Hoppa yfir valmynd
5. september 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 417/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 5. september 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 417/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19070012

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 8. júlí 2019 kærði […], fd. […], ríkisborgari Albaníu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. júlí 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. útlendingalaga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 5. janúar 2019. Tekið var viðtal við kæranda í Barnahúsi þann 13. febrúar 2019. Með ákvörðun, dags. 3. júlí 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 8. júlí 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 23. júlí 2019. Þann 23. ágúst 2019 sendi kærunefnd fyrirspurn til Útlendingastofnunar varðandi meðferð málsins hjá stofnuninni og barst nefndinni svar samdægurs.III. Ákvörðun ÚtlendingastofnunarÍ ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að félagslegar aðstæður hans í heimaríki séu með þeim hætti að ekki sé forsvaranlegt að ætlast til að þær séu barni fyrir bestu.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi búið ásamt foreldrum sínum og tveimur yngri systrum í Tirana, höfuðborg Albaníu. Foreldrar kæranda hafi ekki verið í fastri vinnu en faðir kæranda hafi unnið ýmis tímabundin störf og móðir hans hafi passað börn. Kærandi og fjölskylda hans séu kristinnar trúar en mikill meirihluti íbúa Tirana séu múslimar. Árið 2013 hafi kærandi og fjölskylda hans farið til Svíþjóðar þar sem þau hafi sótt um alþjóðlega vernd. Þeim hafi verið synjað árið 2015 og í kjölfarið snúið aftur til Albaníu. Kærandi kveður ástæðu flótta hans frá heimaríki vera vegna slæmra aðstæðna á heimili kæranda en mikil átök séu á milli foreldra hans og beiti faðir kæranda móður kæranda, kæranda sem og systur hans ofbeldi. Kærandi heldur því fram í greinargerð að foreldrar hans hafi tekist á á hverjum degi og að faðir kæranda hafi beitt móður hans ofbeldi tvisvar til þrisvar í mánuði. Stundum hafi kærandi reynt að stíga á milli til að verja móður sína og þá hafi faðir kæranda löðrungað kæranda. Þá hafi faðir kæranda einnig beitt hann ofbeldi við önnur tilefni, en móðir kæranda hafi einnig beitt kæranda ofbeldi. Kærandi hafi þurft að þola niðurlægingar og ofbeldi af hálfu kennara, en kennarar hafi agað kæranda og samnemendur hans með því að rífa í hár og eyru þeirra. Þá sé algengt að kennarar beiti nemendur ofbeldi í Albaníu. Kærandi heldur því fram að yfirvöld í Albaníu veiti börnum í stöðu kæranda enga aðstoð og því hafi kærandi ákveðið að flýja heimaríki. Kærandi hafi sjálfur ekki leitað til yfirvalda í Albaníu vegna ótta við að faðir hans komist að því og muni hefna sín á kæranda fyrir að kvarta. Þá hafi kærandi ekki vitneskju um tilvist barnaverndaryfirvalda í Albaníu. Frændi kæranda, maður að nafni […], sem sé með dvalarleyfi á Íslandi hafi aðstoðað kæranda við að koma til Íslands og hafi […] fylgt kæranda alla leið. Foreldrar kæranda hafi vitað af áætlun kæranda að fara til Íslands. Foreldrar kæranda hafi ekki verið mótfallin ákvörðuninni jafnframt sem faðir kæranda hafi aðstoðað kæranda með því að fylgja honum til Ungverjalands, þaðan sem kærandi hafi flogið til Íslands. Kærandi kveðst ekki vera í sambandi við fjölskyldu sína enda telji kærandi ástandið óbreytt, en kærandi hafi áhyggjur af systrum sínum sem dvelji enn í foreldrahúsum.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um ástand barnaverndarmála í Albaníu og stöðu mannréttinda þar í landi. Í því sambandi vísar kærandi m.a. til þess að helstu ógnir sem að börnum steðji í Albaníu séu félagsleg útskúfun og mismunun, ofbeldi, misnotkun, vanræksla, heimilisofbeldi og skortur á aðgengi að heilbrigðisþjónustu og menntun. Þá komi einnig fram að ofbeldisfullar aðferðir við að aga börn séu útbreiddar og sé hvorki gerður greinamunur á milli dreifbýlis- og þéttbýlissvæðum né milli vel stæðra heimila og þeirra sem standa verr.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum komi fram að taka verði mið af svipuðum sjónarmiðum og gert sé við mat á öðrum ákvæðum kaflans s.s. erfiðum félagslegum aðstæðum n.t.t. að einstaklingur hafi þörf á vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki eða vegna annarra atvika sem ekki megi með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Einnig kemur fram í frumvarpinu að í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og ákvæði almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um sé að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Þannig kæmi til greina að minni kröfur yrðu gerðar til að börn nytu verndar og fengju dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Jafnframt þurfi að taka tillit til þess hvernig aðstæður séu í heimaríki, þ.m.t. hvort framfærsla barns sé örugg og forsjáraðili til staðar ef barni er synjað um dvalarleyfi, einkum ef um fylgdarlaust barn er að ræða. Líkt og komið hefur fram hafi kærandi þurft að þola ofbeldi af hálfu foreldra sinna og kennara. Heimilisaðstæður kæranda í heimaríki séu mjög þungbærar og líði kæranda almennt illa heima. Þá óttist kærandi foreldra sína. Kærandi telji yfirvöld í Albaníu ekki hafa bolmagn til að takast á við það vandamál sem heimilisofbeldi og almennt ofbeldi gegn börnum er. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis muni hann búa við afar erfiðar félagslegar aðstæður. Þá sé það sé kæranda fyrir bestu að fá að dvelja á Íslandi og njóta þeirrar verndar sem felst í dvalarleyfi hér á landi. Með hliðsjón af öllu því sem þegar hefur verið rakið telji kærandi ljóst að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og því beri að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Í greinargerð sinni gerir kærandi athugasemd við málsmeðferð og trúverðugleikamat Útlendingastofnunar. Útlendingastofnun geri lítið úr ástæðum flótta kæranda og meti að umsókn kæranda sé bersýnilega tilhæfulaus þrátt fyrir að stofnunin telji að félagslegar aðstæður kæranda séu ekki eins og best verður á kosið auk þess sem hann sé fylgdarlaust barn. Þá gerir kærandi einnig athugasemd við að talsmaður hans hafi ekki verið látinn vita af því að kærandi hafi verið beðinn um að undirrita umboð, sem hafi falið í sér samþykki kæranda um að Útlendingastofnun mætti hafa samband við albönsk stjórnvöld, né að kærandi hafi undirritað umboðið. Talsmaður kæranda hafi því ekki vitað um tilvist umboðsins fyrr en við lestur ákvörðunar Útlendingastofnunar. Útlendingastofnun hafi borið skylda til að upplýsa talsmann kæranda um að til stæði að afla framangreinds samþykkis og gefa honum kost á að vera viðstaddur þegar þess yrði aflað og veita kæranda ráðgjöf og liðsinni, sbr. 24. tl. 3. gr. laga um útlendinga sem og 2. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Þá byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi ekki lagt mat á hvað sé honum, sem barni, fyrir bestu í rökstuðningi fyrir synjun á dvalarleyfi á grundveli mannúðarsjónarmiða. Í greinargerð kæranda er jafnframt vísað til úrskurða kærunefndar útlendingamála í málum nr. 301/2018 og 305/2018, en með úrskurðunum hafi ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum fylgdarlausra barna felldar úr gildi vegna annmarka á rannsókn málanna, m.a. umsögn Barnaverndarstofu. Byggir kærandi á því að hin kærða ákvörðun uppfylli ekki þau skilyrði um rannsókn sem kærunefnd hafi lagt til grundvallar í framangreindum úrskurðum.

Kærandi lagði fram umsókn sína um alþjóðlega vernd þann 5. janúar 2019 og hefur meðferð á máli hans hjá íslenskum stjórnvöldum tekið um sjö mánuði. Í greinargerð heldur kærandi því fram að Útlendingastofnun hafi engar skýringar gefið á hinum langa málsmeðferðartíma og ljóst sé að hann verður ekki rakinn til kæranda sjálfs. Með teknu tilliti til ungs aldurs kæranda megi svo langur málsmeðferðartími teljast óhóflegur og því brotið gegn málshraðareglu skv. 9. gr. stjórnsýslulaga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað albönsku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé albanskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Albaníu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Social Protection Albania (International Labour Organization, sótt 5. maí 2019);
  • Lifosrapport: Albanien - rätts- och säkerhetssektorn (Migrationsverket, 29. mars 2019);
  • Country Report on Human Rights Practices 2018 – Albania (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
  • Albanien - Mänskliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer: situationen per den 30 juni 2018 (Utrikesdepartimentet, 20. febrúar 2019);
  • Social Security Programs Throughout the World: Europe, 2018 (US Social Security Administration, 1. október 2018);
  • The World Factbook. Europe: Albania (Central Intelligence Agency, 19. júní 2018);
  • Albania 2017 Human Rights Report (U.S. Department of State, 20. apríl 2018);
  • Report of a Home Office Fact-Finding Mission Albania (UK Home Office, 1. febrúar 2018);
  • 2016 Findings on the Worst Forms of Child Labor – Albania (United States Department of Labor, 30. september 2017);
  • Freedom in the World 2017 - Albania (Freedom House, 1. september 2017);
  • What Happens to Albanian Returnee Families and Children? (Observatory for Children's Rights, maí 2017);
  • EMN Ad-Hoc Query on Returning Albanian Unaccompanied Asylum Seeking Children (European Commission, 24. janúar 2017);
  • National Integrity System Assessment Albania 2016 (Transparency International, 2016);
  • Future of an integrated child protection system in Albania (Evrópuráðið, júní 2016);
  • United Nations Support to Social Inclusion in Albania Programme (International Organization for Migration, mars 2015);
  • Child Notice Albania (UNICEF, 23. júlí 2015) og• Temanotat - Albania: Forhold for barn og unge (Landinfo, 25. september 2015).

Albanía er lýðræðisríki með um þrjár milljónir íbúa. Ríkið gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 1995 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu árið 1996. Albanía gerðist aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2006, flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna 18. ágúst 1992, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi 4. október 1991 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 11. maí 1994. Albanía sótti um aðild að Evrópusambandinu árið 2009 og fékk stöðu sem umsóknarríki í júní 2014. Albanía er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki. Í ljósi þess má ætla að grundvallarmannréttindi séu almennt talin virt af yfirvöldum í landinu.

Í framangreindum gögnum kemur fram að yfirvöld í Albaníu hafi undanfarin ár unnið að því að uppræta spillingu í löggæslunni og dómsvaldinu. Jafnframt kemur fram að albönsk stjórnvöld hafi tekið mikilvæg skref til að auka vernd borgara sinna og að Albaníu hafi miðað áfram í málefnum er snerti réttarkerfið og frelsi og öryggi borgara landsins. Þá hafi laun lögreglumanna verið hækkuð og mikil endurnýjun hafi átt sér stað í lögregluliði landsins auk þess sem yfirvöld sæki lögreglumenn til saka vegna brota í starfi. Þá hafi stjórnvöld gripið til tæknilegra aðgerða til þess að stemma stigu við afbrotum í starfi á borð við að láta lögreglumenn bera myndavélar og gera greiðslur umferðasekta rafrænar. Fram kemur að sett hafi verið á fót þjónusta sem heyri undir albanska innanríkisráðuneytið sem geri borgurunum kleift að senda inn kvartanir vegna spillingarmála í eigin persónu eða símleiðis. Einnig sé starfrækt vefgátt á vegum yfirvalda þar sem borgarar geti tilkynnt misferli opinberra starfsmanna. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2018 hafi kvörtunarþjónustu innanríkisráðuneytisins borist fjöldi kvartana varðandi spillingu innan lögreglu sem hafi leitt til þess að lögreglumenn hafi sætt agaviðurlögum og í sumum tilvikum hlotið refsingu. Árið 2018 hafi albanski umboðsmaðurinn (a. avokati i popullit) einnig tekið til meðferðar kvartanir vegna brota lögreglumanna í starfi og þá aðallega vegna vandamála tengdum handtökum og varðhaldi.

Í skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2019 kemur fram að stjórnarskrá Albaníu banni mismunun á grundvelli trúar og kveður á um rétt til trúfrelsis. Albanskt samfélag einkennist af umburðarlyndi í trúarmálum og eigi skráðir trúarlegir söfnuðir rétt á styrkjum frá stjórnvöldum. Samkvæmt skýrslunni aðhyllast um 57 % íbúa landsins súnní íslam, 10 % kaþólska trú, 7 % rétttrúnaðarkirkjuna, 2 % Bektashi og 2 % trúleysi.

Á síðastliðnum árum hafi yfirvöld endurskoðað bæði framkvæmd og lagaumhverfi til verndar fórnalömbum heimilisofbeldis. Heimilisofbeldi sé alvarlegt, útbreitt og rótgróið vandamál í Albaníu og beinist ofbeldið aðallega gegn konum. Ákvæðum um heimilisofbeldi, eltihrella og nauðgun í hjónabandi hafi verið bætt inn í refsilöggjöf landsins. Í kjölfarið hafi nokkur fjöldi sakamála vegna þessara ákvæða farið fyrir dómstóla og nálgunarbönn gefin út. Í heimildum kemur fram að ferill heimilisofbeldismála innan albönsku lögreglunnar sé vel skipulagður. Það sé tiltekin miðlæg deild innan lögreglunnar sem sjái um barnaverndar- og heimilisofbeldismál. Albaníu sé skipt í svæði og hvert svæði hafi slíka miðlæga deild sem sjái um þennan málaflokk. Þolendur heimilisofbeldis eigi því að geta treyst þrepaskiptu kerfi lögreglunnar í þessum efnum og geti leitað til æðra stjórnvalds ef aðilar hjá lægra stjórnvaldi sinni ekki sínum störfum með fullnægjandi hætti. Félagslega kerfið í Albaníu hafi einnig gengið í gegnum ýmsar breytingar á undanförnum árum og sé því ætlað að tryggja einstaklingum sem á þurfi að halda fjárhagslega aðstoð frá ríki og/eða sveitarfélögum. Einnig hafi verið komið á fót kvennaathvörfum til verndar fórnarlömbum heimilisofbeldis. Þrátt fyrir þessar umbætur í umræddum málaflokki sé ljóst að málarekstur gangi oft hægt, frestir séu ekki alltaf virtir sem skyldi af dómstólum og lögregluyfirvöld skorti á tíðum þá þjálfun sem þurfi til að eiga við mál af þessu tagi. Af öllu þessu virtu er þó ljóst að yfirvöld í Albaníu hafa unnið markvisst að því að bæta framkvæmd og lagaumhverfi vegna heimilisofbeldismála.

Í ofangreindum skýrslum kemur fram að albönsk stjórnvöld hafi tekið mikilvæg skref til að auka vernd barna og hafi innviðir barnaverndar í Albaníu verið bættir á síðustu árum. Þá séu starfandi stofnanir sem sinni réttindum barna og barnavernd bæði á landsvísu og sveitarstjórnarstigi. Stjórnvöld hafi m.a. samþykkt lög um réttindi barna (e. Law on the Protection of the Rights of the Child) og komið á fót stofnun sem sjái um að vernda réttindi barna (e. State Agency for the Protection of Child Rights) sem eigi að bæta eftirlit með barnaverndaryfirvöldum í landinu. Þá hafi stjórnvöld jafnframt komið á fót svæðisbundnum barnaverndarnefndum (e. Child Protection Units (CPU‘s)) sem hafi m.a. það hlutverk að greina hvaða börn séu í hættu og þurfi á aðstoð stjórnvalda að halda. Þrátt fyrir fyrrnefndar umbætur beri heimildum þó saman um að enn vanti nokkuð upp á að þjónusta barnaverndarnefnda nái til allra barna í Albaníu sem þurfi á slíkri þjónustu að halda og sé það m.a. vegna skorts á starfsfólki og fjármagni. Í skýrslu Utrikesdepartementet frá febrúar 2019 kemur fram að skólaskylda sé lögbundin fram að 16 ára aldri og sé menntun gjaldfrjáls samkvæmt lögum. Samkvæmt Unesco sé skráning barna í grunnskóla um 95 % en um 82 % einstaklinga skrái sig í framhaldsnám. Samkvæmt albönskum heilbrigðislögum eigi íbúar landsins rétt á almennri heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt lögunum skuli heilbrigðisyfirvöld m.a. kynna og tryggja jafnan rétt allra að heilbrigðisþjónustu. Undir þá þjónustu sem íbúar eigi rétt á falli m.a. geðheilbrigðisþjónusta.

Réttarstaða fylgdarlausra barna sem sækja um alþjóðlega vernd

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10.gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu er fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni er fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skal tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða. Þá skuli leitað umsagnar Barnaverndarstofu sé um fylgdarlaust barn að ræða.Í tengslum við mál kærenda hefur kærunefnd kynnt sér eftirfarandi skýrslur um málefni barna á flótta:

  • Guidelines on Policies and Procedures in dealing with Unaccompanied Children seeking Asylum (UNHCR, febrúar 1997);
  • Position on Refugee Children (European Council on Refugees and Exiles, nóvember 1996);
  • Guidelines on International Protection No. 8 (UNHCR, 22. september 2009);
  • Children‘s rights in return policy and practice in Europe (Unicef, janúar 2015); 
  • Exchange of information and best practices on first reception, protection and treatment of unaccompanied minors (IOM, september 2008) og
  • UNHCR Guidelines on Determining the Best Interests of the Child (UNHCR, maí 2008).

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi hefur borið fyrir sig erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki. Kærandi búi við erfiðar aðstæður í heimaríki vegna slæmra heimilisaðstæðna, þ.m.t. hafi hann þurft að þola líkamlegt ofbeldi af hálfu foreldra sinna. Þá heldur kærandi því fram að hann muni ekki hljóta aðstoð yfirvalda verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.

Er það mat kærunefndar að það ofbeldi sem kærandi kveðst hafa orðið fyrir af hálfu foreldra sinna og kennara, að rifið sé í hár og eyru hans jafnframt sem hann hafi mátt þola löðrunga, falli ekki undir hugtakið ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Kærandi hefur ennfremur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hendi albanskra yfirvalda eða annarra aðila í Albaníu sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Jafnframt hefur kærandi ekki sýnt fram á að stjórnvöld í Albaníu geti ekki eða vilji ekki veita honum vernd, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir. Kærandi hefur því raunhæfan möguleika á því að leita sér ásjár stjórnvalda þar í landi, ef hann telur sig þurfa á aðstoð þeirra að halda.

Með vísan til alls ofangreinds telur kærunefnd að kærandi hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga. Við þetta mat hefur kærunefnd, í samræmi við 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, litið sérstaklega til hagsmuna kæranda sem er barn að aldri.

Fyrir liggur umsögn Barnaverndarstofu sem Útlendingastofnun aflaði skv. 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í umsögninni kemur m.a. fram að Barnaverndarstofa telji það þjóni hagsmunum kæranda best að snúa aftur til heimaríkis. Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli.

Kærandi byggir á því að hans bíði erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki þar sem foreldrar kæranda og kennarar hafi beitt hann ofbeldi. Þá telji kærandi að framfærsla hans sé ekki örugg í heimaríki og að stjórnvöld muni ekki veita honum aðstoð verði kærandi endursendur til heimaríkis. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðið um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða yrði að jafnaði ekki talið ná til neyðar af efnahagslegum rótum, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Líkt og komið hefur fram eigi öll albönsk börn rétt á gjaldfrjálsri menntun og hvíli skólaskylda á börnum fram að 16 ára aldri. Þá kvað kærandi í viðtali hjá Barnahúsi, þann 13. febrúar 2019, að hann hafi alltaf gengið í skóla sem barn. Í umræddu viðtali kemur einnig fram að foreldrar kæranda hafi ekki verið mótfallin því að kærandi fari frá Albaníu og hafi faðir kæranda aðstoðað hann við að komast til Íslands.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar er ljóst að það tíðkist í Albaníu að foreldrar beiti löðrungum við uppeldi barna sinna. Þá komi einnig fyrir að kennarar agi nemendur sína með líkamlegum refsingum. Þrátt fyrir að slíkar uppeldisaðferðir séu rótgrónar í albanskri menningu þá hafi albönsk stjórnvöld tekið mikilvæg skref til að auka vernd barna og bætt innviðir barnaverndar í Albaníu á síðustu árum, m.a. með lagaumbótum árið 2017 sem veitti albönskum börnum frekari vernd. Samkvæmt stjórnarskrá landsins eiga öll börn rétt á vernd gegn ofbeldi, illri meðferð og þrælkun. Þá séu starfræktar svæðisbundnar barnaverndarnefndir sem hafi m.a. það hlutverk að greina hvaða börn séu í hættu og þurfi á aðstoð stjórnvalda að halda. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað séu til staðar úrræði á vegum ríkisins fyrir börn sem muni taka á móti kæranda verði hann endursendur til heimaríkis. Þá séu til staðar sérstök úrræði fyrir fylgdarlaus börn sem snúi aftur til landsins. Verði kærandi sendur aftur til heimaríkis muni albönsk stjórnvöld leita leiða til þess að sameina kæranda og með fjölskyldu hans, yrði það ekki talið andstætt hagsmunum hans. Ef ekki verði talið kæranda fyrir bestu að snúa aftur heim til foreldra sinna þá liggur fyrir að albönsk stjórnvöld séu með úrræði í boði fyrir börn á aldursbili kæranda sem geti ekki dvalið hjá fjölskyldu sinni vegna erfiðra aðstæðna á heimilinu. Gögn málsins benda ekki annars en að þau úrræði séu fullnægjandi. Kærunefnd telur því að félagslegar aðstæður kæranda við endurkomu til heimaríkis séu ekki slíkar að þær geti talist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Við þetta mat hefur kærunefnd litið til hagsmuna kæranda í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga og 3. mgr. 25. gr. laganna. Þá hefur kærunefnd einnig litið til umsagnar Barnaverndarstofu sem telur að það þjóni best hagsmunum kæranda að hann fari til baka til heimaríkis. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Málshraðaregla stjórnsýslulaga

Kærandi heldur því fram að Útlendingastofnun hafi brotið gegn málshraðareglu skv. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. í máli hans. Líkt og komið hefur fram sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi þann 5. janúar 2019 og hefur meðferð á máli hans hjá íslenskum stjórnvöldum því tekið um níu mánuði. Kærandi heldur því fram að engar skýringar séu á hinum langa málsmeðferðartíma og að ungur aldur kæranda kalli á aukinn hraða við málsmeðferð.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Enga lögfesta almenna reglu er að finna um málshraða vegna umsókna um alþjóðlega vernd í lögum um útlendinga. Í III. kafla laganna, þar sem fjallað er um málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd, er þó margsinnis vísað til þess að tiltekin skref í málsmeðferðinni skuli tekin eins fljótt og kostur er. Að öðru leyti ræðst mat á því hvað telst eðlilegur afgreiðslutími máls af atvikum hverju sinni.

Eins og að framan greinir hefur meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á tveimur stjórnsýslustigum tekið ríflega níu mánuði. Fyrir liggur að mörg skref hafa verið tekin í málsmeðferðinni en kærandi hefur m.a. farið í viðtal í Barnahúsi vegna umsóknar sinnar og aflað hefur verið umsagnar Barnaverndarstofu vegna máls hans. Þá hefur talsmaður kæranda í tvígang fengið frest frá stjórnvöldum til að skila greinargerðum vegna máls kæranda. Þegar litið er heildstætt á meðferð málsins er það mat kærunefndar útlendingamála að ekki hafi orðið óréttlátar tafir á meðferð málsins og meðferð málsins því í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga.

Málsmeðferð Útlendingastofnunar

Líkt og áður segir gerir kærandi athugasemd við ákvörðun Útlendingastofnunar. Kærunefnd leggur þann skilning í greinargerð kæranda að hann haldi því fram að rannsókn Útlendingastofnunar á stöðu hans í heimaríki sé ófullnægjandi. Kærandi telji því að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga við meðferð máls hans. Ennfremur gerir kærandi athugasemd við að hann hafi verið látinn undirrita umboð, sem hafi falið í sér samþykki kæranda um að Útlendingastofnun megi hafa samband við albönsk stjórnvöld, án aðkomu talsmanns síns jafnframt sem talsmaður hans hafi ekki vitað um tilvist umboðsins fyrr en við lestur ákvörðunar Útlendingastofnunar.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga.

Kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Í málinu liggur fyrir að kærandi á foreldra í heimaríki og ekkert bendir til þess þau vilji ekki eða geti ekki veitt honum þann stuðning sem hann þarfnast. Þá verður ekki annað séð en að Útlendingastofnun hafi rannsakað hvort fyrir hendi séu úrræði í heimaríki fyrir kæranda ef aðbúnaður í foreldrahúsum yrði ekki fullnægjandi. Það er mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið, eins og hér stendur á, í nægilegu samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga á umsækjandi um alþjóðlega vernd rétt á að Útlendingastofnun skipi honum talsmann við meðferð málsins hjá stjórnvöldum. Hlutverki talsmanns er lýst í 24. tölul. 3. gr. laganna en þar segir að sá sem talar máli útlendings eða þess sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi og gætir hagsmuna hans við meðferð máls gagnvart íslenskum stjórnvöldum á meðan mál hans er til meðferðar. Þá leiðir af almennum reglum stjórnsýsluréttar að þegar sérstakur talsmaður eða umboðsmaður hefur það verkefni að koma fram fyrir hönd aðila stjórnsýslumáls ber stjórnvaldi almennt að snúa sér til umboðsmannsins með atriði er lúta að rekstri málsins.

Þann 23. ágúst 2019 óskaði kærunefnd eftir afstöðu Útlendingastofnunar varðandi andmæli kæranda og óskað eftir upplýsingum um ástæður þess að talsmaður hafi ekki verið boðaður við undirritun umboðsins. Fyrir liggur að kærandi hafi mætt í viðtal með talsmanni sínum í Barnahúsi þann 13. febrúar 2019 en þann 20. febrúar s.á. hafi kærandi undirritað umboðið. Svar Útlendingastofnunar barst þann 23. ágúst 2019 þar sem fram kom að umsækjandi um alþjóðlega vernd undirriti almennt slíkt umboð við komuna til landsins í kjölfar þjónustuviðtals. Útlendingastofnun telji að misfarist hafi að fá undirritun kæranda við komuna til landsins.

Er það mat kærunefndar, með tilliti til fyrrgreindra lagaákvæða sem og mikilvægi þess að umsækjendur um alþjóðlega vernd fái fullnægjandi réttaraðstoð, að afar óheppilegt er að talsmaður umsækjenda um alþjóðlega vernd sé ekki boðaður á alla fundi er tengjast umsókn einstaklingsins um alþjóðlega vernd. Tekur kærunefnd undir staðhæfingu kæranda um að Útlendingastofnun hafi borið skylda til að upplýsa talsmann kæranda um að til stæði að afla framangreinds samþykkis og gefa honum kost á að vera viðstaddur þegar þess yrði aflað og veita kæranda ráðgjöf og liðsinni, sbr. 24. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sem og 2. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Kærunefnd telur þó að ekki sé ástæða til, eins og hér stendur á, að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi af þessum sökum.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 5. janúar 2019 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er fylgdarlaust barn. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                         Bjarnveig Eiríksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum