Hoppa yfir valmynd
28. mars 2011 Innviðaráðuneytið

Ráku 128 flugvélar af 25 megingerðum á 73 árum

Flugfélögin Loftleiðir, Flugfélag Íslands og síðar Flugleiðir hafa á samanlagðri 73 ára sögu sinni rekið samtals 128 flugvélar af 25 megingerðum. Eru það einshreyfils, tveggja og fjögurra hreyfla vélar með bulluhreyflum, skrúfuþotur og þotur. Lengsta sögu á Þristurinn, Douglas DC-3 sem var í þjónustu Flugfélagsins í 28 ár.

Flugafmaeli-a-Akureyri0099a
Flugafmaeli-a-Akureyri0099a

Flugfélögin Loftleiðir, Flugfélag Íslands og síðar Flugleiðir hafa á samanlagðri 73 ára sögu sinni rekið samtals 128 flugvélar af 25 megingerðum. Eru það einshreyfils, tveggja og fjögurra hreyfla vélar með bulluhreyflum, skrúfuþotur og þotur. Lengsta sögu á Þristurinn, Douglas DC-3 sem var í þjónustu Flugfélagsins í 28 ár.

Þessar upplýsingar hefur Leifur Magnússon verkfræðingur tekið saman en hann var í 22 ár einn framkvæmdastjóra hjá Flugleiðum. Leifur stýrði lengst af því sviði sem sá um mat á þróun flugflota félagsins og öryggismál.

Leifur skiptir yfirlitinu í tvo hluta en það nær til flugvéla sem félögin ráku, þ.e. keyptu eða leigðu en ekki eru skráðar vélar félaga sem hafa tengst Flugleiðum og síðar Icelandair, svo sem vélar Bláfugls, Icelease TravelService og SmartLynx.

Hinn fyrri nær yfir árin frá upphafinu og allt til ársins 1973 þegar Flugfélag Íslands og Loftleiðir sameinast í Flugleiðir. Á fyrra tímabilinu ráku félögin alls 69 vélar og 78 á því síðara. Allmargar tegundir voru í rekstri á sama tíma á þessum árum, flestar 9 í senn árin 1946 til 1948, og allt til ársins 1973 voru oftast 5-6 tegundir í rekstri. Á síðari hluta tímabilsins ráku Flugleiðir og Flugfélag Íslands yfirleitt 3-4 grunngerðir flugvéla. Í dag eru þær fjórar, Fokker og Dash 8 hjá Flugfélagi Íslands, og tvær gerðir Boeing flugvéla, B757 og B767 hjá Icelandair.

Mjög er misjafnt hversu ört nýjar gerðir vélar hafa verið teknar í þjónustu félaganna en segja má að það hafi gerst mun hraðar á fyrstu áratugunum. Þannig tóku félögin í þjónustu sína alls 10 nýjar gerðir árin 1942 til 1948 en á síðasta áratug aðeins tvær, Boeing 767 og Dash 8 frá Bombardier. Benda má á að á fyrsta áratug þessarar samantektar voru flugslys nokkuð tíð enda flugvélarnar með frumstæðan búnað og leiðsögutæki á jörðu niðri af skornum skammti. Þannig fórust 15 af þeim 30 vélum sem teknar voru í notkun árin 1938 til 1948.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum