Hoppa yfir valmynd
8. júlí 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 251/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 251/2021

Fimmtudaginn 8. júlí 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. maí 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. maí 2021, um að synja beiðni hennar um greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir septembermánuð 2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 7. ágúst 2020. Með ákvörðun, dags. 4. september 2020, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og bótaréttur metinn 100%. Kærandi hóf nýtt starf 1. október 2020 og var því skráð af atvinnuleysisbótum frá og með þeim degi. Í mars 2021 hafði kærandi samband við Vinnumálastofnun og óskaði eftir greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir septembermánuð þar sem hún hafði gleymt að staðfesta atvinnuleit sína í þeim mánuði. Með ákvörðun, dags. 7. maí 2021, var þeirri beiðni kæranda synjað með vísan til 6. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Í kjölfar kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála fór Vinnumálastofnun yfir gögn í máli kæranda og komst að þeirri niðurstöðu að ranglega hafi verið staðið að ákvörðun stofnunarinnar frá 7. maí 2021. Sú ákvörðun var því felld úr gildi og samþykkt að greiða kæranda atvinnuleysisbætur fyrir september 2020, að frátöldu tímabilinu 1. til 17. september vegna ótekins orlofs hjá fyrrum vinnuveitanda. 

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. maí 2021. Með bréfi, dags. 27. maí 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 3. júní 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. júní 2021, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að henni hafi verið sagt upp þann 1. júní 2020 og hafi hún haft þriggja mánaða uppsagnarfrest sem hafi runnið út 1. september 2020. Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun frá 1. september 2020 en þar sem þetta hafi verið í fyrsta skipti sem kærandi hafi sótt um slíkar bætur hafi hún ekki vitað nákvæmlega hvernig ferlið væri og hafi því ekki staðfest atvinnuleit sína á tímabilinu 20.-25. september. Kærandi hafi áttað sig á að eitthvað hafi ekki verið eins og það ætti að vera þegar hún hafi ekki fengið greiðslu atvinnuleysisbóta þann 1. október, en þá hafi hún lesið á vefsíðu Vinnumálastofnunar að hún gæti staðfest atvinnuleit sína síðar og fengið greitt síðar. Það hafi hún reynt en það hafi ekki gengið. Þegar kærandi hafi hringt í þjónustuver Vinnumálastofnunar hafi henni verið sagt að hún hafi ekki uppfyllt bótaskilyrði þar sem hún hafi fengið greiðslu frá fyrrum vinnuveitanda 1. október 2020. Kærandi hafi því ekki haldið áfram með málið á þeim tíma og hafi hafið störf á nýjum stað þann 1. október 2020. Kærandi hafi svo komist að því í mars 2021 að hún hafi átt rétt á atvinnuleysisbótum í september 2020 þar sem þau laun sem hún hafi fengið frá fyrrum vinnuveitanda sínum 1. október 2020 hafi verið laun fyrir síðustu daga hennar í fyrrum starfi fyrir tímabilið 21.-31. ágúst 2020, en launatímabil hjá fyrrum vinnuveitanda hafi verið frá 20.-20. hvers mánaðar og hafi útborgunardagur verið fyrsti hvers mánaðar. Það sé ástæða þess að kærandi hafi fengið laun frá fyrrum vinnuveitanda í október. Þegar kærandi hafi áttað sig á þessum misskilningi hafi hún haft samband við Vinnumálastofnun í mars 2021 og sent stofnuninni síðustu tvo launaseðla sína, staðfestingu á starfslokum hennar hjá fyrrum vinnuveitanda í lok ágúst 2020 og skriflega skýringu. Kærandi hafi óskað eftir því að mál hennar yrði tekið til endurskoðunar en hafi samt ranglega fengið synjun. Kærandi óski eftir því að farið verði yfir mál hennar að nýju með tilliti til allra gagna og að ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli hennar verði snúið við.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga þann 7. ágúst 2020. Umsókn hennar hafi verið samþykkt þann 4. september 2020 og hafi útreiknaður bótaréttur kæranda verið 100%. Kærandi hafi hafið störf á ný þann 1. október 2020.

Þann 2. mars 2021 hafi Vinnumálastofnun borist tölvupóstur frá kæranda. Kærandi hafi þar skýrt frá því að hún hafi ekki staðfest atvinnuleit sína á vefsvæði Vinnumálastofnunar innan tilskilins tíma síðasta mánuðinn sem hún hafi verið á skrá hjá Vinnumálastofnun, þ.e. á milli 20. til 25. september 2020. Kærandi hafi áttað sig á þessu þegar hún hafi ekki fengið greiddar atvinnuleysistryggingar þann 1. október 2020. Kærandi hafi greint frá því að hún hafi haft samband við ráðgjafa stofnunarinnar til þess að staðfesta atvinnuleit sína fyrir septembermánuð.  Ráðgjafi stofnunarinnar hafi skýrt kæranda frá því að hún hafi ekki getað átt rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga fyrir septembermánuð þar sem hún hafi fengið launagreiðslur frá fyrrum vinnuveitanda sínum í september 2020. Í erindi sínu hafi kærandi skýrt frá því að þær tekjur sem hún hafi haft í septembermánuði 2020 hafi verið launatekjur frá mánuðinum áður, og hafi því ekki átt að koma í veg fyrir að hún fengi greiddar atvinnuleysistryggingar frá Vinnumálastofnun í september 2020. Með erindi sínu hafi kærandi greint frá því að hún hygðist sækja um greiðslu atvinnuleysistrygginga að nýju og hafi óskað eftir því að tekið yrði tillit til þessa og henni greiddar atvinnuleysisbætur fyrir september 2020.

Kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga að nýju með umsókn, dags. 17. mars 2021. Með erindi, dags. 29. apríl 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar um greiðslu atvinnuleysistrygginga hafi verið samþykkt og hafi bótaréttur hennar verið metinn 100%.

Með erindi, dags. 7. maí 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að beiðni hennar um að fá greiddar atvinnuleysisbætur fyrir septembermánuð 2020, þrátt fyrir að hún hafi ekki staðfest atvinnuleit sína, væri synjað. Kæranda hafi verið greint frá því að ekki yrði séð að mistök Vinnumálastofnunar eða óviðráðanleg atvik hafi komið í veg fyrir að hún hafi staðfest atvinnuleit sína á tilskildum tíma. Sú ákvörðun hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 20. maí 2021. Í kjölfar kæru hafi Vinnumálastofnun farið yfir gögn í máli kæranda að nýju. Að mati stofnunarinnar hafi ranglega verið staðið að þeirri ákvörðun. Vinnumálastofnun hafi fallist á það með kæranda að mistök stofnunarinnar hafi komið í veg fyrir að hún staðfesti atvinnuleit sína á tilskildum tíma. Hin kærða ákvörðun hafi því verið felld úr gildi og ný ákvörðun hafi verið tekin í máli kæranda þann 31. maí 2021. Atvinnuleit kæranda hafi í kjölfarið verið staðfest afturvirkt fyrir septembermánuð 2020.

Meðal gagna í máli þessu sé staðfest starfstímabil og launaseðill fyrir septembermánuð 2020 frá fyrrum vinnuveitanda kæranda. Samkvæmt staðfestu starfstímabili hafi kærandi lokið störfum þann 31. ágúst 2020. Af umræddum launaseðli hafi mátt ráða að kærandi hafi fengið 13 orlofsdaga greidda út við starfslok. Kærandi hafi af þeim sökum verið skráð í orlof dagana 1. september til 17. september 2020. Þar sem atvinnuleitandi teljist ekki tryggður þann tíma sem nemi ónýttum orlofsdögum hafi kærandi ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir umrætt tímabil. Kærandi hafi hafið störf á ný þann 1. október 2020. Vegna septembermánaðar 2020 hafi kærandi því aðeins fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 18. september til 30. september 2020.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um hvað felist í virkri atvinnuleit sem sé eitt almennra skilyrða þess að njóta greiðslna atvinnuleysistrygginga. Í g-lið ákvæðisins segi að eitt af skilyrðum þess að atvinnuleitandi geti talist í virkri atvinnuleit sé að hann eigi ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann teljist vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við. Þá segi í 4. mgr. 51. gr. laga nr. 54/2006 að hver sá sem hafi fengið greitt út ótekið orlof við starfslok eða fái greiðslur vegna starfsloka teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum á því tímabili sem þær greiðslur eigi við um. Við umsókn um atvinnuleysisbætur skuli hinn tryggði taka fram hvenær hann ætli að taka út orlof sitt fyrir lok næsta orlofstímabils.

Skýrt sé af framangreindum lagaákvæðum að kærandi teljist ekki tryggð þann tíma sem hún hafi átt ónýtta orlofsdaga hjá fyrrum vinnuveitanda. Ljóst sé af launaseðli fyrir septembermánuð 2020 frá fyrrum vinnuveitanda kæranda að kærandi hafi átt 13 ótekna orlofsdaga sem hún hafi fengið greidda út við starfslok. Kærandi hafi af þeim sökum verið skráð í orlof dagana 1. september til 17. september 2020. Kærandi sé samkvæmt framangreindu ekki tryggð á grundvelli laganna þann tíma.

Með vísan til alls framangreinds telji Vinnumálastofnun að ranglega hafi verið staðið að þeirri ákvörðun er tekin hafi verið þann 7. maí 2021 og að rétt sé að staðfesta atvinnuleit kæranda fyrir septembermánuð 2020. Aftur á móti eigi kærandi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga á tímabilinu 1. september til 17. september 2020, með vísan til ótekins orlofs hennar.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að greiða kæranda ekki atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. til 17. september 2020 vegna ótekins orlofs hjá fyrrum vinnuveitanda.

Í 51. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um greiðslur sem eru ósamrýmanlegar greiðslum atvinnuleysisbóta. Í 4. mgr. 51. gr. kemur fram að hver sá sem fengið hefur greitt út orlof við starfslok eða fær greiðslur vegna starfsloka telst ekki tryggður samkvæmt lögunum á því tímabili sem þær greiðslur eiga við um.

Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi til laga nr. 54/2006 segir svo:

„Lagt er til að atvinnuleitandi teljist ekki tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins þann tíma er nemur þeim orlofsdögum sem hann hafði ekki nýtt sér þegar hann hætti störfum hjá fyrri vinnuveitanda og hann því fengið greidda út við starfslokin. Þó er gert ráð fyrir að umsækjandi geti tilgreint á umsókn um atvinnuleysisbætur hvenær hann ætli að taka út orlof sitt á orlofstímanum og er miðað við að hann hafi tekið út orlofið fyrir lok næsta orlofstímabils eða 15. september ár hvert, sbr. lög nr. 30/1987, um orlof. Kemur orlofsgreiðslan þá til frádráttar fyrir þann tíma sem hinn tryggði ætlaði í orlof samkvæmt umsókninni en ekki þegar í upphafi tímabilsins.“

Samkvæmt gögnum málsins voru starfslok kæranda 31. ágúst 2020 og átti hún þá 13 ótekna orlofsdaga sem voru greiddir út við starfslok. Kærandi var því skráð í orlof 1. til 17. september 2020. Ljóst er að kærandi á ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrir það tímabil sem orlofsgreiðslurnar áttu við um, enda eru þær greiðslur ósamrýmanlegar atvinnuleysisbótum. Að því virtu er ákvörðun Vinnumálastofnunar um greiðslu atvinnuleysisbóta til handa kæranda fyrir september 2020 staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um greiðslu atvinnuleysisbóta til handa A, fyrir september 2020 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum