Hoppa yfir valmynd
21. október 2003 Utanríkisráðuneytið

Óformlegur samráðsfundur utanríkisráðherra Norðurlanda og nokkurra Afríkuríkja í Mósambík

Nr. 120

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat óformlegan samráðsfund utanríkisráðherra Norðurlanda og utanríkisráðherra Benín, Botsvana, Gana, Malí, Mósambík, Nígeríu, Senegal, Suður-Afríku og Tansaníu sem haldinn var í Pemba í norðurhluta Mósambík dagana 20.-21. október 2003. Helsta umfjöllunarefni fundarins var staða Afríkusambandsins og framkvæmd svonefnds endurnýjaðs samstarfs um þróun Afríku (NEPAD) og framtíðarhorfur í því sambandi.
Á fundinum ræddu ráðherrarnir m.a. um samhengið á milli lýðræðis og mannréttinda í Afríku annarsvegar og átakavarna og lausnar deilumála í álfunni hinsvegar. Samstaða var um nauðsyn þess að samfélag þjóðanna aðstoðaði Afríkuríki við að finna eigin leiðir til að tryggja innbyrðis frið og stöðugleika á lýðræðislegum forsendum, m.a. á grundvelli nýstofnaðs Afríkusambands. Skipst var á skoðunum um ástand og horfur í Simbabve og hvöttu norrænir utanríkisráðherrar afríska starfsbræður til að gera ríkisstjórn Múgabe forseta grein fyrir áhyggjum margra ríkja vegna alvarlegra mannréttindabrota þar í landi.
Ráðherrarnir fjölluðu einnig um mikilvægi áframhaldandi þróunarsamvinnu og fjárfestinga erlendra fyrirtækja í Afríku. Samstaða var um nauðsyn þess að svonefndri DOHA-samningalotu innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) yrði lokið sem fyrst, m.a. í því skyni að bæta markaðsaðgengi þróunarríkja.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík,

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum