Hoppa yfir valmynd
13. desember 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Opinber stefna verði sett um vindorku og ákvörðunarvaldið fært nærsamfélögum

Kynning á tillögum starfshóps um vindorku - mynd

Nærsamfélög ættu að hafa endanlegt ákvörðunarvald um hvort vindorka byggist upp innan marka þeirra og tryggja þarf sérstakan ávinning þeirra af hagnýtingu vindorku.  Þetta er meðal þess sem fram kemur í tillögum starfshóps um vindorku, sem jafnframt telur að vindorkan eigi áfram heima innan rammaáætlunar, en að hægt eigi að vera að taka ákveðna virkjanakosti út fyrir rammaáætlun. Þetta verði hægt ef sérstök skilyrði í þágu orkuskipta og kolefnishlutleysis Íslands eru til staðar og liggi ákvörðunarvaldið um uppbyggingu þeirra þá hjá hlutaðeigandi sveitarfélagi og öðrum stjórnvöldum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði í júlí 2022  þriggja manna starfshóp sem fékk það hlutverk að skoða og gera tillögur til ráðherra um drög að lögum og reglugerð um vindorku, með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku, jafnframt því að tekið verði tillit til sjónrænna áhrifa, dýralífs og náttúru. Fram kemur í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að sérlög verði sett um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera.

Starfshópinn skipuðu þau:

Hilmar Gunnlaugsson formaður hópsins

Björt Ólafsdóttir, fyrrv. ráðherra umhverfis- og auðlindamála

Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrv. alþingismaður.

Starfshópurinn skilaði af sér stöðuskýrslu í apríl sl., þar sem dregin voru saman helstu álitaefni sem komið höfðu upp við vinnu hópsins auk þess sem settir voru fram ýmsir valkostir um hvaða leiðir væru færar til að leysa úr þeim.  Í framhaldinu voru haldnir opnir kynningarfundir um allt land þar sem starfshópurinn, ásamt umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sátu fyrir svörum um málefni vindorkunnar.  Eftir að hafa hlýtt á sjónarmið hagaðila og almennings vann hópurinn áfram að málinu með það að markmiði að leggja til breytingar á lagaramma um vindorku til að ná framangreindum markmiðum.

Viðkvæm svæði vernduð og sett verði stefna um hagnýtingu vindorku

Starfshópurinn hefur skilað tillögum sínum til ráðherra og voru þær kynntar í dag. Meðal þess sem hópurinn leggur til er að:

  • Sett verði opinber stefna í formi þingsályktunartillögu um hagnýtingu vindorku.
  • Vindorka verði áfram innan rammaáætlunar svo tryggja megi samræmda og faglega meðferð og yfirsýn allra vindorkukosta og betri sátt um málefni vindorkunnar.
  • Svæði innan miðhálendislínu verði alfarið vernduð fyrir uppbyggingu vindorku, auk tiltekinna annarra viðkvæmra svæða.
  • Vindorka byggist frekar upp á svæðum sem þegar eru röskuð vegna mannlegra athafna.
  • Nærsamfélög fái endanlegt ákvörðunarvald um hvort vindorka byggist upp innan marka þeirra.
  • Tryggður verði sérstakur ávinningur nærsamfélaga af hagnýtingu vindorku.

Hægt verði að taka ákveðna virkjanakosti út fyrir rammaáætlun

Starfshópurinn leggur enn fremur til að tilteknir virkjunarkostir sem uppfylla ákveðin grunnskilyrði geti verið teknir úr frekara ferli í rammaáætlun og þeim verði þess í stað vísað til ákvörðunartöku hjá sveitarfélagi og öðrum stjórnvöldum í stað Alþingis og sé þar um að ræða sérstaka málsmeðferð í þágu orkuskipta- og kolefnishlutleysis. Meðal þeirra skilyrða sem slíkir virkjakostir yrðu að uppfylla er að virkjunarkosturinn komi til með að vera liður í því að Íslands nái markmiðum sínum um orkuskipti og kolefnishlutleysi. Virkjanakosturinn þarf þá að vera innan landsvæðis sem almennt telst raskað af mannlegum athöfnum, né heldur rýri hann um of mikilvæga verndarhagsmuni svæða sem njóta sérstöðu á landsvísu vegna náttúru-, menningarminja, eða sé á svæði þar sem mikið er um villta fugla sem metnir eru í hættu eða teljast með hátt verndargildi.

Uppfylli virkjunarkosturinn þessi skilyrði, geti ráðherra, að tillögu verkefnisstjórnar og að undangengnu opinberu samráði ákveðið að virkjunarkostinum sé vísað  til frekari ákvörðunar í nærsamfélagi hjá hlutaðeigandi sveitarfélagi og öðrum stjórnvöldum, sem taki afstöðu til næstu skrefa, í stað þess að hann sæti frekari málsmeðferð innan verndar- og orkunýtingaráætlunar. Telji ráðherra virkjunarkostinn hins vegar ekki uppfylla þessi skilyrði heldur málsmeðferð áfram innan rammaáætlunar með hefðbundnum hætti.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Það er öllum ljóst að okkur liggur á að framleiða græna orku. Til þess að svo megi verða þá verðum við að einfalda regluverk án þess að gefa afslátt af þeim kröfum sem við viljum gera. Þessar tillögur eru afrakstur mikillar vinnu, mikils samráðs og uppfylla þau skilyrði sem hópnum voru sett. Mikilvægt er að almenningur og hagaðilar kynni sér tillögur hópsins og að við tökum málefnalega og vel upplýsta umræðu um þessi mikilvægu mál.“

 

  • Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum