Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 175/2018 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 10. apríl 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 175/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18020022

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 30. janúar 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera án ríkisfangs (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. janúar 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Noregs.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði ógilt og að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði tekin til efnismeðferðar hér á landi með vísan til 1., 2. og 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Til vara er þess krafist að staða kæranda sem ríkisfangslauss einstaklings verði viðurkennd af íslenskum stjórnvöldum og að honum verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli ríkisfangsleysis, sbr. 39. gr. laga um útlendinga.

Til þrautavara er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði ógilt og málið sent til nýrrar meðferðar vegna brota á 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 25. október 2017. Þann 6. nóvember 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Noregi, sbr. 1. eða 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin), þar sem kærandi kvaðst hafa verið búsettur í Noregi. Þann 8. nóvember 2017 barst svar frá norskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli 2. mgr. 3. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, sbr. d-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 17. janúar 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Noregs. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 30. janúar 2018 og kærði kærandi ákvörðunina við birtingu til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 24. febrúar 2018, ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd viðbótarathugasemdir kæranda þann 26. febrúar sl. Þann 7. mars sl. bárust kærunefnd auk þess upplýsingar frá norsku útlendingastofnuninni (n. Utlendingsdirektoratet). Þá sendi kærunefnd erindi til talsmanns kæranda þann 21. mars sl. og bárust kærunefnd svör talsmanns þar um þann 4. apríl sl.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Noregs. Flutningur kæranda til Noregs fæli ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Noregs, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæra frestaði réttaráhrifum, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvað að hann hefði komið til Noregs þegar hann hefði verið 14 ára og sótt um alþjóðlega vernd þar í landi. Hefði hann fengið alþjóðlega vernd í Noregi og loks ríkisborgararétt árið 2008. Síðar hefði rannsókn farið fram og niðurstaða norskra yfirvalda hefði verið sú að kærandi væri ekki frá Sómalíu heldur Djíbútí. Kærandi hefði þá verið sviptur vegabréfi og verndin hefði fallið niður. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að ekki yrði tekin afstaða til uppruna kæranda, þ.m.t. ríkisfangs hans. Þá yrði ekki tekin afstaða til þess hvort kærandi væri ríkisfangslaus en af 1., 2. og 3. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar væri ljóst að ríkisfangslausir einstaklingar heyrðu undir reglugerðina. Ekkert benti til annars en að norsk stjórnvöld skoðuðu og tækju tillit til ætlaðs ríkisfangsleysis kæranda. Því væri ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þær málsástæður kæranda er vörðuðu ríkisfangsleysi.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi komið til Noregs árið 2000 og sótt þar um alþjóðlega vernd. Í kjölfarið hafi honum verið veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða þar í landi. Dvalarleyfi hans hafi verið endurnýjað í fjórgang þar til hann hafi fengið ótímabundið dvalarleyfi í Noregi og loks ríkisborgararétt árið 2008. Árið 2015 hafi kærandi verið sviptur ríkisborgararétti þar sem grunur hafi leikið á um að hann hafi ekki veitt réttar upplýsingar um þjóðerni sitt þegar hann hafi sótt um vernd í Noregi. Kærandi hafi nú borið þá ákvörðun undir norska dómstóla.

Kærandi bendir á að Útlendingastofnun hafi borist samþykki á endurviðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar en honum hafi ekki verið synjað um alþjóðlega vernd í Noregi og því sé erfitt að sjá að d-liður 1. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar eigi við í málinu. Hafi kærandi óskað eftir nánari skýringum frá Útlendingastofnun þar um. Þá hafi kærandi jafnframt óskað eftir því að Útlendingastofnun hefði milligöngu um að kanna á hvaða forsendum norsk stjórnvöld hafi byggt samþykki sitt. Útlendingastofnun hafi hins vegar ekki orðið við þeirri beiðni kæranda. Í kjölfarið hafi kærandi haft samband við Dyflinnarteymi norsku útlendingastofnunarinnar og óskað eftir framangreindum upplýsingum. Þá hafi norsk yfirvöld sent ýmis gögn til Dyflinnarteymis Útlendingastofnunar en í gögnunum hafi ekki verið að finna rökstuðning fyrir því hvers vegna norsk stjórnvöld hafi samþykkt að taka við kæranda á framangreindum grundvelli. Kærandi telji, með vísan til rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, að Útlendingastofnun hafi borið skylda til að kanna með nánari hætti hvað lægi til grundvallar samþykki norskra stjórnvalda.

Umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hafi verið lögð fram í Noregi árið 2000, ári áður en Noregur og Ísland hafi gerst aðilar að Dyflinnarsamningnum og 14 árum áður en núgildandi Dyflinnarreglugerð hafi tekið gildi. Í því sambandi vísar kærandi til sjónarmiða um bann við afturvirkni íþyngjandi laga en hann telji að útilokað sé að byggja endursendingu til Noregs á ákvæðum núgildandi Dyflinnarreglugerðar. Þá telji kærandi að þrátt fyrir að beiðni um endurviðtöku hafi verið samþykkt af hálfu annars aðildarríkis hafi það ekki áhrif á rétt eða skyldu íslenskra stjórnvalda til að taka umsóknina til efnismeðferðar með vísan til ákvæða 36. gr. laga um útlendinga og/eða 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Endursending sé ekki heimil einungis á þeirri forsendu að annað ríki hafi samþykkt að taka við umsækjanda.

Þá gerir kærandi í greinargerð sinni ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans, þ. á m. það mat stofnunarinnar að kærandi hafi ekki sannað hver hann sé með fullnægjandi hætti. Fyrir liggi fjölmörg gögn sem sýni fram á auðkenni kæranda, s.s. afrit af norsku vegabréfi hans. Þá geri kærandi athugasemd við þá niðurstöðu í hinni kærðu ákvörðun að við úrlausn málsins verði á því byggt að kærandi hafi verið sviptur ríkisborgararétti og hann óttist að verða sendur úr landi við endursendingu til Noregs. Rétt sé að kærandi hafi verið sviptur ríkisborgararétti og honum hafi verið birt ákvörðun um brottvísun sem staðfest hafi verið á fyrsta dómstigi í Noregi. Kærandi óttist um líf sitt komi til þess að hann verði sendur til Sómalíu en fyrst og fremst óttist hann að við endursendingu til Noregs muni norsk stjórnvöld hvorki senda hann til Djíbútí né til heimaríkis hans, heldur verði hann réttindalaus í Noregi án þess að geta yfirgefið landið á löglegan hátt. Kærandi gerir jafnframt athugasemd við þá fullyrðingu Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki skilað inn heilsufarsgögnum sem staðfesti að hann glími við andlega erfiðleika. Í kjölfar beiðni kæranda hafi Dyflinnarteymi Útlendingastofnunar borist ýmis gögn frá norskum yfirvöldum, þ. á m. læknisvottorð, dags. 20. október 2015, og vottorð sálfræðings vegna andlegrar heilsu kæranda. Því sé um að ræða rangfærslu í ákvörðun Útlendingastofnunar. Af þessu leiði að ekki hafi verið byggt á fyrirliggjandi upplýsingum um heilsufar kæranda og því sé rannsókn málsins að þessu leyti verulega áfátt. Þá gerir kærandi athugasemd við fullyrðingu Útlendingastofnunar þess efnis að ekkert bendi til annars en að kærandi muni fá vandaða og efnislega meðferð verði honum snúið til baka til Noregs, en kærandi telji verulegan vafa leika á því. Þá hafi, í ákvörðun Útlendingastofnunar, ekkert verið fjallað um þá málsástæðu kæranda að ekki væri lagastoð fyrir endursendingu hans til Noregs þar sem ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar ættu ekki við í máli hans.

Til stuðnings aðalkröfu sinni vísar kærandi m.a. til einstaklingsbundinna aðstæðna sinna og sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi misst allt sitt í kjölfar þess að norsk yfirvöld hafi svipt hann ríkisborgararétti, þ. á m. rétt til félagslegrar aðstoðar og þjónustu. Áður en hann hafi komið til Íslands hafi hann fengið inni hjá vinum sínum og hafi að öllu leyti verið upp á náð og miskunn annarra kominn. Þá hafi hann lagt fram vottorð lækna í Noregi sem staðfesti að hann þjáist af áfallastreituröskun og hafi hann lýst því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann ætti í erfiðleikum með svefn og þjáist af ótta og kvíða. Kærandi teljist því vera einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Kærandi hafi óskað eftir því við norsk stjórnvöld að þau sendi hann til Djíbútí en þarlend stjórnvöld hafi ekki fallist á að taka við honum. Þá hafi hann óskað eftir því að norsk stjórnvöld gefi út ferðaskilríki fyrir hann til að hann geti ferðast til Sómalíu en við því hafi þau ekki orðið, þar sem þau telji hann ekki sómalskan ríkisborgara. Við endursendingu til Noregs verði kærandi því algjörlega réttindalaus og jafnframt ógerlegt að yfirgefa landið. Það sé fyrirséð að hann muni eiga verulega erfitt uppdráttar í Noregi en staða hans sé mjög sérstök, m.a. vegna þeirrar athygli sem mál hans hafi fengið í fjölmiðlum.

Þá kveður kærandi að norsk stjórnvöld haldi út harðri stefnu í innflytjendamálum og því hafi umsóknum um alþjóðlega vernd í Noregi fækkað verulega. Norsk stjórnvöld hafi hlotið mikla gagnrýni vegna þessa, þ. á m. frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Vísar kærandi til ýmissa gagna því til stuðnings, s.s. frétta, skýrslna og vefsíðna. Þá hafi norsk stjórnvöld sætt mikilli gagnrýni fyrir að beina þeim tilmælum til norsku útlendingastofnunarinnar að rannsaka mál einstaklinga með það að augnamiði að svipta þá norsku ríkisfangi.

Þá vísar kærandi til lögskýringargagna að baki lögum nr. 81/2017, um breytingu á lögum um útlendinga, svo og úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 582/2017, dags. 24. október sl. Kærandi byggir jafnframt á því að endursending hans til Noregs myndi fela í sér brot á grundvallarreglunni um non-refoulement, sbr. 3. mgr. 36. gr. og 42. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Þá vísar kærandi til skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2016 um endursendingar til mið- og suðurhluta Sómalíu, en þar komi fram að stofnunin leggist gegn þvinguðum endursendingum þangað.

Til stuðnings varakröfu sinni byggir kærandi á því að hann sé ríkisfangslaus og vísar í því sambandi til 39. gr. laga um útlendinga. Kæranda hafi verið veittur norskur ríkisborgararéttur árið 2008 en þar sem norsk lög heimili ekki tvöfalt ríkisfang hafi kærandi þurft að afsala sér sómölskum ríkisborgararétti. Þá fjallar kærandi um úrskurð kærunefndar nr. 527/2017 og byggir á því að grundvallarmunur sé á því máli annars vegar og máli kæranda hins vegar, þar sem ekkert bendi til þess að norsk stjórnvöld muni taka tillit til ríkisfangsleysis kæranda.

Til stuðnings þrautavarakröfu sinni vísar kærandi m.a. til 10. gr. stjórnsýslulaga og 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærandi telji að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga og þá hafi ekki verið tekið tillit til framlagðra gagna kæranda við mat á sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Í viðbótarathugasemdum kæranda, sem bárust kærunefnd þann 26. febrúar sl., vísar kærandi til ákvæða 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, um dvalarskjöl og vegabréfsáritanir. Með vísan til 2. málsl. 4. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar byggir kærandi á því að íslensk yfirvöld beri ábyrgð á umsókn hans um alþjóðlega vernd, þar sem dvalarleyfi kæranda hafi verið ógilt þann 22. júní 2015, þegar hann hafi verið sviptur norskum ríkisborgararétti. Kærandi hafi komið hingað til lands þann 25. október 2017 en þá hafi verið liðnir 28 mánuðir frá ógildingu dvalarleyfis hans í Noregi. Því sé ábyrgð Noregs á umsókn kæranda nú fallin úr gildi.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að norsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Noregs er byggt á því að kærandi hafi fyrst sótt þar um alþjóðlega vernd og fengið synjun á umsókn sinni þar í landi.

Líkt og þegar hefur verið rakið byggir kærandi m.a. á því að útilokað sé að byggja endursendingu hans til Noregs á ákvæðum núgildandi Dyflinnarreglugerðar sökum þess að umsókn hans um alþjóðlega vernd hafi verið lögð fram í Noregi árið 2000, ári áður en Noregur og Ísland hafi gerst aðilar að Dyflinnarsamningnum og 14 árum áður en núgildandi Dyflinnarreglugerð hafi tekið gildi. Þá gerir kærandi athugasemdir við grundvöll samþykkis Noregs á viðtöku hans en meðal annars liggi ekki fyrir á hvaða grundvelli III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar norsk stjórnvöld telji sig bera ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd.

Í 49. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar segir m.a. að reglugerðin gildi um umsóknir um alþjóðlega vernd sem lagðar séu fram frá og með fyrsta degi sjötta mánaðar eftir gildistöku hennar og frá og með þeim degi gildi hún um allar beiðnir um að umsækjandi verði tekinn í umsjá eða um endurviðtöku umsækjanda, óháð því hvenær umsóknin hafi verið lögð fram. Að mati kærunefndar leikur því ekki vafi á því að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd fellur undir ákvæði núgildandi Dyflinnarreglugerðar.

Í 1. mgr. 27. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar segir að umsækjandi eða annar einstaklingur, eins og um getur í c- eða d-lið 1. mgr. 18. gr., skuli eiga rétt til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns, í formi kæru eða endurskoðunar fyrir dómstóli á málsatvikum og lagaatriðum vegna ákvörðunar um flutning, sjá í því sambandi dóma dómstóls Evrópusambandsins í máli Mehrdad Ghezelbash gegn Staatssecretaris van Veiligheid en Justitie (mál nr. C-63/15 frá 7. júní 2016) og George Karim gegn Migrationsverket (mál nr. C-155/15 frá 7. júní 2016).

Fyrir liggur að Noregur hefur samþykkt viðtöku á kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli 2. mgr. 3. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, sbr. bréf þess efnis dags. 8. nóvember 2017. Í 1. mgr. 3. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, sem kærandi vísar m.a. til í greinargerð sinni, kemur m.a. fram að aðildarríkin skuli taka til meðferðar sérhverja umsókn um alþjóðlega vernd sem ríkisborgari þriðja lands eða ríkisfangslaus einstaklingur leggi fram á yfirráðasvæði einhvers aðildarríkjanna. Aðeins það aðildarríki sem beri ábyrgð, samkvæmt þeim viðmiðunum sem mælt sé fyrir í III. kafla, skuli taka umsóknina til meðferðar. Hins vegar kemur fram í 2. mgr. ákvæðisins að ef ekki sé unnt að tilnefna eitthvert aðildarríki sem beri ábyrgð á grundvelli viðmiðananna, sem tilgreindar séu í reglugerðinni, skuli það aðildarríki, þar sem fyrst var lögð fram umsókn um alþjóðlega vernd, bera ábyrgð á meðferð hennar. Ljóst er af gögnum málsins að kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd í Noregi árið 2000 og að norsk stjórnvöld telji sig bera ábyrgð á umsókninni á framangreindum grundvelli. Kærunefnd telur ljóst að Noregur beri ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd, enda gefi fyrirliggjandi gögn í málinu ekki annað til kynna.

Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að ákvæði reglugerðarinnar standi ekki í veg fyrir því að heimilt sé að krefja norsk yfirvöld um að taka við kæranda. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga því uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar og ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Greining á sérþörfum sbr. 25. gr. og 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga

Kærandi var ekki metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans hjá Útlendingastofnun. Samkvæmt gögnum málsins er kærandi fráskilinn og barnlaus karlmaður á […]aldri. Þá kveðst hann vera ríkisfangslaus. Í viðtölum við kæranda hjá Útlendingastofnun, dags. 31. október og 19. desember 2017, kemur m.a. fram að kærandi glími við of háan blóðþrýsting og mjólkuróþol. Þá kvað kærandi að hann þjáist af svefnleysi, ótta og kvíða og hafi verið greindur með áfallastreituröskun en hann telji sig þurfa á sérfræðiaðstoð að halda sökum þess. Kærandi hafi rætt við hjúkrunarfræðing hér á landi og honum verið tjáð að hann gæti fengið sálfræðiaðstoð ef hann teldi sig þurfa þess. Þá kvað kærandi að með aðstoð í Noregi hafi honum tekist að vinna úr atburðum fortíðarinnar sem tengist m.a. fyrrum aðstæðum hans í heimaríki. Meðal framlagðra gagna kæranda er vottorð norsks læknis, dags. 20. október 2015. Þar kemur m.a. fram að kærandi sé í andlegu ójafnvægi sem tengist aðstæðum hans (n. psykisk ubalanse situasjonsbetinget). Þá glími hann við þunglyndi og örvæntingu og sýni einkenni áfallastreituröskunar. Kærandi hefur ekki lagt fram uppfærð heilsufarsgögn í máli sínu en hefur þó verið leiðbeint þar um, sbr. afrit af viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun, dags. 19. desember 2017.

Það er mat kærunefndar að gögn málsins gefi ekki til kynna að líkamlegir og andlegir kvillar kæranda nái því alvarleikastigi að hann teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu að því er varðar meðferð máls hans hér á landi, enda verður ekki talið að aðstæður hans séu þess eðlis að hann hafi sérstakar þarfir sem taka þurfi tillit til við meðferð máls hér eða að hann geti ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum um útlendinga án aðstoðar eða sérstaks tillits, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 25. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður og málsmeðferð í Noregi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Noregi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Amnesty International Report 2017/2018 – Norway (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Freedom in the World 2017 – Norway (Freedom House, 1. september 2017);
  • Norway 2016 Human Rights Report (United States Department of State, 3. mars 2017);
  • Eurostat – Final decisions on applications by citizenship, age and sex – Annual data (Eurostat, www.ec.europa.eu, 4. október 2017);
  • Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union 2016 (European Asylum Support Office, 5. júlí 2017);
  • UNHCR Position on Returns to Southern and Central Somalia (Update I) (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, maí 2016);
  • Informasjonsnotat om asylankomster (Utlendingsdirektoratet, 2016);

  • ECRI Report on Norway (European Commission against Racism and Intolerance, 24. febrúar 2015);
  • The Organisation of Reception Facilities for Asylum Seekers in Norway (Utlendingsdirektoratet, 2014);
  • The Case of Norway: The use of detention and alternatives to detention in the context of immigration policies (Utlendingsdirektoratet, 2014);
  • Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees: For the Office of the High Commissioner for Human Rights‘ Compilation Report – Universal Periodic Review: NORWAY (UNHCR, september 2013);
  • UNHCR Observations on the proposed amendments to the Norwegian Immigration Act and Regulation: Høring – Endringer i utlendingslovgivningen (Innstramninger II) (UNHCR, 12. febrúar 2016);
  • Mapping Statelessness in Norway (UN High Commissioner for Refugees, október 2015);
  • Information for asylum seekers in Norway (Norwegian Organisation for Asylum Seekers, 2011);
  • Upplýsingar af vefsíðum landinfo (www.landinfo.no), norsku útlendingastofnunarinnar (www.udi.no), norsku kærunefndar útlendingamála (www.une.no), norskra dómstóla (www.domstol.no), norskra stjórnvalda (www.regjeringen.no), norska heilbrigðisráðuneytisins (www.legemiddelverket.no), um heilbrigðiskerfið í Noregi (www.helsenorge.no), norskra hjálparsamtaka fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd (www.noas.no og www.seif.no), norskra laganema (www.jussbuss.no, www.jusshjelpa.no og www.jussformidlingen.no), Global Detention Project (www.globaldetentionproject.org/countries/europe/norway) og umboðsmanns norska þingsins (www.sivilombudsmannen.no);
  • Tölvupóstur frá norsku útlendingastofnuninni (n. Utlendingsdirektoratet), dags. 7. mars 2018.

Kærandi hefur m.a. borið fyrir sig að hann sé ríkisfangslaus. Af framangreindum skýrslum og gögnum má ráða að ríkisfangslausir einstaklingar sem sækja um alþjóðlega vernd í Noregi dvelji í viðkomu- eða móttökumiðstöðvum. Einstaklingar, sem hafa fengið synjun á umsókn um alþjóðlega vernd í Noregi en sæta endursendingu þangað frá öðrum aðildarríkjum Dyflinnarreglugerðarinnar dvelja að jafnaði í viðkomumiðstöðvum. Í viðkomu- og móttökumiðstöðvum í Noregi fá umsækjendur fæði og klæði eftir þörfum, auk vasapeninga. Þá eiga umsækjendur sem hafa fengið synjun á umsókn sinni rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Varðhald er heimilt í ákveðnum tilvikum, s.s. ef umsækjandi sýnir ekki samstarfsvilja við að upplýsa um auðkenni sitt. Þá geta ríkisfangslausir umsækjendur um alþjóðlega vernd sótt um ferðaskilríki hjá norsku útlendingastofnuninni, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Kærandi kveðst óttast að við endursendingu til Noregs muni norsk stjórnvöld hvorki senda hann til Djíbútí né til heimaríkis hans Sómalíu, heldur verði hann áfram réttindalaus í Noregi án þess að geta yfirgefið landið á löglegan hátt. Þann 7. mars sl. bárust kærunefnd svör norsku útlendingastofnunarinnar við fyrirspurn nefndarinnar varðandi frestun réttaráhrifa, þjónustu, varðhald og aðstoð við heimför í málum einstaklinga á borð við kæranda. Í svari norskra yfirvalda kemur fram að varðhaldi sé ekki beitt sjálfkrafa við endurviðtöku en lögreglan framkvæmi mat á hættu á flótta í hverju tilviki fyrir sig. Þá má ráða af svari norskra stjórnvalda að einstaklingar í sambærilegri aðstöðu og kærandi geti sótt um aðstoð við heimför hjá Alþjóðastofnun um fólksflutninga (e. International Organization for Migration) og norskum lögregluyfirvöldum. Hvað varðar þjónustu við einstaklinga í sambærilegri stöðu og kærandi, meðan á dvöl hans í Noregi standi, þá geti hann óskað eftir félagslegri aðstoð hjá sveitarfélaginu þar sem hann hafi áður verið skráður. Sé viðkomandi synjað um fjárhagsaðstoð geti hann óskað eftir því við norsku útlendingastofnunina að fá að dveljast í móttökumiðstöð. Sem stendur séu þó engar móttökumiðstöðvar í Osló og yrði einstaklingum í þessari stöðu boðið pláss í móttökumiðstöð annars staðar í Noregi þar sem pláss væri laust.

Þá ber kærandi fyrir sig að verulegur vafi leiki á því að hann muni fá vandaða og efnislega meðferð verði honum snúið til baka til Noregs. Í fyrirliggjandi gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi þegar kært ákvörðun norsku útlendingastofnunarinnar, um brottvísun og endurkomubann, til norsku kærunefndar útlendingamála (n. Utlendingsnemnda). Þá hafi kærandi farið með mál sitt fyrir dómstóla og notið við það réttaraðstoðar. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi áfrýjað framangreindum dómi þingréttar Osló (n. Oslo Tingrett), um gildi ákvörðunar stjórnvalda í máli hans, til lögmannsréttar (n. lagmannsretten).

Skilyrði endurupptöku, skv. norskum lögum, geta verið uppfyllt ef nýjar upplýsingar eða gögn liggja fyrir í máli umsækjanda um alþjóðlega vernd, aðstæður hafa breyst í málinu eða ef verulegir annmarkar voru á fyrri málsmeðferð. Enn fremur getur umsækjandi borið synjun á endurupptökubeiðni undir norska dómstóla. Hafi umsækjandi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd í öðru aðildarríki Dyflinnarreglugerðarinnar eftir synjun á umsókn sinni í Noregi verður umsókn viðkomandi þó ekki endurskoðuð sjálfkrafa í kjölfar endursendingar til Noregs heldur þarf umsækjandinn sjálfur að leggja slíka umsókn fram. Þá geta umsækjendur, sem telja á sér brotið í samskiptum sínum við stjórnvöld, kvartað til umboðsmanns norska þingsins (n. Sivilombudsmannen). Að öllu framangreindu virtu og af lestri gagna málsins er það mat kærunefndar að kærandi hafi fengið og komi til með að fá vandaða og efnislega meðferð í Noregi og njóti raunhæfra réttarúrræða fyrir stjórnvöldum og dómstólum Noregs. Þá ber að geta þess að umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða að um meðferð sé að ræða sem brjóti í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Kærandi kveður að norsk yfirvöld sendi sómalska umsækjendur um alþjóðlega vernd aftur til heimaríkis þrátt fyrir að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hvetji ríki til að snúa engum gegn vilja sínum til svæða í mið- og suðurhluta Sómalíu sem séu undir áhrifum stríðsátaka, teljist óörugg í kjölfar slíkra átaka eða séu undir áhrifum óopinberra herskárra hópa. Að mati kærunefndar á framangreind málsástæða ekki við í máli kæranda þar sem norsk stjórnvöld telja kæranda ekki vera frá Sómalíu. Þó verður tekið fram að samkvæmt ofangreindum skýrslum og gögnum, sem kærunefnd hefur kynnt sér, endurmeta norsk stjórnvöld reglulega öryggisástand í ákveðnum löndum, þ. á m. Sómalíu, og jafnframt möguleikann á flutningum innanlands. Að mati kærunefndar bera gögn málsins með sér að í Noregi sé almennt veitt fullnægjandi vernd gegn brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd til landa þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra og frelsi ógnað (non-refoulement), sbr. 73. gr. norskra laga um útlendinga (n. lov om utlendingers adgang til riket og deres opphold her). Er þá sérstaklega litið til þess að framlögð gögn kæranda og þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda eindregið til þess að málsmeðferð norskra yfirvalda sé fullnægjandi.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Noregi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda þangað brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Noregi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Noregs á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Aðstæður kæranda hafa þegar verið raktar. Það er mat kærunefndar að kærandi komi ekki til með að eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hann geti vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings þar, þ. á m. vegna kynþáttar. Þá gefa gögn málsins ekki til kynna að kærandi glími við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan eða lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum sé aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Ekki sé fyrir hendi ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hans sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað um heilbrigðiskerfið í Noregi er það mat nefndarinnar að ekki séu forsendur til annars en að leggja til grundvallar í málinu að kæranda bíði fullnægjandi og aðgengileg heilbrigðisþjónusta þar í landi.

Svo sem fram hefur komið vísar kærandi í greinargerð sinni til úrskurðar kærunefndar nr. 582/2017, frá 24. október 2017, til stuðnings kröfu sinni um efnismeðferð á grundvelli sérstakra ástæðna. Með þeim úrskurði hafi ákvörðun Útlendingastofnunar í máli ungs sómalsks manns verið felld úr gildi og umsókn hans send til efnismeðferðar á þeim grundvelli að líkur væru á því að hann myndi eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríkinu Svíþjóð vegna aldurs, heilsufars og fyrri reynslu. Kærunefnd telur að ekki sé hægt að jafna stöðu kæranda við stöðu kærandans í framangreindu máli. Kemur þar m.a. til skoðunar að í því máli lá fyrir að kærandi var fylgdarlaust barn við komu hans til landsins.

Kærunefnd leggur þannig skilning í málsástæður kæranda að hann byggi á því að einstaklingsbundnar aðstæður hans, sem einstaklings sem hefur verið veitt vernd í Noregi en síðar verið sviptur norskum ríkisborgararétti, séu með þeim hætti að sérstakar ástæður eigi við í máli hans. Hefur hann vísað til þess að hann hafi ekki rétt til félagslegrar aðstoðar og þjónustu í Noregi. Þá hefur hann lýst því að það sé ógerlegt fyrir hann að yfirgefa Noreg vegna aðstæðna sinna. Með vísan til gagna frá norsku útlendingastofnuninni telur kærunefnd upplýst að kærandi geti óskað eftir félagslegri aðstoð hjá norskum stjórnvöldum, annars vegar sveitarfélögum og hins vegar norsku útlendingastofnuninni. Þá telur kærunefnd upplýst að kærandi geti óskað eftir aðstoð við heimferð frá norskum yfirvöldum og Alþjóðastofnun um fólksflutninga  en í því sambandi lítur kærunefnd m.a. til þess að gögn málsins renna ekki stoðum undir fullyrðingu kæranda um að hann hafi reynt að komast frá Noregi en að norsk stjórnvöld hafi ekki veitt honum fullnægjandi aðstoð til þess. Að mati kærunefndar benda gögnin því ekki til þess að aðstæður kæranda séu með þeim hætti, sem lýst er í greinargerð til kærunefndar, að kærandi verði algjörlega réttindalaus í Noregi og jafnframt ógerlegt að yfirgefa landið.

Kærunefnd tekur fram að samkvæmt gögnum málsins er mál kæranda varðandi sviptingu norsks ríkisborgararéttar og brottvísun frá Noregi enn til meðferðar í norska dómskerfinu. Að mati kærunefndar eru aðstæður kæranda að þessu leyti ekki með þeim hætti að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í máli hans í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga .

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. 

Kærandi kvaðst í viðtölum hjá Útlendingastofnun, dags. 31. október og 19. desember 2017, ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 25. október 2017.

Alþjóðleg vernd á grundvelli ríkisfangsleysis

Kærandi gerir varakröfu um að staða hans sem ríkisfangslauss einstaklings verði viðurkennd af íslenskum stjórnvöldum og að honum verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli ríkisfangsleysis, sbr. 39. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir m.a. á því að grundvallarmunur sé á máli hans og málavöxtum í úrskurði kærunefndar nr. 527/2017, frá 24. október 2017, þar sem ekkert bendi til þess að norsk stjórnvöld muni taka tillit til ríkisfangsleysis hans.

Í 1. mgr. 39. gr. laga um útlendinga kemur fram að ríkisfangslaus einstaklingur sem staddur er hér á landi en telst ekki flóttamaður skv. 37. gr., og er ekki útilokaður frá réttarstöðu ríkisfangsleysis skv. 41. gr., hafi sjálfstæðan rétt til alþjóðlegrar verndar á grundvelli ríkisfangsleysis síns samkvæmt umsókn. Í lögskýringargögnum við ákvæðið kemur fram að komi upp að umsækjandi um alþjóðlega vernd á grundvelli flóttamannasamningsins óski jafnframt eftir stöðu ríkisfangslauss einstaklings skuli leysa úr þeim málum samhliða. Kærunefnd ítrekar að samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Líkt og áður hefur komið fram hafa norsk stjórnvöld samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 2. mgr. 3. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga því uppfyllt.

Í 1. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar er mælt fyrir um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða aðildarríki beri ábyrgð á meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd sem ríkisborgari þriðja lands eða ríkisfangslaus einstaklingur leggur fram í einu aðildarríkjanna. Í c-lið 2. gr. reglugerðarinnar kemur fram að skilgreiningin á umsækjanda sé ríkisborgari þriðja lands eða ríkisfangslaus einstaklingur sem hefur lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd sem enn liggur ekki endanleg ákvörðun fyrir um. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar kemur m.a. fram að aðildarríkin skuli taka til meðferðar sérhverja umsókn um alþjóðlega vernd sem ríkisborgari þriðja lands eða ríkisfangslaus einstaklingur leggur fram á yfirráðasvæði einhvers aðildarríkjanna. Er því ljóst af þessum ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar að ríkisfangslausir einstaklingar heyra undir reglugerðina. Með vísan til ofangreindra skýrslna og gagna, þ. á m. upplýsinga frá norsku útlendingastofnuninni, tekur kærunefnd fram að nefndin telur ekki forsendur til annars en að leggja til grundvallar að kærandi geti farið fram á skoðun á þessum þætti máls síns hjá norskum yfirvöldum, en Noregur er m.a. aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá árinu 1954.

Þótt orðalag 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga bendi til þess að ákvæðið taki eingöngu til umsókna um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd, með vísan til heimildar til að krefja Noreg um að taka við umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarsamstarfsins, og í ljósi þess að efnismeðferð umsókna um alþjóðlega vernd og umsókn um stöðu ríkisfangsleysis einstaklinga haldast í hendur skv. lögum um útlendinga, að heimild til að synja efnismeðferð umsóknar kæranda nái til málsástæðna sem varða umsókn um alþjóðlega vernd, bæði á grundvelli ríkisfangsleysis og á þeim grundvelli að hann sé flóttamaður. Er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um málsástæður kæranda sem varða ríkisfangsleysi.

Reglur stjórnsýsluréttar

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi athugasemd við þá fullyrðingu Útlendingastofnunar í ákvörðun sinni að kærandi hafi ekki skilað inn heilsufarsgögnum sem staðfesti að hann glími við andlega erfiðleika. Í kjölfar beiðni kæranda hafi Dyflinnarteymi Útlendingastofnunar borist ýmis gögn frá norskum yfirvöldum, þ. á m. læknisvottorð, dags. 20. október 2015. Því sé um að ræða rangfærslu í ákvörðun Útlendingastofnunar. Af þessu leiði að ekki hafi verið byggt á fyrirliggjandi upplýsingum um heilsufar kæranda og því sé rannsókn málsins að þessu leyti verulega áfátt.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Af 10. gr. stjórnsýslulaga leiðir að stjórnvöldum ber að tryggja að mál þar sem reynir á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga séu nægjanlega upplýst með tilliti til heilsufars.

Kærunefnd útlendingamála gerir alvarlega athugasemd við framangreinda rangfærslu í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda. Þótt af rökstuðningi stofnunarinnar verði ekki lesið að tillit hafi verið tekið til framangreindra gagna við ákvörðunartöku hjá stofnuninni, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga, liggur fyrir að framangreind gögn voru meðal fyrirliggjandi málsgagna sem kærunefnd bárust frá stofnuninni. Þá liggur fyrir í reifun málsástæðna kæranda í ákvörðun Útlendingastofnunar að kærandi hafi borið fyrir sig að hann glímdi við áfallastreituröskun og lá sú málsástæða því fyrir við ákvörðunartöku hjá stofnuninni. Þá kemur fram í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. þann 19. desember 2017, að kæranda hafi m.a. verið leiðbeint um að leggja fram upplýsingaskýrslu frá Göngudeild sóttvarna og leitaði hann til læknis eða sálfræðings væri honum bent á að fá skriflegar upplýsingar um heilsufar sitt og skila til Útlendingastofnunar. Fyrir liggur að kærandi hefur ekki lagt fram frekari læknisfræðileg gögn í málinu. Samkvæmt framansögðu var rökstuðningur í máli kæranda ekki í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur aftur á móti að gögn málsins bendi ekki til þess að skort hafi á rannsókn á þessum þætti málsins eða að í reynd hafi ekki verið lagt mat á heilsufar kæranda á grundvelli fullnægjandi gagna í málínu. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til að gera athugasemd við rannsókn málsins hjá Útlendingastofnun.

Samantekt

Í máli þessu hafa norsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Noregs með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

Erna Kristín Blöndal                                                                                       Pétur Dam Leifsson

                                                                                             

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum