Hoppa yfir valmynd
17. júlí 2015 Úrskurðir velferðarráðuneytisins 2011-2018, Heilbrigðisráðuneytið

Kæra vegna synjunar Embættis landlæknis um sérfræðileyfi í endurhæfingarlækningum

Úrskurður velferðarráðuneytisins nr. 013/2015

Föstudaginn 17. júlí 2015 var í velferðarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Með bréfi, dags. 15. nóvember 2014, kærði A (hér eftir nefndur kærandi), til velferðarráðuneytisins ákvörðun Embættis landlæknis, dags. 22. ágúst 2014, um að synja kæranda um sérfræðileyfi í endurhæfingarlækningum.

I. Kröfur.

Kærandi gerir þær kröfur að ákvörðun Embættis landlæknis, dags. 22. ágúst 2014 verði endurskoðuð, en kærandi telur sig uppfylla ákvæði IX. liðar 10. gr. þágildandi reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi, nr. 1222/2012, sem felld var úr gildi með reglugerð um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi, nr. 467/2015.

II. Málsmeðferð ráðuneytisins.

Ráðuneytið óskaði með bréfi, dags. 20. nóvember 2014, eftir umsögn Embættis landlæknis og gögnum varðandi málið. Umsögn embættisins ásamt gögnum barst velferðarráðuneytinu með bréfi, dags. 3. desember 2014. Kæranda var með bréfi, dags. 12. desember 2014, send umsögn Embættis landlæknis ásamt gögnum og gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugsemdir kæranda bárust með bréfi, dags 23. desember 2014. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 20. febrúar 2015, var óskað eftir að kærandi sendi inn staðfest ljósrit af frumvottorðum svo og staðfestar þýðingar. Ráðuneytið sendi fyrir tilstuðlan Embættis landlæknis framlögð vottorð um menntun og störf kæranda til bærra yfirvalda í Þýskalandi og Noregi gegnum IMI-kerfið og bárust svör þann 31. mars 2015. Kæranda voru send framangreind svör.

Ráðuneytið óskaði með bréfi, dags. 9. apríl 2015, eftir að kærandi legði fram staðfest ljósrit af vottorðunum sem kærandi sendi með kæru, og barst svar með bréfi, dags. 2. júní 2015.

III. Málavextir.

Þann 9. janúar 2014 sendi kærandi umsókn til Embættis landlæknis um sérfræðileyfi í endurhæfingarlækningum. Umsóknin var send sérfræðinefnd til umsagnar með bréfi embættisins, dags. 15. janúar 2014. Bréf sérfræðinefndar, dags. 24. febrúar 2014, var sent kæranda með bréfi, dags. 26. febrúar 2014, og bárust andmæli hans með bréfi, dags. 19. apríl 2014. Embættið hafði óskað eftir frekari gögnum frá kæranda en þau bárust ekki. Með tölvupósti, dags. 30. apríl 2014, var kæranda gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn til 21. maí 2014. Embættinu barst tölvupóstur frá kæranda dags. 22. maí 2014, þar sem kærandi setur fram frekari andmæli. Á grundvelli niðurstöðu sérfræðinefndar var kæranda synjað um sérfræðileyfi með bréfi embættisins, dags. 22. ágúst 2014. Ákvörðun Embættis landlæknis var kærð til ráðuneytisins með bréfi, dags. 15. nóvember 2014.

IV. Málsástæður og lagarök kæranda.

Í kæru kemur meðal annars fram að kærandi telur sig uppfylla skilyrði IX. liðar 10. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi, nr. 1222/2012. Hann hafi starfað í tvö ár og níu mánuði í starfsþjálfun í endurhæfingarlækningum við „Pain clinic Arkauwald“ sem sé einkastofnun sem sérhæfi sig í krónískum verkjum. Handleiðari kæranda sé sérfræðingur í svæfinga- og endurhæfingarlækningum. Kærandi óskar eftir því að framangreind þjálfun verði metin jafngild íslenskum kröfum. Þá hafi kærandi fengið þjálfun í endurhæfingarlækningum í þrjá mánuði á „Neurological Hospital Bad Neustadt“. Eins árs þjálfun kæranda í lyflæknisfræði hafi farið fram á „Wertheim Red Cross Hospital“.

Þá kemur fram í kæru að kærandi starfaði í Noregi í 25 mánuði sem aðstoðarlæknir við Aker háskólasjúkrahúsið, þar af hálft ár í geðlæknisfræði. Framangreind þjálfun hafi farið fram að loknu eins árs kandídatsári og kærandi haft tímabundið lækningaleyfi. Vinna kæranda á geðdeild hafi því farið fram að loknu kandídatsári. Öll önnur þjálfun hafi verið samfelld undir handleiðslu sérfræðinga. Þá hafi kærandi í millitíðinni stundað sérfræðinám í geðlæknisfræði sem undirgrein. Kærandi hafi sem undirsérgreinar verkjafræði, geðlæknisfræði, líknarlækningar og náttúrulækningar.

Í athugasemdum kæranda við umsögn Embættis landlæknis kemur meðal annars fram ítrekun um að kærandi telji sig uppfylla skilyrði IX. liðar 10. gr. reglugerðar nr. 1222/2012, eins og áður framlögð gögn og vottorð sýni. Kærandi telur hvorki embættið né sérfræðinefndina virða ákvæði reglugerðarinnar. Hann uppfylli kröfu um þriggja ára þjálfun í endurhæfingarlækningum en reglugerðin kveði ekki á um að þjálfun á endurhæfingardeild fyrir verkjasjúklinga (syndrome) sé ekki viðurkennd. Kærandi hafi eins árs starfsþjálfun á lyfjadeild, en reglugerðin kveði ekki á um að starf á taugalækningadeild, sem sé hluti lyfjadeildar, sé ekki viðurkennt. Þá komi ekki fram í reglugerðinni að starf hans á geðdeild með tímabundið starfsleyfi sé ekki viðurkennt. Reglugerðin kveði ekki á um að sérfræðinám geti ekki verið stundað af (senior) lækni eða unglækni með tímabundið starfsleyfi.

V. Málsástæður og lagarök Embættis landlæknis.

Í umsögn embættisins er málsmeðferð embættisins lýst og talin upp þau gögn sem fylgdu umsókn kæranda um sérfræðileyfi í endurhæfingarlækningum, auk þess er rakinn umsagnaferill umsóknarinnar.

Í umsögn embættisins eru rakin skilyrði 7. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, og skilyrði 2. mgr. 8. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi, nr. 1222/2012. Þá sé kveðið á um í 10. gr. reglugerðarinnar að veita megi sérfræðileyfi í endurhæfingarlækningum að loknu formlegu viðurkenndu sérfræðinámi, hafi umsækjandi starfað skv. IX. tölul. 10. gr. reglugerðarinnar í þrjú ár á endurhæfingardeild, eitt ár á lyfjadeild og hálft ár á geðdeild.

Með vísan til niðurstöðu sérfræðinefndar, dags. 24. febrúar 2014, sé það mat embættisins að kærandi uppfylli ekki skilyrði til að hljóta réttindi sem sérfræðingur í endurhæfingarlækningum á grundvelli þeirra gagna er lágu fyrir í máli kæranda. Í umsögn sérfræðinefndar kemur meðal annars fram að kærandi hafi lokið læknaprófi í Wurzburg haustið 1998. Kærandi hafi starfað sem aðstoðarlæknir við geðdeild Aker háskólasjúkrahússins í Ósló frá 3. ágúst 1998 til 31. ágúst 2000 (í 25 mánuði) og hlotið lækningaleyfi í Noregi og Þýskalandi að því loknu. Hljóti framangreind starfsreynsla því að flokkast undir kandídatsár. Ekki liggi fyrir frekari upplýsingar um störf kæranda frá september 2000 til 1. janúar 2009. Kærandi hafi starfað frá 1. janúar 2009 til 31. desember 2009 (í 12 mánuði) á taugadeild í Bad Neustadt/Saale í Þýskalandi, þar af þrjá mánuði á endurhæfingardeild. Frá 1. janúar 2010 til 31. mars 2011 hafi kærandi unnið á lyflækningadeild við Wertheim Red Cross Hospital við taugalækningar. Frá 1. apríl 2011 til 31. desember 2013 hafi kærandi starfað sem læknir og yfirlæknir á verkjamóttöku við Schmerzklinik am Arkauwald í Baden Mergentheim í Þýskalandi, en þar sé enginn endurhæfingalæknir skráður samkvæmt heimasíðu stofnunarinnar. Samkvæmt framangreindum gögnum hafi kærandi víðtæka þekkingu á taugasjúkdómum og verkjavandamálum. Kærandi hafi hins vegar takmarkaða starfsreynslu af almennri endurhæfingu og hafi einungis starfað undir handleiðslu endurhæfingarlæknis í þrjá mánuði. Undanfarin þrjú ár hafi kærandi starfað sem yfirlæknir sem geti ekki talist námsstaða. Til að unnt sé að veita kæranda sérfræðileyfi í endurhæfingarlækningum þurfi hann að sýna fram á að starfsreynsla hans teljist fullnægjandi til viðurkenningar í endurhæfingarlækningum í Þýskalandi. Hvað varði aukagreinar þá hafi kærandi starfað á geðdeild á kandídatsári sem ekki sé unnt að telja til sérfræðináms. Þá hafi kærandi samkvæmt fyrirliggjandi gögnum ekki unnið á almennri lyflækningadeild sem lyflæknir heldur einungis sem taugalæknir. Að jafnaði sé gert ráð fyrir að framhaldsnám sé samfellt og hefjist að loknu kandídatsári. Nefndin hafi ekki tekið afstöðu þess þáttar þar sem að mati nefndarinnar séu önnur skilyrði ekki uppfyllt. Enn fremur komi ekki fram hvort þær heilbrigðisstofnanir er kærandi stundaði nám við teljist viðurkenndar í endurhæfingarlækningum.

Sérfræðinefndin mælti ekki með veitingu sérfræðileyfis í endurhæfingarlækningum.

VI. Niðurstaða ráðuneytisins.

Kæran lýtur að synjun Embættis landlæknis á útgáfu sérfræðileyfis í endurhæfingarlækningum til handa kæranda.

Skilyrði til að kalla sig sérfræðing innan löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem slíkur hér á landi er að finna í 7. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012. Í 8. gr. laganna kemur fram að þau skilyrði sem uppfylla þarf til að mega kalla sig sérfræðing skuli kveðið á um í reglugerð.

Í 7. gr. reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi, nr. 1222/2012, er kveðið á um þau skilyrði sem uppfylla þarf til að hljóta sérfræðileyfi í sérgrein innan læknisfræði hér á landi. Þar kemur meðal annars fram að sérfræðinám skuli skilgreint innan þeirrar sérgreinar sem umsókn tekur til.

Þá segir í 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar: „Til að læknir geti átt rétt á sérfræðileyfi skv. 6. gr. skal hann uppfylla eftirtaldar kröfur:

a. hann skal hafa lokið embættisprófi í læknisfræði frá læknadeild Háskóla Íslands skv. 3. gr. og viðbótarnámi skv. 4. gr. eða hafa lokið sambærilegu námi   erlendis, og

b. hann skal hafa hlotið fullt og ótakmarkað lækningaleyfi hér á landi skv. 2. gr. áður en sérfræðinám hefst, og

c. hann skal hafa lokið viðurkenndu sérfræðinámi eða sérfræðiprófi og tileinkað sér þekkingu, klíníska og verklega færni og aðferðarfræði sem krafist er fyrir viðkomandi sérgrein skv. 10. gr.“

Þá er og kveðið á um að heimilt sé að staðfesta sérfræðileyfi frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og Sviss eða veita sérfræðileyfi á grundvelli menntunar frá fyrrgreindum ríkjum. Um slíka viðurkenningu læknis sem uppfyllir tilskipun 2005/36/EB fari samkvæmt reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011, en með þeirri reglugerð er framangreind tilskipun innleidd í íslenskan rétt.

Í 8. gr. reglugerðar nr. 1222/2012 er kveðið á um að sérfræðinám skv. 10. gr. reglugerðarinnar megi einungis fara fram á þeim heilbrigðisstofnunum sem séu viðurkenndar í viðkomandi landi til slíks náms. Þá eru í 10. gr. reglugerðarinnar taldar upp þær sérgreinar sem heimilt er að veita sérfræðileyfi í að loknu formlegu viðurkenndu sérfræðinámi samkvæmt töluliðum I–IXXVI og falla endurhæfingarlækningar undir tölulið IX. Þar kemur fram að sérnámslæknir skuli hafa starfað:

a. Þrjú ár á endurhæfingardeild.

b. Eitt ár á lyfjadeild.

c. Hálft ár á geðdeild.

Í 11. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að umsókn ásamt gögnum skuli senda til landlæknis, og skuli leitað umsagnar sérfræðinefndar áður en sérfræðileyfi er veitt skv. 6. gr. reglugerðarinnar, á grundvelli menntunar utan Íslands, um hvort umsækjandi uppfylli skilyrði 7.–10. gr. reglugerðarinnar.

Í 9. gr. reglugerðar nr. 461/2011 kemur fram að sérgreinin sem sótt er um þurfi að vera viðurkennd á Íslandi. Umsækjandi þurfi að leggja fram vitnisburð um formlega menntun og hæfi samkvæmt lið 5.1.2 í tilskipun 2005/36/EB. Þá kemur fram að við mat á sérfræðinámi skuli tekið tillit til tímalengdar og innihalds náms umsækjanda, starfsreynslu og viðbótarnáms innan læknisfræði almennt. Þá er kveðið á um að sérfræðinám megi einungis fara fram á þeim heilbrigðisstofnunum sem viðurkenndar séu til slíks sérnáms í heimalandi umsækjanda.

Þá er í 25. gr. tilskipunar 2005/36/EB kveðið á um sérnám í læknisfræði. Í 1. tölul. greinarinnar kemur meðal annars fram að hlutaðeigandi skuli hafa lokið viðurkenndu sex ára námi í læknisfræði. Í 2. tölul. kemur meðal annars fram að sérnám í læknisfræði skuli fela í sér fræðilegt og verklegt nám við háskóla eða kennslusjúkrahús eða þar sem það við á, við sjúkrastofnun sem lögbær yfirvöld viðurkenna til stundunar sérnáms í læknisfræði. Námið skuli fara fram undir umsjón lögbærra yfirvalda eða stofnana.

Eins og fram kemur í b-lið 7. gr. reglugerðar nr. 1222/2012 skal umsækjandi um sérfræðileyfi hafa hlotið fullt og ótakmarkað lækningaleyfi hér á landi áður en sérfræðinám hefst og mun kærandi hafa hlotið almennt lækningaleyfi hér á landi þann 30. mars 2012 og sérfræðileyfi í taugalækningum þann 30. mars 2012.

Samkvæmt innsendum gögnum með kæru mun kærandi hafi lokið læknaprófi í Wurzburg haustið 1998 og hlaut hann almennt lækningaleyfi í Þýskalandi og Noregi 5. maí 2000. Samkvæmt yfirliti yfir stöður frá 3. ágúst 1998 til 31. nóvember 2001, útgefnu af Bayerische Landätztekammer í Munchen 10. október 2007, mun kærandi hafa starfað frá 3. ágúst 1998 til 31. ágúst 2000 eða samtals 25 mánuði á sviði geðlækninga við geðdeild Aker sjúkrahússins í Ósló og frá 1. nóvember 2000 til 31. mars 2001 og 15. maí 2002 til 14. nóvember 2002, samtals ellefu mánuði á sviði taugalækninga við Rikshospitalet í Ósló. Þá hafi kærandi starfað frá 1. apríl 2001 til 31. október 2001 eða samtals sjö mánuði á sviði taugaskurðlækninga við Rikshospitalet í Ósló og frá 1. nóvember 2001 til 30. nóvember 2001 eða einn mánuð við lungnalækningar við Rikshospitalet í Ósló. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins við hvað umsækjandi starfaði frá 31. nóvember 2001 fram til 1. janúar 2009. Þá mun kærandi, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, hafa starfað frá 1. janúar 2009 til 31. desember 2009 á taugalækningadeild Bad Neustadt/Saale í Þýskalandi, þar af þrjá mánuði á endurhæfingardeild. Frá 1. janúar 2010 til 31. mars 2011 starfaði kærandi á lyflækningadeild við Wertheim Red Cross Hospital við taugalækningar, samtals fimmtán mánuði. Frá 1. apríl 2011 til 31. desember 2013 starfaði kærandi sem yfirlæknir á verkjamóttöku við Schmerzklinik am Arkauwald í Bad Mergentheim í Þýskalandi.

Frá 1. janúar 2014 starfar kærandi sem yfirlæknir á öldrunardeild Klinikum Main-Spessart. Í gögnum málsins liggur og fyrir vottorð um að Rot-Kreuz-Klinik Wertheim hafi verið viðurkennd til að veita sérfræðimenntun í almennum lyflækningum í fimm ár á tímabilinu frá nóvember 1985 til september 2011.

Eftir útgáfu sérfræðileyfis í taugalækningum hér á landi þann 30. mars 2012 hefur kærandi starfað sem yfirlæknir á verkjamóttöku við Schmerzklinik am Arkauwald í Bad Mergentheim í Þýskalandi fram til 31. desember 2013. Frá 1. janúar 2014 starfar kærandi sem yfirlæknir á öldrunardeild Klinikum Main-Spessart.

Þegar kærandi hlaut sérfræðileyfi í taugalækningum hér á landi þurftu skilyrði IV. kafla reglugerðar um veitingu lækningaleyfa og sérfræðileyfa, nr. 305/1997, með síðari breytingum, að vera uppfyllt. Samkvæmt XXIV. tölul. um taugalækningar í 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar þurfti umsækjandi um sérfræðileyfi í taugalækningum að hafa starfað fjögur ár á taugadeild og hálft ár á lyfjadeild. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum starfaði kærandi eftir að hann hlaut almennt lækningaleyfi í Noregi og Þýskalandi frá 1. nóvember 2000 til 31. mars 2001 og 15. maí 2002 til 14. nóvember 2002, samtals ellefu mánuði á sviði taugalækninga við Rikshospitalet í Ósló og frá 1. janúar 2009 til 31. desember 2009 á taugadeild GmbH Bad Neustadt/Saale í Þýskalandi, þar af þrjá mánuði á endurhæfingardeild. Er hér um að ræða samtals 23 mánuði á taugadeild á tímabilinu frá 31. mars 2000 til 31. desember 2009, eða á tæpum níu árum. Þá starfaði kærandi frá 1. apríl 2001 til 31. október 2001 eða samtals sjö mánuði á sviði taugaskurðlækninga við Rikshospitalet í Ósló.

Frá 1. nóvember 2001 til 30. nóvember 2001 eða í einn mánuð starfaði kærandi við lungnalækningar við Rikshospitalet í Ósló. Frá 1. janúar 2010 til 31. mars 2011 starfaði kærandi á lyfjadeild við Wertheim Red Cross Hospital sem taugalæknir eða samtals fimmtán mánuði. Kærandi hefur því starfað samtals í sextán mánuði á lyfjadeild.

Sé framangreindur starfstími á taugadeild og lyfjadeild skoðaður er um að ræða 30 mánuði á taugalækningadeild, þar af sjö mánuði á taugaskurðlækningadeild og sextán mánuði á lyflækningadeild.

Kæranda var á grundvelli framanritaðs starfstíma veitt sérfræðileyfi í taugalækningum hér á landi 30. mars 2012. Verður því að ætla að til að ná fjórum árum á taugadeild hafi honum verið reiknaðir sex mánuðir til viðbótar þeim sex mánuðum sem krafa er gerð um á lyfjadeild til að kærandi næði fjórum árum á taugadeild samkvæmt skilyrði XXIV. tölul. um taugalækningar í 2. mgr.7. gr. reglugerðar nr. 305/1997.

Frá 1. apríl 2011 til 31. desember 2013 starfaði kærandi sem yfirlæknir á verkjamóttöku við Schmerzklinik am Arkauwald í Bad Mergentheim í Þýskalandi. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er stofnunin hvorki viðurkennd í Þýskalandi til að veita sérnám í endurhæfingarlækningum né liggur fyrir að kærandi hafi verið þar í sérnámsstöðu. Ekki er því að mati ráðuneytisins unnt að meta stöðu yfirlæknis við framangreinda stofnun sem sérnámsstöðu í endurhæfingarlækningum.

Eins og fram kemur hér að framan starfaði kærandi frá 1. janúar 2009 til 31. desember 2009 á taugalækningadeild Bad Neustadt/Saale í Þýskalandi, þar af þrjá mánuði á endurhæfingardeild. Eins og áður hefur komið fram hefur kærandi starfað sextán mánuði á lyfjadeild. Við útgáfu sérfræðileyfis í taugalækningum hér á landi hefur sú starfsreynsla verið metin og lögð til grundvallar útgáfu þess leyfis.

Að mati ráðuneytisins, með vísan til framanritaðs, skortir því verulega á að kærandi uppfylli skilyrði IX. töluliðar 10. gr. reglugerðar nr. 1222/2012 til að öðlast sérfræðileyfi í endurhæfingarlækningum hér á landi.

Ráðuneytið sendi þau vottorð sem kærandi lagði fram með kæru til lögbærra yfirvalda í Þýskalandi og Noregi gegnum svokallað IMI-kerfi. Í svari þýskra yfirvalda við spurningum ráðuneytisins kemur fram að kærandi sé skráður sem læknir þar í landi frá árinu 2000, hafi starfað með hléum, en frá 1. janúar 2014 verið skráður starfandi læknir. Kærandi hafi sérfræðileyfi í taugalækningum í Þýskalandi. Þá kemur fram að yfirvöld í Þýskalandi geti ekki staðfest áreiðanleika vottorðanna þar sem þau séu ekki state permissionsgefin út af ríkinu. Samkvæmt svörum frá Noregi geta yfirvöld þar ekki staðfest áreiðanleika þeirra vottorða sem kærandi leggur fram og gefin eru út þar í landi. Gögnin taki einungis til grunnmenntunar sem læknir. Framangreind svör hafa verið send kæranda til kynningar.

Starfsreynsla sem aflað var áður en kærandi hlaut lækningaleyfi í Þýskalandi og Noregi getur ekki talist hluti af sérfræðinámi, enda liggja ekki fyrir í gögnum málsins upplýsingar um að kærandi hafi stundað sérfræðinám í Noregi. Ráðuneytið getur þó fallist á að starfsreynsla kæranda á geðdeild eftir útgáfu almenns lækningaleyfis eða frá 5. maí 2000 til 31. ágúst 2000 eða samtals þrír mánuðir og 26 dagar uppfylli skilyrði IX. tölul. 10. gr. reglugerðar nr. 1222/2012, en þar er sett sem skilyrði að áður en sérfræðinám hefjist skuli umsækjandi hafa hlotið fullt og ótakmarkað lækningaleyfi. Er það í samræmi við kröfu tilskipunar 2005/36/EB um að sérnámslæknir skuli hafa lokið grunnmenntun í læknisfræði.

Ráðuneytið hefur kynnt sér öll framlögð gögn kæranda. Samkvæmt því sem að framan getur liggja hvorki fyrir gögn er sýna fram á að kærandi uppfylli skilyrði 7. og 8. gr. og skilyrði IX. tölul. 10. gr. reglugerðar nr. 1222/2012 né liggja fyrir staðfestingar um að þær stofnanir sem kærandi hefur starfað á séu viðurkenndar til sérnáms í læknisfræði eða að kærandi hafi stundað viðurkennt sérfræðinám í endurhæfingarlækningum, samanber svör bærra yfirvalda í Þýskalandi gegnum IMI-kerfið. Ekki liggja fyrir í gögnum málsins upplýsingar um, að Pain clinic Arkauwald, sem er einkarekin stofnun, sé viðurkennd af þýskum yfirvöldum til að veita sérfræðimenntun í endurhæfingarlækningum, enda starfaði kærandi þar sem yfirlæknir en ekki sérnámslæknir.

Ráðuneytið telur því á grundvelli framlagðra gagna að kærandi hafi hvorki stundað sérfræðinám sem uppfylli skilyrði reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi, nr. 1222/2012, né uppfylli hann skilyrði reglugerðar um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011. Kröfu kæranda um að honum verði veitt sérfræðileyfi í endurhæfingarlækningum hér á landi er því hafnað.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun landlæknis um synjun á útgáfu sérfræðileyfis í endurhæfingarlækningum til handa A, er staðfest.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum