Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Framtíðaruppbygging Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
04.11.2002


Framtíðaruppbygging Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að skipa nefnd um framtíðaruppbyggingu, þróun og skipulag Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA). Í nefndinni eru þau Elsa B. Friðfinnsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, formaður, Halldór Jónsson, forstjóri FSA, varaformaður, Bjarni Hjarðar, formaður stjórnar FSA, Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytinu, Þórarinn J. Sigurðsson, deildarforseti, af hálfu Háskólans á Akureyri, Guðmundur Ómar Guðmundsson, af hálfu bæjarráðs Akureyrarbæjar, og Þorvaldur Ingvarsson, lækningaforstjóri FSA.

Nefndin hefur það verkefni að;
· ljúka frumathugun og greinargerð um frumathugun, sbr. reglugerð nr. 715/2001 og "Verklagsreglur" útgefnar af fjármálaráðuneyti þann 27.05.2002. Þegar frumathugun er fullgerð skal leggja hana fyrir ráðuneytið sem taka mun afstöðu til hennar. Þessu verkefni skal lokið fyrir árslok 2002.

· vinna að nauðsynlegum samningum um lóðir og nýtingu þeirra. Nauðsynlegt er að deiliskipulag fyrir svæðið liggi fyrir og skal nefndin sinna því verkefni með Akureyrarbæ eftir þörfum. Stefnt skal að því að þessu verkefni ljúki í maí 2003.
· áætlun um forgangsröðun framkvæmda, verkefna og bygginga og kynna þá forgangsröðun fyrir ráðherra á vormánuðum 2003.

· vinna að tíma- og fjárhagsáætlunum fyrir fyrirhugaðar framkvæmdir, sem taki til heildarsvæðisins. Þessar áætlanir liggi fyrir í maí 2003.

· skoða þær fjármögnunarleiðir sem til greina koma við uppbyggingu svæðisins, m.a. samstarf við einkaaðila. Útfærðum tillögum um þetta efni verði skilað til ráðherra fyrir maílok 2003.

Í skipunarbréfi heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytisins segir: "Ráðuneytið mun með venjubundnum hætti á grundvelli frumathugunarinnar láta fara fram áætlunargerð fyrir áfanga framkvæmdarinnar í samræmi við forgangsröðun verkefna, tíma- og fjárhagsáætlanir. Getur ráðuneytið með sérstöku erindisbréfi falið nefndinni að sjá um áætlunargerð fyrir einstaka áfanga framkvæmdarinnar.

Þess skal gætt að við undirbúninginn verði ekki farið út fyrir heimildir fjárlaga. Fjármálaráðuneytið fer með fjármálalega yfirstjórn opinberra framkvæmda og ber nefndinni að hafa samráð við fjármálaráðuneytið við frumathugun og áætlanagerð (sbr. 17 gr. laga um skipan opinberra framkvæmda nr. 84/2001).

Framkvæmdasýsla ríkisins mun veita nefndinni faglega ráðgjöf og er forstjóri hennar tengiliður við nefndina og skal hann að jafnaði sitja fundi hennar.

Reiknað er með að starfslið FSA aðstoði nefndina eftir þörfum. Einnig getur nefndin ráðið starfsmann sér til aðstoðar eftir því sem fjárveitingar leyfa og í samráði við ráðuneytið. Nefndin getur skipað undirhópa til að sinna skilgreindum hluta ofangreindra verkefna.

Nefndin skal gæta þess við störf sín að undirbúningur verði í samræmi við lög um skipan opinberra framkvæmda nr. 84/2001, reglugerð um skipulag opinberra framkvæmda nr. 715/2001 og verklagsreglur sem settar hafa verið á grundvelli þeirra og áður er getið."



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum