Hoppa yfir valmynd
5. janúar 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Skýr heilbrigðisstefna með jöfnuð að leiðarljósi

Svandís SvavarsdóttirSvandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir eitt mikilvægasta verkefnið framundan að móta skýra og markvissa heilbrigðisstefnu sem verði hluti af samfélagssáttmála og snúist um jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag eða búsetu fólks og tryggi skynsamlega nýtingu almannfjár.  Slík stefna þurfi jafnframt að lifa af kosningar og breytingar á landsstjórninni.

Um þetta skrifar Svandís í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Þar fjallar hún meðal annars um aukin framlög til heilbrigðisþjónustunnar sem ákveðin voru með fjárlögum þessa árs og segir þau í samræmi við langvarandi kröfu úr samfélaginu öllu þar sem efnahagslífið hafi náð að rétta úr kútnum en ljóst að heilbrigðiskerfið hafi setið eftir.

„Fyrir liggur að innspýting af þessu tagi dugar hvergi nærri til að tryggja að heilbrigðisþjónustan á Íslandi dragist ekki aftur úr. Til þess þarf frekari aðgerðir“ skrifar ráðherra og segir þar mikilvægast að móta skýra og markvissa heilbrigðisstefnu sem verði leiðarljós allra sem starfa í málaflokknum. Verkaskipting verði að vera skýr, greina þurfi hvort og hvar verkefni skarist og eins hvort einhvers staðar skorti þjónustu sem sannarlega sé þörf fyrir.

Svandís skrifar um mikilvægi þess að tryggja jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu en bendir jafnframt á að hluta heilbrigðisþjónustunnar sé aðeins hægt að bjóða „á öflugu móðursjúkrahúsi íslenska heilbrigðiskerfisins, Landspítalanum Háskólasjúkrahúsi. Þar fara fram rannsóknir, kennsla auk þess sem allar flóknari aðgerðir og þyngri þjónusta er veitt. LSH þjónar landinu öllu þegar þjónustunni í heimabyggð sleppir og er þannig bakland alls heilbrigðiskerfisins í landinu.“

„Í fjárlagaumræðunni nú fyrir jól varð ég þess áskynja í þingsal að almennur vilji þingmanna stendur til þess að stefnumótun af þessu tagi fari fram og að jöfnuður sé þar leiðarljós. Ég mun ráðast í mótun á skýrri heilbrigðisstefnu nú á næstu mánuðum sem mun hafa það hlutverk að liggja til grundvallar öllum helstu ákvörðunum í málaflokknum til framtíðar“ skrifar Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum