Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Forsíðufrétt - Nýjar reglur um sjúkraþjálfun vegna deilna við sjúkraþjálfara

TRYGGINGASTOFNUN RÍKISINS
FRÉTTATILKYNNING


Nýjar reglur um sjúkraþjálfun vegna deilna við sjúkraþjálfara

Tryggingaráð hefur sett nýjar reglur um endurgreiðslur vegna sjúkraþjálfunar. Ástæðan er sú að Félag sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara hefur tilkynnt að félagsmennirnir segi sig af samningi við Tryggingastofnun ríkisins frá 1. mars nk.

Greiðsla Tryggingastofnunar fyrir almenna sjúkraþjálfun byggist á samningum við sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara. Þar sem engir samningar verða fyrir hendi frá og með næstu mánaðamótum er tryggingaráð knúið til að bregðast við með nýjum reglum svo sem lög um almannatryggingar segja fyrir um.

Engin breyting verður á endurgreiðslum þeirra sem kaupa sér þjónustu sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara sem kjósa að vera á samningi við Tryggingastofnun ríkisins.

Í nýjum reglum tryggingaráðs er sérstaklega tekið til greiðsluþátttöku í tilvikum þar sem samningar eru ekki fyrir hendi (sjá nánar: Reglur um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga Tryggingastofnunar ríkisins í þjálfun).

Með nýjum reglum leitast tryggingaráð við að gæta hagsmuna þeirra sem ganga má út frá að hafi mesta þörfina, þ.e. langveikra barna og öryrkja, og séu síst í stakk búnir til að mæta auknum útgjöldum vegna einhliða gjaldskrár sjúkraþjálfara. Í samræmi við lög þurfa aðrir sem þarfnast sjúkraþjálfunar vegna afleiðinga langvinnra sjúkdóma eða slysa að sækja um styrk til greiðslu kostnaðar við þjálfunina. Að öðru leyti vísast til 5. gr. II. kafla nýju reglnanna.

Slitnað hefur upp úr viðræðum samninganefnda heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og sjúkraþjálfara. Frá og með 1. mars nk. verða engir samningar í gildi milli þessara aðila. Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar hafa tilkynnt að þeir taki upp eigin gjaldskrá frá sama tíma sem mun leiða til aukinna útgjalda viðskiptavina þeirra.

Þrátt fyrir yfirstandandi deilu við sjúkraþjálfara áréttar Tryggingastofnun vilja sinn til samkomulags og mikilvægis þess að samningur sé í gildi, þannig að viðskiptavinir Tryggingastofnunar og sjúkraþjálfara þurfi ekki að líða fyrir. Samningaviðræður við sjúkraþjálfara nú eru á höndum nýrrar nefndar, samninganefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, sem tók til starfa um síðustu áramót.


Sjá: Reglur um sjúkraþjálfun
Tryggingastofnun ríkisins,
14. febrúar 2002



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum