Hoppa yfir valmynd
25. september 2008 Utanríkisráðuneytið

Fundur utanríkisráðherra Íslands og Rússlands

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Sergei Lavrov
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Sergei Lavrov

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra átti í gær fund með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Ráðherrarnir undirrituðu samning sem greiðir fyrir útgáfu vegabréfsáritana og ræddu ýmis hagsmunamál ríkjanna, meðal annars möguleika á frekara samstarfi í menningar-, umhverfis- og orkumálum.

Utanríkisráðherra gerði alvarlegar athugasemdir við flug rússneskra herflugvéla í kringum Ísland. Þá lýsti ráðherra afstöðu íslenskra stjórnvalda til átakanna milli Rússlands og Georgíu. Hún sagði í því sambandi að óviðunandi væri að stór ríki neyttu aflsmunar gagnvart minni ríkjum.

Ráðherrarnir voru sammála um að Norðurskautsráðið gegndi lykilhlutverki varðandi málefni norðurslóða og fram kom gagnkvæmur samstarfsvilji um þau mál. Þá var framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna rætt en Rússland er eitt þeirra ríkja sem á fast sæti í ráðinu.

Undirritun samningsins um vegabréfsáritanir greiðir fyrir útgáfu þeirra fyrir ríkisborgara Íslands og Rússlands. Samningnum er ætlað að einfalda ferli áritunarútgáfu og er hann gerður með vísan til þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Fyrr í vikunni undirritaði sendiherra Íslands í Moskvu tengdan samning um endurviðtöku ríkisborgara sem dveljast ólöglega í ríkjunum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum