Hoppa yfir valmynd
17. september 2018 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Greinargerð um þriðja orkupakkann

Birgir Tjörvi Pétursson lögmaður hefur að beiðni ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra unnið greinargerð um þriðja orkupakka Evrópusambandsins.

Sameiginlega EES-nefndin ákvað á liðnu ári að taka þriðja orkupakkann upp í EES-samninginn eftir nokkurra ára umfjöllun. Gerður var fyrirvari um samþykki Alþingis. Hann tekur því ekki gildi nema Alþingi, að tillögu utanríkisráðherra, staðfesti ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, auk þess sem hluti hans kallar á breytingar á raforkulögum. Það hefur aldrei gerst í sögu EES-samningsins að Alþingi hafi hafnað ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Í greinargerðinni er fjallað um fyrsta og annan orkupakka Evrópusambandsins, sem voru báðir innleiddir hér á landi á sínum tíma, og hvaða breytingar felast í þeim þriðja. Komið er inn á helstu álitaefni sem hafa vaknað í umræðum um málið, svo sem um ráðstöfunarrétt á orkuauðlindum Íslands, framsal valds og fleira.

Niðurstöðurnar eru meðal annars:

  • Athugun á innihaldi þriðja orkupakkans styður ekki sjónarmið um að innleiðing hans fæli í sér slík frávik frá þverpólitískri stefnumörkun og réttarþróun á Íslandi að það kalli sérstaklega á endurskoðun EES-samningsins. Með innleiðingu hans væri ekki brotið blað í EES-samstarfinu.
  • Athugun á reglum þriðja orkupakkans leiðir ekki heldur í ljós grundvallarfrávik frá þeirri stefnumörkun sem fólst í innleiðingu fyrsta og annars orkupakkans á sínum tíma.
  • Ekki verður séð að reglur þriðja orkupakkans um aukið sjálfstæði raforkueftirlits feli í sér frávik eða eðlisbreytingu frá því sem gildir um aðrar sjálfstæðar eftirlitsstofnanir á Íslandi sem á undanförnum árum hefur verið fengið aukið sjálfstæði, sbr. t.d. Samkeppniseftirlitið og Fjármálaeftirlitið.
  • Sú aðlögun þriðja orkupakkans að tveggja stoða kerfinu sem EES-samningurinn mælir fyrir um á sér samsvörun í aðlögun gerða um fjármálaeftirlit.
  • Ótvírætt verður að telja að valdheimildir ESA á grundvelli þriðja orkupakkans rúmist vel innan þeirra marka sem dregin voru við innleiðingu reglna um evrópskt samkeppnis- og fjármálaeftirlit.
  • Þriðji orkupakkinn leggur ekki skyldu á íslensk stjórnvöld um að tengjast innri raforkumarkaði sambandsins með streng.
  • Reglur um samkeppni, bann við ríkisaðstoð, neytendarvernd og fleira takmarka svigrúm íslenskra stjórnvalda í raforkumálum, en þessar takmarkanir hafa nú þegar verið leiddar í lög hér á landi og leiðir það hvort tveggja af grunnreglum EES-samningsins og reglum fyrsta og annars orkupakkans. Ekki verður séð að fullyrðingar um að þriðji orkupakkinn feli í sér eðlisbreytingar hvað þetta varðar hvíli á traustum grunni.
  • Reglur þriðja orkupakkans varða ekki á nokkurn hátt eignarrétt á orkuauðlindum á Íslandi.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra segir greinargerðina mikilvægt innlegg í umræðu um málið.

„Þrátt fyrir að þetta mál hafi verið til meðferðar hjá stjórnvöldum í nokkur ár benti umræðan fyrr á árinu til þess að ýmsum spurningum hefði ekki verið nægilega vel svarað eða þeim svörum ekki verið komið nægilega vel á framfæri. Ég hef lagt mig fram við að hlusta á alla gagnrýni sem sett hefur verið fram á málið og leita svara við álitaefnum og spurningum,“ segir Þórdís Kolbrún.

„Greinargerðin er ítarleg, setur málið í gott heildarsamhengi og svarar að mínu mati vel helstu spurningum sem fram hafa komið. Þá sýnist mér hún vera í ágætu samræmi við það sem aðrir helstu sérfræðingar hafa sagt um málið. Ég nefni minnisblað Ólafs Jóhannesar Einarssonar lögmanns til ráðuneytisins í apríl síðastliðnum, framsögu Kristínar Haraldsdóttur forstöðumanns Auðlindaréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík á ráðstefnu á vegum skólans nú í ágúst og nýlega grein Rögnu Árnadóttur aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar í Úlfljóti.“

„Á grundvelli þess sem hefur komið fram um málið er ekki að sjá að innleiðing þess í íslensk lög fæli í sér meiriháttar frávik frá fyrri stefnumótun stjórnvalda í þessum málaflokki en almennt myndi ég telja að það þurfi afar sterk rök til að hafna með öllu upptöku ESB gerðar í EES samninginn sem talin er varða innri markaðinn. Það væri í fyrsta skipti frá upphafi sem við gerum það og ekki ljóst hvert það myndi leiða,“ segir Þórdís Kolbrún.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira