Hoppa yfir valmynd
31. mars 2005 Félagsmálaráðuneytið

Fundur félagsmálaráðherra OECD-ríkjanna

Frá fundi félagsmálaráðherra OECD-ríkjanna
Frá fundi félagsmálaráðherra OECD-ríkjanna

Sjálfstæður réttur feðra til fæðingarorlofs á Íslandi vekur athygli á fundi félagsmálaráðherra OECD-ríkja sem nú stendur yfir í París. Íslendingar standa mjög framarlega varðandi atvinnuþátttöku kvenna. Félagsmálaráðherra leggur áherslu á jafnar aðstæður kvenna og karla til virkrar þátttöku á vinnumarkaði.

Árni Magnússon félagsmálaráðherra situr nú fund félagsmálaráðherra OECD-ríkjanna, í París, þar sem fjallað er um á hvaða hátt virk félagsmálastefna stjórnvalda geti þjónað hagsmunum allra. Á fundinum í morgun var rætt um hvernig hlúa mætti að fjölskyldum og börnum á sem árangursríkastan hátt. Ráðherrar ríkjanna skiptu sér í vinnuhópa þar sem líflegar umræður spunnust og fram kom að áherslur í aðhlynningu fjölskyldna er mismunandi í einstökum ríkjum. Fram kom að ríki þurfa að nýta fleiri en eina leið í því efni þannig að komið verði til móts við þarfir ólíkra hópa innan sama samfélags. Það sem þó er sameiginlegt meðal flestra ríkjanna er að í auknum mæli þarf að hvetja konur til virkari þátttöku á vinnumarkaði. Á sama tíma er nauðsynlegt að hvetja til frekari barneigna en aldurssamsetning þjóða OECD-ríkjanna er að breytast með hlutfallslegri fjölgun eldri borgara.

Í umræðu um hvernig unnt væri að mæta báðum framangeindum markmiðum voru fulltrúar margra ríkja sammála um að jafn réttur foreldra, bæði feðra og mæðra, væri einn af þeim lykilþáttum sem ríki þyrftu að leggja áherslu á. Meðal annars var vísað til löggjafar á Íslandi sem er í farabroddi varðandi jafnan rétt kynja til fæðingarorlofs. Lögð var áhersla á að vekja þyrfti áhuga feðra á að nýta sér þá möguleika sem þeir hafa innan ríkjanna til að vera með börnum sínum. Mikilvægt þótti að finna leiðir til að stuðla að því að konur tækju sér ekki of langt leyfi frá störfum eftir barneignir þar sem oft væri erfitt að koma aftur til baka eftir langt hlé. Jöfn og stöðug þátttaka kvenna á vinnumarkaði auki möguleika þeirra sjálfra á betra lífi auk þess sem framlag kvenna til aukinnar hagsældar innan hvers ríkis sé ekki síður mikilvægt en framlag karlanna. Lögð var áhersla á mikilvægi þess að byggja upp öfluga dagvist fyrir börn þar sem sveigjanleiki væri hafður í fyrirrúmi enda vinnutími foreldra mjög breytilegur. Nefnt var að vinnuveitendur ættu að sjá hag sinn í því að veita starfsmönnum sínum sveigjanlega barnagæslu til samræmis við vinnutíma þeirra. Árni Magnússon lagði hér sérstaka áherslu á að tryggðar væru jafnar aðstæður fyrir konur og karla til virkrar þátttöku á vinnumarkaði.

Fundur félagsmálaráðherra OECD-ríkjanna mun standa yfir í dag og á morgun. Á dagskrá er m.a. umfjöllun um viðbrögð við áhrifum breyttrar aldurssamsetningar þjóðanna þannig að meira jafnvægi fáist milli kynslóðanna. Áhyggjur manna lúta einkum að því hvernig kostnaður vegna ellilífeyrisgreiðslna og umönnunar aldraðra leggst á herðar þess hluta þjóðarinnar sem er virkur á vinnumarkaði og virki hópurinn minnki stöðugt á sama tíma og eldri borgurum fjölgi hratt. Loks verður fjallað um það hvernig unnt sé að móta virkari stefnu stjórnvalda til þess að koma í veg fyrir fátækt og félagslega einangrun. Meðal annars verða ræddir kostir og gallar þess að virkja fólk til þátttöku í starfsendurhæfingu og öðrum úrræðum er aðstoða það við að komast aftur inn á vinnumarkaðinn í stað þess að kerfið greiði einungis út bætur. Í því sambandi hefur jafnframt verið nefnt að það sé ekki síður mikilvægt að styðja við bakið á fólki eftir að það hefur fengið störf í því skyni að það haldist frekar í vinnu, svo sem í kjölfar langvarandi atvinnuleysis.

Fréttatilkynning OECD vegna fundarins í París
Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira