Hoppa yfir valmynd
8. maí 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Stuðlað að viðhorfsbreytingu til starfa í öldrunarþjónustu og bættri ímynd aldraðra í þjóðfélaginu

maí 2002
Stuðlað að viðhorfsbreytingu til starfa í öldrunarþjónustu
og bættri ímynd aldraðra í þjóðfélaginu

Átakshópur sem undanfarið hefur starfað á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins kynnti í vikunni átak sem hefur það markmið að vekja athygli ungs fólks á atvinnutækifærum í þágu aldraðra, stuðla að viðhorfsbreytingu til starfa í öldrunarþjónustu og að bæta ímynd aldraðra í þjóðfélaginu. Breið samstaða náðist um átakið en þeir sem standa að því eru heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, landlæknisembættið, Reykjavíkurborg, Garðabær, Kópavogur, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Landsamband lífeyrissjóða, Efling-stéttarfélag, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félag stjórnenda í öldrunarþjónustu, Öldrunarráð Íslands, Vísindasjóður, Öldrunarfræðafélags Íslands, Gerðuberg, og félagsstarf eldri borgara.

Í átakshópnum voru eftirtaldir: Anna Birna Jensdóttir, formaður, hjúkrunarforstjóri í Sóltúni, Aðalsteinn Guðmundsson, lækningaforstjóri á Hrafnistu, Birna K. Svavarsdóttir, hjúkrunarforstjóri á Eir, Jóhann Árnason, framkvæmdastjóri í Sunnuhlíð, Kolbrún Oddbergsdóttir, öldrunarfulltrúi í Hafnarfirði, Sigþrúður Ingimundardóttir, hjúkrunarforstjóri á Sólvangi, Vilborg Ingólfsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur hjá landlæknisembættinu, Þóra Karlsdóttir, hjúkrunarforstjóri í Holtsbúð, Garðabæ, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar og Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Öldrunarráðs Íslands.

Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, og Anna Birna Jensdóttir, formaður átakshópsins kynntu áform hans á fundi með blaðamönnum, nefndarmönnum og forystumönnum sveitarfélaganna sem standa að átakinu í Gerðubergi í vikunni. Í ávarpi sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra flutti af þessu tilefni kom m.a. fram að eldri borgarar eru nú um 32.000 og um 3.000 þeirra þurfa sérstaka umönnun. Flestir aldraðir, eða um 60% þeirra búa á höfuðborgarsvæðinu en um 10% þeirra búa á Norðurlandi eystra. ,,Það er sérstakt verkefni stjórnvalda að koma til móts við aukna þörf eldri borgara fyrir hvers konar þjónustu, tryggja hana í sessi og búa í haginn fyrir vaxandi eftirspurn á komandi árum" sagði ráðherra m.a. í ávarpi sínu.



Nánar um verkefnið (Pdf-skjal)




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum