Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 2007 Utanríkisráðuneytið

Fundur utanríkisráðherra með utanríkisráðherra Suður-Afríku

Frá fundi utanríkisráðherranna.
Frá fundi utanríkisráðherranna.


FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 030

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra átti í dag fund með Nkosazana Dlamini Zuma utanríkisráðherra Suður-Afríku.

Á fundinum ræddu ráðherrarnir tvíhliða samskipti ríkjanna, ekki síst á sviði viðskipta. Kom fram eindreginn áhugi stjórnvalda í Suður-Afríku til að hefja samningaviðræður við íslensk stjórnvöld um gerð loftferðasamnings, tvísköttunarsamnings og fjárfestingarsamnnings. Þá ræddu ráðherrarnir nýgerðan fríverslunarsamning milli Íslands og SACU og þau tækifæri sem í honum felast.

Þá ræddu ráðherrarnir svæðisbundin átök í Afríku, ekki síst ástandið í Súdan og Simbabve. Þá gerði utanríkisráðherra grein fyrir ferð sinni til Úganda og heimsókn sinni í flóttamannabúðirnar í Pader í norðanverðu landinu. Ræddu ráðherrarnir átökin sem þar geysa.

Utanríkisráðherra gerði jafnframt grein fyrir þróunarsamvinnu Íslands í sunnanverðri Afríku og nefndi sérstaklega skólamáltíðarverkefni fyrir börn, sem íslensk stjórnvöld hafa nýlega hrundið af stað í samvinnu við Matvælaáætlun S.þ. Utanríkisráðherra kvað þróunarsamvinnu Íslands í Afríku mikilvæga og skólamáltíðarverkefnið einkar mikilvægt fyrir skólagöngu stúlkna, enda væri menntun kvenna forsenda fyrir efnahagslega og félagslega framþróun í Afríku.

Að lokum þakkaði utanríkisráðherra stuðning Suður-Afríku við framboð Íslands til setu í Öryggisráði S.þ. árin 2009-2010. Sagði utanríkisráðherra Suður-Afríku heimsókn ráðherra til Afríku mikilvæga í þessu skyni, enda væru málefni Afríkuálfu að jafnaði ofarlega á baugi í Öryggisráðinu. Þá væri Ísland trúverðugur fulltrúi í ráðinu þar sem landið hefði ekki víðtækra sérhagsmuna að gæta um heim allan.

Að loknum fundinum sátu ráðherrarnir blaðamannafund og snæddu saman hádegisverð. Á morgun mun utanríkisráðherra eiga fund með borgastjóra Höfðaborgar og heimsækja þinghúsið.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum