því að efnt yrði til þessarar samkeppni.

Skrifað undir samning um hönnunarsamkeppni vegna fangelsisbyggingar

Tímamót í sögu fangelsismála

Bygging nýs fangelsis á Hólmsheiði mun marka tímamót í sögu fangelsismála á Íslandi. Síðasta sérsmíðaða fangelsið á Íslandi, Hegningarhúsið við Skólavörðustíg, var reist og tekið í notkun árið 1875, fyrir tæplega 140 árum. Fangelsið á Litla Hrauni var byggt sem Sjúkrahús Suðurlands en hætt var við þau áform. Landsstjórnin keypti bygginguna árið 1929 og breytti í fangelsi eða ,,letigarð fyrir slæpingja og landshornamenn” eins og lesa má um í þingskjölum þess tíma.

Í ríflega hálfa öld hefur staðið til að byggja nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Um 1960 var Valdimar Stefánssyni sakadómara falið að gera tillögur að nýju fangelsi við Úlfarsá en þau áform dagaði uppi. Síðan hefur saga fangelsisbyggingamála verið langdregin og einkennst af skýrslugerð, úttektum, athugunum og umræðum um ákjósanlega staðsetningu.

Fangelsismál á Íslandi hafa meðal annars verið gagnrýnd í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttindamála á Íslandi. Þar er nefnt að elstu fangelsi landsins standist ekki nútímakröfur, biðlisti eftir fangelsisvist sé of langur og að ekki sé hugað nógu vel að stöðu kvenfanga og ungra afbrotamanna innan fangelsiskerfisins. 

Það er von ráðuneytisins að fyrir valinu verði lausn sem sé í senn hagkvæm, örugg og vistvæn þar sem mannleg virðing og aðstæður séu í takt við þau markmið sem stefnt er að.  

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira