Hoppa yfir valmynd
19. maí 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra ávarpaði fund veðurstofa á Norðurskautssvæðinu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gerði þær miklu áskoranir sem loftslagsbreytingar fela í sér að umfjöllunarefni á ráðstefnu Veðurstofunnar, „2nd Arctic Met Summit”, sem haldin var í dag í tengslum við formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu.

Ráðstefnan bar yfirskriftina „Arctic Adaptation and Resilience – Building a Bridge Between Science and Community”. Markmið ráðstefnunnar var að sýna fram á mikilvægi samvinnu milli landa og stofnanna sem vakta og vinna spálíkön fyrir ólík kerfi jarðar; loftslagið, freðhvolfið og vatnakerfið.

Guðmundur Ingi sagði í ávarpi sínu íslensk stjórnvöld hafa undanfarin misseri lagt aukna áherslu á aðlögun að loftslagsbreytingum, þótt brýnast sé að draga úr þeim eins og hægt er. Unnið væri að mótun fyrstu stefnu stjórnvalda um aðlögun vegna loftslagsbreytinga. Eins hafi verið stofnuð skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands sem eigi m.a. að styðja verkefni á sviði aðlögunar og gera sviðsmyndir um áhrif loftslagsbreytinga á náttúru og samfélag.

„Þó hitastig hafi hækkað minna á Íslandi en annars staðar á Norðurslóðum eru áhrif loftslagsbreytinga engu að síður mjög sýnileg,“ sagði Guðmundur Ingi og benti á bráðnun jökla í því sambandi. Sagði hann íslensk stjórnvöld leitast við að fræða um þessi áhrif, til að mynda í Vatnajökulsþjóðgarði þar sem gestir geti séð með eigin augum viðvörunarmerkin sem felist í hopun jökla. „Fyrsta stefna Íslands um aðlögun samfélagsins að loftslagsbreytingum sem nú er unnið að verður leiðarljós við gerð aðlögunaráætlunar og þar mun ný skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofunni þjóna mikilvægu hlutverki við að byggja faglegan grunn fyrir ákvarðanir um aðgerðir og veita aðstoð og þjónustu í því sambandi“, sagði Guðmundur Ingi.

Guðmundur Ingi gerði einnig aurflóðin á Seyðisfirði í lok síðasta árs að umtalsefni. Vísindamenn hafi varað við auknum öfgum í veðurfari samhliða loftslagsbreytingum og aurflóðin hafi verið áminning um það. Nauðsynlegt sé að þekkja þær breytingar sem við eigum í vændum og að geta aðlagast þeim.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum