Hoppa yfir valmynd
26. júní 2002 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundur EFTA á Egilsstöðum

Nr. 069

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, stýrði í dag ráðherrafundi Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, á Egilsstöðum. Eftir fundinn undirrituðu ráðherrarnir samning við Singapúr um fríverslun. Utanríkisráðherra lagði áherslu á að þessi samningur væri mikilvægur fyrir þær sakir að vera fyrsti fríverslunarsamningur Evrópuríkja við ríki í Austur-Asíu og hann gæti rutt braut fyrir samvinnu við önnur ríki í þessum heimshluta. Samningurinn er víðtækasti fríverslunarsamningur sem EFTA ríkin hafa gert og tekur til vöruviðskipta, þjónustuviðskipta, fjárfestinga, opinberra innkaupa, samkeppnismála og hugverkaréttinda.

EFTA ríkin hafa nú gert fríverslunarsamninga við nítján ríki (Búlgaríu, Eistland, Frelsisamtök Palestínu, Ísrael, Jórdaníu, Króatíu, Lettland, Litáen, Makedóníu, Mexíkó, Pólland, Rúmeníu, Singapúr, Slóvakíu, Tékkland, Tyrkland og Ungverjaland) með samtals 325 milljónir íbúa, til viðbótar við samninga þeirra við Evrópusambandið þar sem 375 milljónir manna búa. Sem dæmi um mikilvægi þessara samninga má nefna að verðmæti viðskipta EFTA ríkjanna við ríkin 19 eru sambærileg verðmætum viðskipta þeirra við Japan og Kanada samanlagt.

Ráðherrarnir fögnuðu því að viðræður um stækkun Evrópusambandsins ganga vel og lögðu áherslu á mikilvægi þess að við stækkun yrðu nýir tollamúrar ekki reistir í Evrópu. Gera þyrfti ráðstafanir til að tryggja áframhaldandi fríverslun með fisk.

Þrátt fyrir að fríverslunarsamningum fækki verulega á næstunni vegna væntanlegrar aðildar margra fríverslunarríkja að ESB heldur samstarf EFTA ríkjanna í fríverslunarmálum gildi sínu. EFTA ríkin hafa nú sótt meira út fyrir Evrópu og hafa þau nú þegar undirritað fríverslunarsamninga við Mexíkó, Singapúr, Jórdaníu, Marokkó, Ísrael og Frelsissamtök Palestínu. Í þessu sambandi lýstu ráðherrarnir yfir ánægju með árangur í samningaviðræðum um fríverslun við Chíle, sem Ísland leiðir fyrir hönd EFTA ríkjanna, en lok þeirra eru ráðgerð í haust. Þeir staðfestu að EFTA ríkin væru tilbúin til fríverslunarviðræðna við Suður Afríku. Ennfremur lýstu þeir yfir ánægju sinni með hversu mikla áherslu Ísland á formennskutímabili sínu lagði á að samningaviðræðum við Kanada um fríverslun yrði lokið hið fyrsta. Samningaviðræður við Egyptaland og Túnis standa nú einnig yfir og komust ráðherrarnir að mikilvægu samkomulagi sín á milli um samstarf við að aðstoða ríkin í því að aðlagast frjálsum viðskiptum. Þetta samkomulag ætti að liðka fyrir samningaviðræðunum. Ráðherrarnir fjölluðu um möguleika á því að hefja samningaviðræður við Japan, Kóreu, Líbanon, Alsír og Júgóslavíu.

Fjallað var um nýjan EFTA samning sem dýpkar EFTA-samstarfið hvað varðar þjónustuviðskipti, fjárfestingar, fólksflutninga, gagnkvæma viðurkenningu starfsréttinda, opinber innkaup og reglur um úrlausn deilumála. Samningurinn, sem tók gildi 1. júní s.l., verður í sífelldri þróun og tekur breytingum reglulega í samræmi við þróun EES samningsins á ákveðnum sviðum. Ráðherrarnir staðfestu að undirbúningur hafi gengið samkvæmt áætlun og að allt sé nú til staðar svo samningurinn geti þróast í takt við tímann.

Á fundinum var einnig rætt um samskipti EFTA við Evrópusambandið, EES-samninginn og innri málefni EFTA. Ráðherrarnir fjölluðu um aðgerðir Evrópusambandsins vegna tolla Bandaríkjanna á innflutning stáls og lýstu yfir furðu sinni á því að EES/EFTA ríkin voru ekki undanþegin gagnaðgerðum Evrópusambandsins vegna EES samningsins. Málið hefur verið tekið upp í Brussel og verður því fylgt eftir þar. Hér er um að ræða frávik frá grundvallarreglum samningsins. ESB ber fyrir sig öryggisákvæði samningsins en til þessa hefur verið litið svo á að einungis yrði gripið til þess í algeru neyðartilfelli.

Ennfremur var rætt um þátttöku EFTA ríkjanna í fyrirhuguðum stofnunum ESB um öryggi í flugi, siglingum og matvælaeftirliti. Sviss skýrði frá framgangi viðræðna við ESB, þ.m.t. um aðild að Schengen. Skipst var á skoðunum um það hvernig styrkja mætti þátttöku EFTA ríkjanna í nefndastarfi á vegum ESB.

Á morgun funda ráðherrarnir með þingmannanefnd EFTA og ráðgjafarnefnd EFTA þar sem málefni EFTA og EES-samstarfsins verða rædd, auk þróunarinnar í Evrópu almennt.

Meðfylgjandi er fréttatilkynning EFTA frá fundinum og ítarefni um fríverslunarsamninginn við Singapúr.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 26. júní 2002



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum