Hoppa yfir valmynd
1. júní 2004 Utanríkisráðuneytið

Í dag tók Ísland við stjórn alþjóðaflugvallarins í Kabúl

Í morgun, þriðjudaginn 1. júní var Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra viðstaddur þegar fjölþjóðlegt lið NATO undir forystu Íslendinga tók við stjórn alþjóðaflugvallarins í Kabúl (KAIA - Kabul International Airport) úr höndum Þjóðverja. Aðildarþjóðir NATO leggja til mannskap en tæki og búnaður ásamt rekstrarkostnaði greiðist af NATO. Þetta er stærsta verkefni íslensku friðargæslunnar frá upphafi en Ísland mun gegna hlutverki "Focal-Point" í fjölþjóðaliðinu sem tekur við rekstri flugvallarins og leggja til 17 af rúmlega 300 stöðugildum sem þarf til að reka flugvöllinn. Yfirmaður flugvallarins, flugvallarstjórinn, verður íslenskur - Hallgrímur Sigurðsson sem gegndi sams konar hlutverki á Pristínaflugvelli. Það er ekki síst fyrir þær sakir hversu vel gekk í Pristína að Íslendingum er treyst fyrir Kabúlflugvelli.

Yfirmaður flugumsjónar (Chief Air Ops) verður einnig íslenskur, Ólafur Ragnar Ólafsson en með honum munu m.a starfa 3 íslenskir flugumsjónarmenn auk 12 annarra. Slökkviliðsstjórinn á vellinum verður einnig íslenskur, Kristján Björgvinsson. Með Kristjáni og að auki munu starfa 4 aðrir íslenskir slökkviliðsmenn á flugvellinum. Í slökkviliðinu eru 36 manns frá öllum Norðurlöndunum og Portúgal. Að auki verða 2 flugumferðarstjórar, 1 vélstjóri, 2 smiðir/vinnuvélamenn og rekstrarmenn og öryggissérfræðingar með í hópnum.

Hópsstjóri verður Ólafur Egilsson sérsveitarlögreglumaður sem jafnframt verður tengiliður flugvallarstjóra varðandi öryggismál o.fl.

Sæmilega hefur gengið að manna allar stöður sem þarf og eru líkur á að það verði búið að mestu 1. júní. Sömu sögu er að segja um búnað og tæki en gert verður samkomulag við Þjóðverja um að þeir skilji eftir og leigi NATO eftir þörfum nauðsynlegan búnað þegar þeir fara.

Afganistan er mjög háð flugsamgöngum enda samgöngur á landi bæði mjög erfiðar víða hættulegar. Segja má að flugvöllurinn í Kabúl sé lífæð og myndi t.d. lítið fara fyrir starfsemi ýmissa hjálparsamtaka ef þau gætu ekki treyst á loftleiðina bæði varðandi vistir, fólk og hjálpargögn.

Í morgun lenti einnig í Kabúl flugvél sem fór frá Íslandi með hjálpargögn sem Hjálparstarf kirkjunnar og Rauði kross Íslands höfðu forgöngu um að safna en íslensk stjórnvöld kostuðu flugið. Var þar um að ræða t.d. sjúkrarúm, hjólastóla, hækjur, skurðarborð og búnað í fæðingarstofur auk lyfja og vetrarfatnaðar fyrir konur og börn. Þessum hjálpargögnum var tekið fagnandi enda þörfin í landinu brýn. Samstarfsaðilar Hjálparstarfs kirkjunnar og Rauða kross Íslands munu sjá um að dreifa gögnunum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum