Hoppa yfir valmynd
4. janúar 2012 Dómsmálaráðuneytið

Stefnumótunar- og þróunarvinna í ættleiðingarmálum

Fyrirkomulag ættleiðinga á Íslandi er með þeim hætti að samkvæmt lögum nr. 130/1999 veitir sýslumaður leyfi til ættleiðinga að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Innanríkisráðherra er heimilt að ákveða að leyfisveitingarnar séu á hendi eins sýslumannsembættis. Sýslumaðurinn í Búðardal hefur annast þær frá 2006 en frá 1. janúar eru þessi verkefni hjá sýslumannsembættinu í Reykjavík og kveðið á um flutninginn með nýrri reglugerð.

Ákvarðanir sýslumanns eru kæranlegar til ráðuneytisins en innanríkisráðuneytið hefur jafnframt yfirumsjón með framkvæmd þessara mála og er miðstjórnarvald í skilningi Haag-samningsins um ættleiðingar milli landa.

Að mati ráðuneytisins hefur þessi framkvæmd gefist vel og er þannig tryggt það fyrirkomulag að fjallað er um mál á tveimur stjórnsýslustigum, þ.e. ákvörðun sýslumanns er almennt kæranleg til ráðuneytisins. Flutningur þessara og annarra verkefna til sýslumanna hefur því stuðlað að auknu réttaröryggi í stjórnsýslunni. Hjá sýslumannsembættum liggur mikil þekking og reynsla á sviði barna- og fjölskylduréttar en með því að fela einu sýslumannsembætti umsjón ættleiðingarmála er tryggð samræmd umfjöllun um þessi sérhæfðu og afmörkuðu mál.

Málefni ættleiðinga til skoðunar
Málefni ættleiðinga hafa verið til skoðunar í ráðuneytinu í allnokkurn tíma. Í ársbyrjun 2011 kom út skýrsla um ættleiðingar á Íslandi sem Hrefna Friðriksdóttir vann fyrir ráðuneytið og var hún kynnt á morgunverðarfundi í mars 2011. Í skýrslunni er að finna margar gagnlegar ábendingar um þróun löggjafar og stjórnsýslu á sviði ættleiðinga hér á landi, m.a. er lagt til að stofnuð verði ættleiðingarnefnd sem myndi alfarið bera ábyrgð á að meta hæfi umsækjenda. Samkvæmt skýrslunni yrði gert ráð fyrir að tilteknir fagaðilar á vegum sýslumannsembættisins myndu annast eftir atvikum nauðsynlegar athuganir sem kæmu í stað umsagna barnaverndarnefnda og núverandi ættleiðingarnefndar. Að mati skýrsluhöfundar væri þetta fyrirkomulag til þess fallið að tryggja jafnræði umsækjenda og myndi auk þess stuðla að markvissum, samræmdum og faglegum vinnubrögðum. Í skýrslunni var ennfremur mælt með því að velja sýslumannsembætti í landshluta þar sem auðvelt yrði að tryggja greiðan aðgang fyrir sem flesta að starfsmönnum.

Í framhaldi af skýrslunni skipaði innanríkisráðherra starfshóp til að fara yfir tillögurnar og undirbúa frekari breytingar á löggjöf og reglum varðandi ættleiðingar hér á landi. Formaður starfshópsins er Þórunn Sveinbjarnardóttir, en aðrir meðlimir eru Hrefna Friðriksdóttir, Hörður Svavarsson, Jóhanna Gunnarsdóttir og Bragi Guðbrandsson. Í erindi sem starfshópurinn sendi ráðuneytinu í október 2011 var hvatt til þess að málaflokknum yrði fundinn framtíðar staðsetning og í því sambandi lögð áhersla á uppbyggingu sérfræðiþekkingar á ættleiðingarmálum. Með tilliti til þessa taldi starfshópurinn að málaflokknum yrði best fyrir komið hjá stóru embætti þar sem fleiri en einn starfsmaður sinna fjölskyldumálum. Að staðsetja verkefni hjá sýslumanni á höfuðborgarsvæði væri því fallið til að ná því markmiði, auk þess sem aðgengi þorra þeirra sem nýta þjónustu væri betur tryggt.

Starfshópurinn skilaði innanríkisráðherra áfangaskýrslu sinni í desember sl. Þar er meðal annars bent á að í Danmörku annast fjölskyldustofnun stjórnsýslu á sviði sifjaréttar í umboði ráðuneytisins. Starfshópurinn tekur ekki afstöðu til þess hvort innleiða beri slíkt fyrirkomulag á Íslandi enda er forgangsverkefnið að tryggja áfram vandaða málsmeðferð og góða stjórnsýslu á sviði ættleiðingarmála.

Ákvörðun um að færa þessi verkefni frá sýslumanni í Búðardal til sýslumannsins í Reykjavík er því bæði tilkomin vegna óska frá sýslumanni í Búðardal en einnig með hliðsjón af ábendingum sem ráðuneytinu hafa borist um framtíðarskipan þessara mála.

Í hádegisfréttum RÚV 2. janúar var rætt við Hörð Svavarsson, formann Íslenskrar ættleiðingar, af þessu tilefni. Þar gætti þess misskilnings að hjá embættum sýslumanna væri ekki fyrir hendi þekking á málefnum barna. Af þessu tilefni bendir ráðuneytið á að embætti sýslumanna eru grónar stofnanir sem áratugum saman hafa lögum samkvæmt fjallað um margvísleg málefni sem varða börn. Hjá sýslumönnum er því umtalsverð þekking á málefnum barna sem þessa málaflokka varðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum