Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2023 Utanríkisráðuneytið

UNICEF, Rauði krossinn og Barnaheill hefja neyðarsöfnun

Ljósmynd: Barnaheill - Save the Children - mynd

Björgunarsveitir í Tyrklandi og Sýrlandi halda enn í vonina um að finna fólk á lífi í húsarústum eftir stóra skjálftann í fyrrinótt og eftirskjálfta í gær. Þegar hafa verið staðfest yfir fimm þúsund dauðsföll og óttast er sú tala eigi eftir að hækka. UNICEF, Rauði krossinn og Barnaheill hafa öll hafið neyðarsöfnun vegna jarðskjálftans og afleiðinga hans. Við blasir brýn þörf fyrir mannúðaraðstoð á svæðinu og samtökin biðla til almennings að leggja söfnuninni lið og styðja við lífsbjargandi hjálparstarf.

„Þúsundir barna og fjölskyldur þeirra eru í hættu eftir tvo stóra jarðskjálfta og tugi eftirskjálfta í suð-austurhluta Tyrklands og norðurhluta Sýrlands í gær. … Þúsundir bygginga hafa hrunið til grunna. Þúsundir fjölskyldna eru án heimilis. Og í Sýrlandi, þar sem ástandið var nógu skelfilegt fyrir vegna áralangra stríðsátaka og mannúðarkrísu, þurfa börn og fjölskyldur nauðsynlega á áframhaldandi stuðningi þínum að halda,“ segir meðal annars í frétt UNICEF.

„Barnaheill – Save the Children vinna nú hörðum höndum að því að bregðast við þeirri neyð sem blasir við í kjölfar skjálftanna. Þúsundir barna í Tyrklandi og Sýrlandi eru slösuð, hafa misst fjölskyldur sínar og hafa þurft að yfirgefa heimili sín um miðja nótt en mikið næturfrost er nú á svæðinu og því brýnt að börnin fái skjól sem fyrst. Um 2.800 byggingar hafa eyðilagst í Tyrklandi. Þá er einnig fjöldi barna fastur í rústum. Það er því gríðarlega mikilvægt að alþjóðasamfélagið bregðist skjótt við og sendi björgunarsveitir, vistir, lyf og fólk til að bjarga þeim sem bjargað verður. Hver klukkustund skiptir máli!“ sagði meðal annars í frétt Barnaheilla um neyðarsöfnun samtakanna.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum