Hoppa yfir valmynd
5. október 2011 Innviðaráðuneytið

Margháttað rannsóknar- og þróunarstarf kynnt með reglulegu ráðstefnuhaldi

Á alþjóðlegu vegamálaráðstefnunni sem haldin var í Mexíkóborg í síðustu viku voru haldin nokkuð á annað hundrað erindi auk spjaldasýninga og sérstakra umræðufunda um hinar ýmsu hliðar vegagerðar og umferðar- og umhverfismála. Fyrirlesarar voru frá öllum heimshlutum, starfsmenn og sérfræðingar vegagerða á ýmsum sviðum.

Ögmundur Jónasson sat ráðstefnu um vega- og samgöngumál í Mexíkóborg.
Ögmundur Jónasson sat ráðstefnu um vega- og samgöngumál í Mexíkóborg.

Á alþjóðlegu vegamálaráðstefnunni sem haldin var í Mexíkóborg í síðustu viku voru haldin nokkuð á annað hundrað erindi auk spjaldasýninga og sérstakra umræðufunda um hinar ýmsu hliðar vegagerðar og umferðar- og umhverfismála. Fyrirlesarar voru frá öllum heimshlutum, starfsmenn og sérfræðingar vegagerða á ýmsum sviðum.

Ráðstefnan er haldin á vegum PIARC (Permanent International Association of Road Congresses) sem eru ríflega 100 ára gömul. Samtökin hafa aðsetur í París og sinna víðtæku rannsóknar- og þróunarstarfi í vegamálum. Starfið beinist ekki síst að því að flytja þekkingu og reynslu til þróunarríkja um allan heim. Þá starfar innan samtakanna sérstakt félag eða deild Norðurlandanna, Nordiskt vägforum, sem vinnur að sambærilegum verkefnum og skipuleggur ráðstefnuhald á Norðurlöndunum á fjögurra ára fresti. Hreinn Haraldsson vegamálastjóri hefur setið í forsæti þeirrar deildar undanfarin ár og verður næsta norræna ráðstefna haldin í Reykjavík í júní á næsta ári.

Eini norræni ráðherrann

Auk fulltrúa Vegagerðarinnar sat Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ráðstefnuna eins og  rúmlega 30 samgönguráðherrar víðs vegar að.

Innanríkisráðherra tók þátt í pallborðsumræðum samgönguráðherra.Ögmundur var eini ráðherra samgöngumála á Norðurlöndunum sem tók þátt í ráðstefnunni og hann sat í pallborði í umræðum ráðherranna þar sem þeir ræddu um fjármögnun framkvæmda, öryggismál og umhverfisáhrif vegakerfa eins og þegar hefur verið greint frá hér á síðunni.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri situr í 20 manna framkvæmdastjórn  samtakanna sem meðal annars leggur meginlínur fyrir undirbúning ráðstefnunnar. ,,Alls eru það 18 tækninefndir sem starfið byggist á og hafa meðal annars veg og vanda að því að undirbúa rannsóknar- og umfjöllunarefni þessara ráðstefna og þar sem ráðstefnan er haldin á fjögurra ára fresti hafa þær þann tíma til að marka sér stefnu og láta vinna þessi verkefni,” segir Hreinn þegar hann er beðinn að lýsa því hvernig ráðstefnuhaldið er undirbúið.

Fulltrúi Vegagerðarinnar í vetrarþjónustunefnd

Nefndirnar starfa að verkefnum á sviði veghönnunar, brúargerðar, umferðaröryggis, öryggismála í jarðgöngum, umferðarstjórnunar, umhverfismála, umferðarhagfræði, stjórnunar- og útboðsmála og vetrarþjónustu svo nokkrar séu taldar upp. Vegagerðin á fulltrúa í nefndinni um vetrarþjónustu.

,,Þar situr einn okkar manna, Björn Ólafsson, forstöðumaður þjónustudeildar, en sú deild annast skipulag á allri vetrarþjónustu og eftirliti með henni,” segir Hreinn en starfsmenn deildarinnar hafa þróað mjög fullkominn tölvubúnað til að fylgjast með ástandi vega, einkum að vetrarlagi, til að meta hvort og hvenær hefja þarf hálkuvarnir eða snjómokstur. Þannig eru nýttar saman margs konar upplýsingar út frá veðurspám og daglegri ráðgjöf við Einar Sveinbjörnsson veðurfræðing, upplýsingar frá veðurstöðvum og veghitamælum í vegakerfinu. Þegar hálkuvörn eða snjómokstur hefst er síðan hægt að fylgjast með tækjunum frá stjórnstöð Vegagerðarinnar, bæði hvernig verkinu miðar og hvað hvert tæki er að gera.

Norðurlöndin voru með sameiginlegan sýningarbás á vegamálaráðstefnunni í Mexíkó í síðustu viku.

,,Þetta er afar fullkomið kerfi sem okkar menn hafa þróað og við erum stolt af,” segir Hreinn sem kom þar við sögu áður sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar. Norðurlöndin voru með sameiginlegan sýningarbás í tengslum við ráðstefnuna. Björn og Einar Pálsson, deildarstjóri í þjónustudeild, sáu um kynningu Vegagerðarinnar á básnum sem snerist um uppbyggingu og rekstur vegakerfis þar sem náttúruöfl eru ógnvaldur og er sýnt með myndum og texta hvernig tekist er á við þetta verkefni í samvinnu við almannavarnir og aðra opinbera aðila sem þar koma við sögu. Tengist efnið að miklu leyti nýlegum eldgosum og er þannig sýnd 40 mínútna löng mynd um gosið í Eyjafjallajökli. Kom þar vel fram hvernig hvernig vegagerð – hönnun, þjónusta og viðhald samgöngumannvirkja – eru krefjandi verkefni þegar náttúruöflin eru annars vegar og geta ógnað tilvist þeirra. Hreinn Haraldsson skrifaði einnig ítarlega grein: The influence of the Eyjafjallajökull hazardeous volcanic eruption in April 2010 on roads and air travel, sem birt er í riti ráðstefnunnar undir flokknum Managing Operational Risk in the Road Sector.

Frá sýningarbás Norðurlandanna.,,Við fengum mjög góð viðbrögð á sýningunni og mönnum fannst athyglisvert hvernig við þurfum að búa okkur undir að bregðast við þegar náttúruhamfarir ganga yfir.

Ég varð var við að mönnum fannst kerfið okkar gott og þannig getum við bæði kennt öðrum eitthvað og lært af öðrum með þátttöku í ráðstefnu og sýningu sem þessari,” sagði Hreinn Haraldsson vegamálastjóri ennfremur.

Vegamálastjóri meðal ráðstefnustjóra

Eins og fyrr segir voru fluttir vel á annað hundrað fyrirlestrar á ráðstefnunni en boðið var uppá fimm fundi samtímis um mismunandi efnisflokka. Hreinn var meðal margra ráðstefnustjóra og stýrði hann fyrirlestralotu sem fjallaði um góða stjórnarhætti og traust. Þar var meðal annars rætt um hvernig borið hefur á spillingu þegar útboð vegaframkvæmda eru annars vegar. Hefur slík spilling bæði komið fram í verkefnum sem Alþjóðabankinn hefur lánað til í þróunarlöndum en einnig í OECD ríkjum.

Kom fram að í 500 verkefnum sem Alþjóðabankinn fjármagnaði á 10 ára tímabili komu fram kærumál í fjórðungi þeirra og urðu 29 þeirra að sakamálum. Hefur Alþjóðbankinn þannig sett ýmsar reglur til að koma í veg fyrir misnotkun og hefur til dæmis kannað aftur í tímann hvort tengsl hafi verið milli bjóðenda og verkkaupa og hvort tilhneiging hefur verið til þess að lægstbjóðandi sem fékk verk hafi síðan fengið með sér undirverktaka sem einnig voru meðal bjóðenda og reynt að uppræta hringamyndun í útboðum.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum