Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2016 Innviðaráðuneytið

Ríki og sveitarfélög semja um markmið um afkomu og efnahag sveitarfélaga

Samkomulagið undirrituðu þau Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Karl Björnsson framkvæmdastjóri þess og ráðherrarnir Ólöf Nordal og Bjarni Benediktsson. - mynd
Samband íslenskra sveitarfélaga, innanríkisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra hafa undirritað samkomulag um markmið varðandi afkomu og efnahag sveitarfélaga árin 2017 til 2021. Er það fyrsta samkomulagið sem grundvallað er á nýjum lögum um opinber fjármál og gildir til eins árs. Auk markmiða samkomulagsins hefur það að geyma ákvæði um samskipti og samráð ríkis og sveitarfélaga og um þróun samstarfsins.

Í samkomulaginu segir um afkomuhorfur og afkomumarkmið að ríki og sveitarfélög séu sammála um eftirfarandi afkomumarkmið sem byggist á grunngildum um sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi:

a.       Heildarafkoma hins opinbera (A-hluta) verði jákvæð árin 2017-2021.

b.      Heildarafkoma A-hluta sveitarfélaga verði í jafnvægi og stuðli þannig að efnahagslegum stöðugleika. Heildarafkoma B-hluta sveitarfélaga verði jákvæð, sbr fyrirliggjandi markmið.

c.       Rekstur sveitarfélaga verði sjálfbær í þeim skilningi að skuldir þeirra sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hækki ekki og stefnt verði að því að þær fari heldur lækkandi. 

d.      Rekstri sveitarfélaga verði haldið innan varúðarmarka í þeim skilningi að tekjuáætlun sé varfærin, útgjaldaáætlun sé raunsæ og að sveitarfélög gangist ekki undir skuldbindingar sem raski forsendum í rekstri og afkomu til lengri tíma.

Gert er ráð fyrir að samkomulagið verði endurnýjað árlega og að næsta endurnýjun verði í mars 2017. Fram að því verða efni og framkvæmd samkomulagsins þróuð. Samkomulagið undirrituðu þau Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Karl Björnsson framkvæmdastjóri þess og ráðherrarnir Ólöf Nordal innanríkisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum