Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Samstarfssamningur LSH og FSA um aukið samstarf

Stóraukið samstarf Landspítala - háskólasjúkrahúss og
Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri



Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA) og Landspítali - háskólasjúkrahús (LSH) hafa gert með sér samstarfssamning sem miðar að því að styrkja uppbyggingu beggja spítala í heilbrigðisþjónustu, kennslu og rannsóknum. Nú þegar hafa spítalarnir með sér samstarf á mörgum sviðum en víðtækur samningur, sem Halldór Jónsson, forstjóri FSA og Magnús Pétursson, forstjóri LSH, undirrituðu á Akureyri í dag, miðar að því að auka það verulega.

Í gildi eru samstarfssamningar FSA og LSH um eftirtalda þætti: Þjónustu krabbameinslæknis, þjónustu heila- og taugaskurðlæknis, þjónustu HNE læknis, ráðgjöf vegna sýklarannsókna, þjónustu meinafræðings, þjálfun hjúkrunarfræðinga á sérdeildum svo sem á nýburagjörgæslu, gjörgæslu- og slysadeild, þjálfun nema í ljósmóðurfræði, ráðgjöf hjúkrunarfræðinga vegna kviðskilunar og úrlestur heilalínurita.

Sjúkrahúsin áforma að gera nýja samstarfssamninga í lækningum á eftirtöldum sviðum: Þvagfæraskurðlækningum, slysa- og bráðalækningum, kvensjúkdómalækningum, skurðlækningum, bæklunarskurðlækningum, augnlækningum, meltingarfæralækningum, hjartalækningum og barnalækningum.

Sjúkrahúsin vilja stuðla að því að stytta biðlista. Liður í því eru áform um að hafa upplýsingar á vefsíðum beggja sjúkrahúsa þar sem fram komi hversu margir bíða ákveðinnar meðferðar. Með þeim hætti geti upplýsingar um biðlista verið öllum aðgengilegar og sjúklingar leitað eftir þjónustu þar sem bið er styttri.

Samningurinn kveður á um aukið samstarf spítalanna um kennslu í heilbrigðisvísindum, með það m.a. að markmiði að styðja við menntun á þessu sviði utan Reykjavíkur. Meðal annars verði lagt til við læknadeild Háskóla Íslands að læknanemum gefist kostur á að stunda hluta námsins á FSA.
Stefnt er að því að setja upp sambærilegan fjarfundabúnað á LSH og notaður hefur verið með góðum árangri á FSA til miðlunar fræðslu- og kynningarefnis, jafnframt því sem kerfin verði samtengt þannig að unnt verði að miðla fræðslu og kennslu á milli sjúkrahúsanna og til annarra stofnana.

Sjúkrahúsin munu hafa með sér samstarf um upplýsingatækni, m.a. þróun rafrænnar sjúkraskrár. Verið er að gangsetja sameiginlegan hugbúnað fyrir rannsóknardeildir spítalanna og verður áfram lögð áhersla á samvinnu um val á upplýsingakerfum og innkaup þar sem það reynist hagkvæmt.

Samstarf sjúkrahúsanna tekur einnig til möguleika á starfsmannaskiptum, þannig að starfsfólk geti farið til náms- og starfsdvalar milli sjúkrahúsanna. Hluti af þessu samstarfi er klínísk starfsþjálfun hjúkrunarfræðinga og einnig verður kannað hvort æskilegt sé að auglýsa stöður aðstoðarlækna sameiginlega og hafa samstarf um ráðningu þeirra og kennslu.

Fréttatilkynning frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og Landspítala - háskólasjúkrahúsi
25. nóvember 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum