Hoppa yfir valmynd
19. júní 2017 Innviðaráðuneytið

Umsagnarfrestur framlengdur um drög að breytingu á reglugerð um framkvæmd póstþjónustu

Framlengdur hefur verið frestur til að skila inn umsögnum um drög að breytingu á reglugerð um alþjónustu og framkvæmd póstþjónustu hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um drögin til og með 26. júní næstkomandi og skulu þær berast á netfangið [email protected].

Breyting reglugerðarinnar, nr. 364/2003, mun fela í sér að rekstrarleyfishafi skuli tryggja að útburður sem fellur undir alþjónustu standi til boða alla virka daga en að heimilt verði að fækka almennum dreifingardögum pósts niður í allt að tvo virka daga á viku ef kringumstæður og landfræðilegar aðstæður hindra hagkvæma dreifingu, m.a. til samræmis við eftirspurn eftir þjónustunni.

Einnig er lagt til að breytt verði gæðaviðmiði vegna alþjónustu sem nauðsynlegt er að skilgreina vegna alþjóðasamninga um póstsendingar milli landa.

Haustið 2015 var dreifingardögum pósts hér á landi fækkað í annan hvern dag á strjálbýlustu svæðum landsins. Þá hefur um skeið gilt svipað fyrirkomulag í helstu þéttbýliskjörnum sem felur í sér að póstur er borinn í helming hverfis einn daginn og í hinn helming þess hinn daginn. Með því að heimila þessar breytingar getur því sama fyrirkomulag gilt um land allt. Eftir sem áður munu notendur póstþjónustu þó hafa aðgang að hraðsendingum telji notendur sig þurfa að fá póst tíðar en hin almenna póstdreifing býður upp á.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum