Hoppa yfir valmynd
29. desember 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun tollstjóra um innheimtu

CATO Lögmenn ehf.
Kristján Gunnar Valdimarsson, hdl.
Katrínartúni 2
105 Reykjavík

Reykjavík 29. desember 2016
Tilv.: FJR16100072/16.2.2


Efni: Úrskurður ráðuneytisins vegna stjórnsýslukæru [A].

Hinn 2. október 2016 barst ráðuneytinu í tölvupósti kæra Kristjáns Gunnars Valdimarssonar, hdl., fyrir hönd [A], kt. […]. Þess er krafist að úrskurður tollstjóra verði felldur úr gildi og mælt fyrir um að fallið verði frá innheimtu ábyrgðar kæranda á skattskuld fyrrum sambýlismanns kæranda.

Málsatvik og krafa kæranda:
Ríkisskattstjóri endurákvarðaði þing- og sveitarsjóðsgjöld hjá fyrrum sambýlismanni kæranda þann 12. júní 2014 samtals að upphæð 55.365.010 kr. vegna áranna 2007 og 2008 (tekjuárin 2006 og 2007). Krafan stofnaðist þann dag á hendur fyrrverandi sambýlismanni kæranda sem og kæranda sjálfum og féll í gjalddaga 10 dögum síðar, sbr. 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 1. mgr. 116. gr. sömu laga. Innheimta hjá kæranda á grundvelli 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 hófst með sendingu greiðsluáskorunar hinn 16. september 2015.

Lögmaður kæranda beindi erindi til tollstjóra hinn 18. janúar 2016 og fór fram á að fallið yrði frá innheimtu vegna skattskulda fyrrverandi sambúðaraðila kæranda. Í kæru kemur fram að erindinu hafi verið svarað hinn 14. október 2016 en þá hafi verið búið að krefjast fjárnáms hjá kæranda og því hafnað af hálfu tollstjóra að fresta eða afturkalla fjárnámið á meðan málið væri til stjórnsýslumeðferðar. Í kæru kemur jafnframt fram að kærandi hafi ekki haft vitneskju um að skattamál væri í gangi á hendur fyrrum sambýlismanni hennar fyrr en innheimtukrafa hafi borist frá tollstjóra hinn 2. október 2015. Ekki hafi verið tilkynnt um meðferð máls, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, né að aðili ætti rétt á aðgangi að gögnum máls, sbr. 15. gr. laganna. Kærandi hafi ekki fengið andmælarétt um skattálagningu né stofnun kröfu, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, ákvörðun hafi aldrei verið birt kæranda sbr. 20. gr. sömu laga né heldur hafi málið verið rökstutt, sbr. 21. gr. laganna.

Kærandi fer fram á að úrskurður tollstjóra verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir tollstjóra að taka málið til löglegrar meðferðar. Verði ekki fallist á það er þess krafist að ráðuneytið taki til efnisúrlausnar kröfu gjaldanda í málinu og felli niður innheimtu skattskuldar vegna meintrar ábyrgðar kæranda á skattskuldum fyrrverandi sambúðaraðila.

Umsögn tollstjóra:
Umsögn tollstjóra barst ráðuneytinu hinn 6. desember 2016. Þar segir að innheimtuferli hafi verið frestað að ósk umboðsmanns kæranda í tölvupósti 18. janúar 2016 þar sem fyrir lá að hann hafði f.h. kæranda freistað þess að fá fram breytingu á ákvörðun ríkisskattstjóra um endurákvörðun vegna áranna 2007 og 2008, sbr. bréf til ríkisskattstjóra dags. 27. janúar 2016 og 15. febrúar 2016. Tollstjóri sendi fjárnámsbeiðni til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 20. september 2016.

Umsögn tollstjóra einskorðast við þá þætti sem snúa að hlutverki tollstjóra og innheimtu skattskuldarinnar þar sem hann er ekki bær að lögum til að fjalla um málsmeðferð ríkisskattstjóra sem álagningaraðila vegna meintra brota á málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar.

Tollstjóri vísar í umsögn sinni á bug gagnrýni kæranda á afgreiðslu erindisins þar sem ljóst sé af gögnum málsins að verulegir frestir höfðu verið veittir í innheimtuferlinu og afstaða ríkisskattstjóra lá þegar fyrir. Þá segir í umsögn tollstjóra að innheimta embættisins hjá kæranda hafi verið framkvæmd í samræmi við ákvæði skattalaga, m.a. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 80. gr. sömu laga. Málatilbúnaði kæranda er því hafnað í umsögn tollstjóra. Þar sem gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá kæranda fari krafan ekki í frekara innheimtuferli að óbreyttum aðstæðum í samræmi við verklagsreglur embættisins um fjárnám.

Niðurstaða:
Um ábyrgð á skattgreiðslum segir í 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt:
„Hjón, sbr. 62. og 80. gr., bera óskipta ábyrgð á greiðslum skatta sem á þau eru lagðir og getur innheimtumaður ríkissjóðs gengið að hvoru hjóna um sig til greiðslu á sköttum þeirra beggja. Rétt er því hjóna, er skattgreiðslur annast, að krefjast endurgreiðslu af hinu hjóna á þeim hluta skatts er það hefur greitt umfram það sem að réttum hlutföllum kemur í þess hlut miðað við tekjur og eign hvors hjóna. Reglur þessarar málsgreinar um ábyrgð hjóna skulu gilda með sama hætti um samskattað sambúðarfólk.“

Þá segir í 80. gr. laganna að tveir einstaklingar í sambúð sem óskað hafi samsköttunar skv. 3. mgr. 62. gr. skuli telja saman allar eignir sínar og skuldir.

Ákvæði 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 34/2002 talið vera skýrt og afdráttarlaust um sameiginlega ábyrgð hjóna á sköttum hvors annars og þar sé enga undantekningu að finna. Af ákvæðum 80. og 3. mgr. 62. gr. laganna leiði að séu sambúðaraðilar skattlagðir sameiginlega beri þeir óskipta ábyrgð á sköttum hvors annars.

Af rakningu málavaxta og skoðun gagna að dæma er gefið í skyn í kæru að lögmaður kæranda hafi beint erindi til tollstjóra hinn 18. janúar 2016 um að fallið yrði frá innheimtu vegna skulda fyrrverandi sambúðaraðila kæranda og ekkert hafi gerst í málinu fyrr en þegar erindinu hafi verið svarað af hálfu tollstjóra hinn 14. október 2016 en þá hafi verið búið að krefjast fjárnáms hjá kæranda og því hafnað að fresta eða afturkalla fjárnámið á meðan málið væri til stjórnsýslumeðferðar. Staðreyndin virðist vera sú að í millitíðinni hafi lögmaður kæranda freistað þess að fá fram breytingu á ákvörðun ríkisskattstjóra um endurákvörðun vegna áranna 2007 og 2008, sbr. bréf til ríkisskattstjóra dags. 27. janúar 2016. Í umsögn frá tollstjóra kemur fram að innheimtunni hafi verið frestað af þeim sökum.

Með bréfi dags. 3. febrúar 2016 hafnaði ríkisskattstjóri beiðni lögmanns kæranda um breytingu á formi skattframtals gjaldárin 2007 og 2008, þar sem óskað var eftir að álagning gjalda umræddra ára miðaðist við sérskattlagningu sambýlisfólks, með þeim röksemdum að erindi skattaðila hafið verið borið fram eftir að sex ára tímamörk endurupptökuheimildar 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003 voru liðin. Ekki þættu vera fyrir hendi sérstakar ástæður til endurupptöku skattálagningar skattaðila þau gjaldár sem um ræddi, sbr. 4. málsl. 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003.

Lögmaður kæranda fór með bréfi dags. 15. febrúar 2016 fram á endurupptöku á synjun ríkisskattstjóra frá 3. febrúar 2016 þar sem synjunin hefði byggt á röngum upplýsingum um málsatvik og bæri því að taka til efnismeðferðar. Ekki var fallist á beiðni um endurupptöku í bréfi ríkisskattstjóra dags. 14. apríl 2016 og erindinu hafnað með þeim rökum að hver og einn gjaldandi væri ábyrgur fyrir eigin framtalsskilum og gjaldendur gætu almennt ekki losnað undan ábyrgð sinni á efni og skilum framtals með því að fela öðrum gerð þess og skil. Það ætti einnig við um þegar um samskattaða aðila væri að ræða. Þá segir í bréfi ríkisskattstjóra að endurákvörðun á opinberum gjöldum fyrrum sambýlismanns kæranda varðaði eingöngu tekjur hans sjálfs og því hafi ekki verið efni til að veita henni andmælarétt, sbr. 96. gr. laga nr. 90/2003, við meðferð málsins. Þar sem kærandi og fyrrum sambýlismaður hennar hafi verið samsköttuð allt frá árinu 1990 til ársins 2008 væri ekki unnt að fallast á þá staðhæfingu umboðsmanns kæranda að „hún hefði aldrei samþykkt samsköttun og aldrei skrifað undir slíkt.“

Í kæru segir umboðsmaður kæranda að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga hafi verið brotnar við meðferð máls kæranda. Þannig hafi kærandi ekki haft neina aðkomu að máli því er varðaði fyrrum sambúðarmaka hennar og ekkert vitað um það mál fyrr en innheimta hófst haustið 2015, kæranda hafi hvorki verið tilkynnt um meðferð máls sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, né hafi hún haft aðgang að gögnum máls, sbr. 15. gr. laganna. Kærandi hafi auk þess ekki notið andmælaréttar um skattálagningu né stofnun kröfu sbr. 13. gr. laganna, ákvörðun hafi aldrei verið birt henni sbr. 20. gr. laganna og loks hafi skort að málið hafi verið rökstutt sbr. 21. gr. laganna.

Ráðuneytið er ekki bært til að fjalla um málsmeðferð ríkisskattstjóra í máli því er varðaði fyrrum sambúðaraðila kæranda, sem innheimta á hendur kæranda í máli þessu á grundvelli 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, byggir á. Röksemdafærsla umboðsmanns kæranda felur í sér að ráðuneytið taki til endurskoðunar ákvörðun ríkisskattstjóra í máli sem hefði verið kæranlegt til yfirskattanefndar af hálfu fyrrum sambúðarmaka kæranda. Því er ráðuneytinu ekki stætt að meta hvort málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar skv. lögum nr. 37/1993, hafi verið brotnar að því leyti.

Í ljósi eðlis samábyrgðar skv. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003, er því ekki fallist á að brotið hafi verið á málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar skv. lögum nr. 37/1993 í meðferð tollstjóra í málinu. Mestu skiptir að um gilda skattkröfu sé að ræða.

Þá ber umboðsmaður kæranda því við að skattkrafan sé fyrnd. Því er hafnað þar sem endurákvörðun fór fram hjá fyrrum sambúðaraðila kæranda á grundvelli 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en samkvæmt því ákvæði hefur ríkisskattstjóri heimild til að endurákvarða skatt vegna tekna og eigna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári sem endurákvörðun fer fram. Endurákvörðunin fór fram 12. júní 2014 og féll í gjalddaga hinn 21. júní 2014, sbr. 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Innheimtuaðgerðir á hendur kæranda á grundvelli 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, hófust hinn 16. september 2015 með sendingu greiðsluáskorunar. Þar með er ljóst að krafan er ekki fyrnd sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda.

Af málavöxtum verður ekki séð annað en að skilyrði 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, hafi verið uppfyllt til samsköttunar og að hvergi hafi verið vikið frá ákvæðum laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, við innheimtuferli tollstjóra.

Úrskurðarorð:
Ákvörðun tollstjóra, dags. 14. október 2016, um að synja því að falla frá innheimtu skattkröfu á hendur kæranda, er staðfest.


Fyrir hönd ráðherra




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum