Hoppa yfir valmynd
18. mars 2014 Forsætisráðuneytið

Skipaður verði starfshópur til að endurskoða lögræðislög

Óformlegur samráðshópur innanríkisráðuneytisins sem fjallað hefur að undanförnu um mögulegar breytingar á lögræðislögum að því er varðar framkvæmd nauðungarvistana hefur skilað innanríkisráðherra umræðuskjali eftir að hafa gaumgæft hvernig mannréttindasjónarmið yrðu sem best tryggð hvað varðar réttindi og framkvæmd laganna. Leggur hópurinn til að skipaður verði formlegur starfshópur til að endurskoða lögin og verklag við framkvæmd þeirra og að hann skili af sér drögum að lagafrumvarpi ásamt tillögum að breytingum á framkvæmd fyrir 1. júní á næsta ári.

Óformlegur samráðshópur um nauðungarvistanir hefur skilað innanríkisráðherra umræðuskjali.
Óformlegur samráðshópur um nauðungarvistanir hefur skilað innanríkisráðherra umræðuskjali.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra tók við skjalinu á fundi með hópnum nýverið og sagði hún um leið og hún þakkaði fulltrúum í hópnum fyrir mikilvægt og faglegt framlag þeirra að hún myndi strax hefja undirbúning að skipan formlegs starfshóps til að endurskoða lögræðislögin.

Ánægja með verklag

Fram kom á fundinum ánægja fulltrúa í samráðshópnum um það verklag að eiga slíkt óformlegt samráð. Þar hefði verið leitast við að fá fram sem flest sjónarmið með því að kalla til sérfræðinga, embættismenn og fulltrúa samtaka sem sinna málefnum geðsjúkra, allt einstaklingar með margháttaða þekkingu og reynslu af málaflokknum. Þannig hefði orðið til umræðuskjal og grundvöllur frekari tillagna til að vinna úr í formlegum starfshópi.

Óformlegur samráðshópur um nauðungarvistanir hefur skilað innanríkisráðherra umræðuskjali.

Samráðshópurinn hélt alls sex fundi og fleiri aðilar sem koma að þessum málum voru kallaðir til, meðal annars aðstandendur, notendur og læknar. Þá hefur ráðuneytið staðið fyrir fámennari fundum á tímabilinu með þeim sem koma að framkvæmd laganna til að fara yfir einstaka ferla og verklag.

Í umræðuskjali hópsins eru teknar saman helstu afurðir fundanna og ýmsar gagnlegar ábendingar um það sem betur má fara bæði í löggjöfinni sjálfri, reglum settum á þeim grundvelli, verklagi og framkvæmd laganna. Meðal umræðuefna var aðkoma fjölskyldu, félagsmálayfirvalda og lögreglu, að einstaklingar fái heimild til að tilnefna aðila sem lagt getur fram beiðni um nauðungarvistun, aðkoma ráðgjafa, möguleg framlenging nauðungarvistunar, vettvangsteymi sérfræðinga, áfallahjálp, meðferð á sjúkrahúsi og fleira.

Fagfólk og aðstandendur í samráðshópnum

Forsaga málsins er sú að innanríkisráðuneytið stóð árið 2012 fyrir fundaröð um mannréttindamál í tengslum við mótun landsáætlunar í mannréttindum. Fjallað var um mannréttindi geðsjúkra á einum fundinum þar sem fram komu sjónarmið notenda, aðstandenda og fagfólks sem vörpuðu ljósi á nauðsyn þess að hefja skoðun á lögræðislögunum og framkvæmd þeirra. Ákvað ráðuneytið í kjölfar fundarins að boða þá sem komu að honum til að ræða þau álitefni sem fram komu og hefur Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri mannréttinda og sveitarfélaga, stýrt verkefninu ásamt Svanhildi Þorbjörnsdóttur lögfræðingi.

Auk þeirra komu eftirfarandi aðilar að samráðshópnum: Héðinn Unnsteinsson, forsætisráðuneyti, (fyrrverandi sérfræðingur hjá geðheilbrigðissviði WHO-EURO), Sveinn Magnússon, velferðarráðuneyti, Guðlín Steinsdóttir, velferðarráðuneyti, Kristín Ösp Jónsdóttir, velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Jóna Rut Guðmundsdóttir, velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Helga Jóna Benediktsdóttir, velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Páll Matthíasson, Landspítala, Björn Hjálmarsson, læknir, Bergþór Grétar Böðvarsson, fulltrúi notenda, gæðaráð geðsviðs Landspítalans, Kristinn Tómasson, formaður Geðlæknafélags Íslands, Sigurður P. Pálsson, geðlæknir, Lúðvík Ólafsson, læknir, Sveinn Rúnar Hauksson, læknir, Stefán Jóhannsson, ráðgjafi nauðungarvistaðra manna, Auður Axelsdóttir, forstöðumaður Geðheilsu-eftirfylgd, Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, Eva Bjarnadóttir, fyrrverandi  framkvæmdastjóri Geðhjálpar, Hrannar Jónsson, formaður stjórnar Geðhjálpar, og Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri. Ráðuneytið leitaði einnig til Engilberts Sigurðssonar, geðlæknis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum