Orkuöflunarmarkmið stjórnvalda verði lykilbreyta í rammaáætlun
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt í Samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi um breytingu á raforkulögum og lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun.
Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra leggi á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um öflun raforku til næstu tíu ára.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins kemur fram skýr vilji til að auka orkuöflun, styrkja flutningskerfi og bæta orkunýtni þannig að stutt verði við orkuskipti og verðmætasköpun um allt land. Þá hefur ríkisstjórnin sammælst um að vinna að breiðri sátt um lagaumgjörð vindorkunýtingar og að sjá til þess að raforkulögum verði breytt til að tryggja forgang heimila og almennra notenda. Enn fremur hafa stjórnvöld einsett sér að ýta undir orkuskipti í samgöngum og iðnaði, vinna gegn losun frá landi og greiða götu tæknilausna og nýsköpunar á sviði loftslagsmála.
Slíkar aðgerðir kalla á skýra yfirsýn yfir framboð þeirrar raforku sem tiltæk er í raforkukerfinu, eða sem vænta má að verði framleidd, m.a. með hliðsjón af ákvörðunum um röðun virkjunarkosta í verndar- og orkunýtingaráætlunum samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011. Ekki dugi að byggja á orkuspám einum og sér og hlutlægum forsendum um þróun raforkumarkaðar til framtíðar, heldur verði jafnframt að liggja fyrir hvort og að hvaða marki stjórnvöld og Alþingi séu reiðubúin að liðka fyrir öflun aukinnar raforku.
Samkvæmt frumvarpsdrögunum er gert er ráð fyrir að slík tillaga verði fyrst lögð fram árið 2026. Með þessum hætti verður sú regla fest í sessi að ráðherra beri undir Alþingi ákveðin meginsjónarmið og markmið um orkuöflun sem taka mið af stefnumótun stjórnvalda að öðru leyti, s.s. hvað varðar atvinnu- og iðnaðarstefnu, byggðastefnu og loftslagsstefnu. Með þeim hætti verður aðkoma Alþingis að mótun slíkrar áætlunar, eftirfylgni með framkvæmd hennar og þróun tryggð.
Athygli er vakin á því að umsagnarfrestur vegna frumvarpsins í Samráðsgátt stjórnvalda er til 9. maí 2025.
Stefna stjórnvalda um öflun raforku