Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2017 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Sérstökum byggðastyrk úthlutað til lagningar ljósleiðara

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur ákveðið með vísan til markmiða byggðaáætlunar og umsagnar stjórnar Byggðastofnunar að verja allt að 100 milljónum króna úr fjárveitingu byggðaáætlunar til að styrkja sérstaklega uppbyggingu ljósleiðarakerfis í strjálbýlum sveitarfélögum.

Þessi fjárveiting kemur til viðbótar 450 m.kr. úthlutun fjarskiptasjóðs til verkefnisins Ísland ljóstengt 2017.

Tilgangur þessa viðbótarstyrks í verkefnið er að styrkja samkeppnisstöðu sveitarfélaga við umsókn þeirra til fjarskiptasjóðs til að hefja ljósleiðarauppbyggingu. Styrkumsóknir vegna verkefnisins Ísland ljóstengt 2017 verða lesnar upp á opnunarfundi í innanríkisráðuneytinu 1. febrúar kl. 13.

Haraldur Benediktsson, alþingismaður og formaður fjarskiptasjóðs, kynnti verkefnið ásamt Karli Björnssyni, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Ólafi E. Jóhannssyni, aðstoðarmanni ráðherra.

Í ljósi þess að fjárhagur sveitarfélaga er mismunandi hefur verið ákveðið að styrkja samkeppnisstöðu tiltekinna sveitarfélaga gagnvart umsóknum í samkeppnispott fjarskiptasjóðs. Þetta er gert í þeim tilgangi að gera strjálbýlum sveitarfélögum hægara um vik að hefja ljósleiðarauppbyggingu. Eftirfarandi 19 sveitarfélög eiga kost á þessum fjármunum 2017 og nema styrkupphæðir 1 - 12,1 m.kr.

Helstu forsendur við úthlutun styrkjanna voru þéttleiki styrkhæfra svæða, hlutfall staða sem eru ótengdir, þróun íbúafjölda árin 2005 til 2015, ferðatími til þjónustukjarna og samgöngur, fjárhagsstaða sveitarfélags og meðaltekjur þess á íbúa. Gefin voru stig út frá þessum forsendum og sveitarfélög með fæst stig lentu efst í forgangsröðun. Óráðstafaður byggðastyrkur getur flust milli ára.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum