Hoppa yfir valmynd
2. mars 2022 Utanríkisráðuneytið

Sameinuðu þjóðirnar kalla eftir 220 milljörðum króna vegna Úkraínu

Ljósmynd: UNICEF - mynd

Sameinuðu þjóðirnar og ýmsar hjálparstofnanir hafa í sameiningu farið fram á 1,7 milljarða Bandaríkjadala fjárveitingar í þágu Úkraínu, um 220 milljarða íslenskra króna. Framlögin fara til nauðstaddra í Úkraínu og flóttamanna í nágrannalöndum. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna óttast mesta flóttamannastraum aldarinnar í Evrópu frá Úkraínu.

Sameinuðu þjóðirnar telja að tólf milljónir manna þurfi á skjóli og vernd að halda innan Úkraínu. Þá kunni að þurfa að aðstoða allt að fjórar miljónir flóttamanna í nágrannaríkjunum. Samkvæmt frétt UNRIC – Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna – hafa birgðaflutningar og grunnþjónusta raskast í Úkraínu.

„Fjölskyldur með ung börn haldast við neðanjarðar í kjöllurum eða jarðlestastöðum,“ segir Martin Griffiths yfirmaður mannúðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna. „Fólk hleypur skelfingu lostið til að bjarga lífi sínu á meðan sírenur væla og ærandi sprengingar heyrast. Þetta er dimmasta stund úkraínsku þjóðarinnar. Við verðum að svara með samúð og samstöðu.“

Fyrsta stig ætlunar hjálparstarfs felur í sér að afla 1,1 milljarðs Bandaríkjadala til að styðja við milljónir manna í Úkraínu í þrjá mánuði, til að byrja með. Gert er ráð fyrir fjárstuðningi til þeirra sem minnst mega sín sem felst meðal annars í því að útvega mat, vatn og hreinlætisaðastöðu. Þá verður stutt við bakið á fólki til að tryggja heilsugæslu og kennslu. Þá verða byggð skýli í stað eyðilagðra bygginga. Yfirvöldum verður jafnframt veitt aðstoð við að koma á fót miðstöðvum til að greiða götu fólks sem flosnað hefur upp og til að hindra kynferðislegt ofbeldi.

„Við stöndum frammi fyrir því sem gæti orðið mesti flóttamannastraumur í Evrópu á þessari öld. Aðstoð fólks í nágrannaríkjunum er þung á metunum en meira þarf til að hjálpa og vernda þá sem eru nýkomnir,“ segir Filippo Grandi forstjóri Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur bent á að átökin í Úkraínu gætu haft keðjuverkun i för með sér. „Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, WFP, kaupir meira en helming hveitis síns í Úkraínu. Ef uppskeran raskast gæti það valdið verðhækkun og aukið hungur í heiminum.“

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum