Hoppa yfir valmynd
16. október 2001 Heilbrigðisráðuneytið

Könnun á vímuefnaneyslu framhaldsskólanema - haustið 2000


Dregið hefur úr drykkju og reykingum framhaldsskólanema undanfarin átta ár en neysla ólöglegra vímuefna, einkum hassi, hefur aukist. Þetta eru meginniðurstöður rannsóknarinnar Ungt fólk í framhaldsskólum á Íslandi sem unnin var að tilstuðlan Áfengis- og Vímuvarnaráðs, menntamálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, Rauða kross Íslands, Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur og Rannsóknarnefndar umferðaslysa. Framkvæmd annaðist fyrirtækið Rannsóknir & greining.

Könnunin sem fór fram í október 2000 náði til ungs fólks, 16 – 19 ára, í öllum framhaldsskólum á Íslandi. Í úrtaki voru tæplega 8.900 einstaklingar og svarhlutfall var 71,6%. Sambærileg könnun var gerð árið 1992 og eru niðurstöður þeirrar könnunar notaðar til samanburðar.

Niðurstöður sýna að daglegar reykingar 16 – 19 ára framhaldsskólanema hafa dregist töluvert saman. Árið 1992 reyktu 18% pilta daglega og 24% stúlkna en árið 2000 eru reykingar jafn tíðar meðal kynjanna. eða 19% sem reykja daglega. Þegar skoðaður er samanburður á reykingum framhaldsskólanema í Reykjavík miðað við nemendur á landsbyggðinni kemur í ljós að ekki hefur dregið úr reykingum framhaldsskólanema úti á landi eins og í Reykjavík. Á landsbyggðinni reykja 20% þeirra daglega nú, rétt eins og árið 1992 en í Reykjavík fer hlutfallið úr 23% árið 1992 í 20% árið 2000.

Kannað var hlutfall þeirra sem höfðu orðið ölvaðir einu sinni eða oftar sl. 30 daga, greint eftir aldurshópunum 16, 17, 18 og 19 ára. Hlutfall þeirra sem höfðu orðið ölvaðir á þessu tímabili var lægra í öllum aldurshópunum árið 2000 en viðmiðunarárið 1992. Af 16 ára nemendum höfðu 78% þeirra orðið ölvaðir sl. 30 daga þegar spurt var árið 1992 en hlutfallið var mun lægra árið 2000, eða 55%.

Neysla á ölöglegum vímuefnum að undanskildu sniffi, fer vaxandi og á það einkum við um hassneyslu. Spurt var hverjir hefðu notað hass einu sinni eða oftar um ævina. Árið 1992 höfðu 18% pilta prófað hass a.m.k. einu sinni um ævina en árið 2000 var hlutfall þeirra sem það höfðu gert komið í 25%. Hjá stúlkunum var hlutfallið 11% árið 1992 en 16% árið 2000. Þegar niðurstöður úr þessari spurningu eru skoðaðar eftir búsetu, þ.e. Reykjavík eða landsbyggðin kemur í ljós að hassneysla hefur aukist meira úti á landi en á höfðuborgarsvæðinu, þótt hún sé enn algengari meðal ungs fólks í Reykjavík. Árið 1992 höfðu 18% 16 – 19 ára framhaldsskólanema í Reykjavík prófað hass einu sinni eða oftar en 22% árið 2000. Þetta hlutfall var 11% meðal framhaldsskólanema á landsbyggðinni árið 1992 en var komið í 18% árið 2000.

Í könnuninni sem gerð var í október 2000 var spurt um fjölda þeirra framhaldsskólanemenda á aldrinum 16 - 19 ára sem hafa notað svefntöflur eða róandi lyf og sýna niðurstöðurnar að 10% hópsins hafa gert það einu sinni eða oftar um ævina. Hér vantar hins vegar sambærilegar tölur frá árinu 1992. Þá kemur fram að 3% svarenda hafa einhvern tímann neytt E-töflu og 4% svarenda hafa neytt sveppa.

Niðurstöður könnunarinnar á glærum: Skoða



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum