Hoppa yfir valmynd
31. júlí 2012 Utanríkisráðuneytið

Rússland verður aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni 22. ágúst 2012

Rússnesk stjórnvöld tilkynntu Alþjóðaviðskiptastofnuninni (e. World Trade Organization - WTO) hinn 23. júlí sl. um fullgildingu samnings Rússlands um aðild þess að stofnuninni. Rússland mun því verða 156. aðildarríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hinn 22. ágúst nk. þegar aðildin tekur formlega gildi.

Aðildarríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar höfðu áður samþykkt aðild Rússlands á ráðherrafundi stofnunarinnar í desember sl. Samningaviðræðurnar tóku 18 ár en það var Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra og aðalsamningamaður Íslands í aðildarviðræðum við ESB sem stýrði viðræðunum síðustu átta árin.

Árið 2011 var Rússland níunda stærsta útflutningsríki heims, en þaðan voru fluttar út vörur fyrir 522 milljarða Bandaríkjadollara og þjónusta fyrir 54 milljarða dollara. Rússland flutti aftur á móti inn vörur í fyrra fyrir 323 milljarða dollara og þjónustu fyrir 90 milljarða dollara.

Aðild Rússlands að WTO hefur margvísleg jákvæð áhrif á vöruviðskipti Íslands og Rússlands, sem hægt verður að byggja frekar ofan á í yfirstandandi fríverslunarviðræðum EFTA-ríkjanna og Rússlands. Svo dæmi séu tekin þá lækka tollar á ýmsar sjávarafurðir um 70%. Tollur á heilfrystum makríl lækkar úr 10% í 3%, tollur á heilfrystum karfa úr 10% í 6% og tollar á heilfrystri síld, frystum síldarflökum og samflökum úr 10% í 3%. Þetta eru mikilvægustu útflutningsvörur Íslands til Rússlands í dag. Tollar á aðrar sjávarafurðir munu í flestum tilfellum verða á bilinu 3-8%. Rússar fá tvö til fjögur ár til að framkvæma þessar tollalækkanir. Hvað iðnaðarvörur varðar þá lækkar t.d. tollur á tækjabúnaði til matvælaframleiðslu úr 10% í 5-7% og í einhverjum tilvikum í 3%, á tveggja til þriggja ára aðlögunartímabili. Tollur á fiskikerum lækkar úr 20% í 6,5%. Ennfremur mun Rússland skuldbinda sig til þess að lækka tolla á lyfjum, sem nú eru almennt á bilinu 10-15%, niður í 3-6,5%, en fær tveggja til fjögurra ára aðlögunartímabil til að framkvæma þá lækkun. Tollar á öðrum iðnaðarvörum lækka einnig verulega.

Alþjóðaviðskiptastofnunin var stofnsett eftir Úrúgvæviðræðurnar árið 1995, á grundvelli GATT-samningsins um tolla og viðskipti frá 1947. Markmið stofnunarinnar er að afnema viðskiptahindranir, auka fríverslun og leysa úr viðskiptadeilum milli ríkja. Stofnunin rekur mikilvæga samninga um milliríkjaviðskipti, þ.m.t. GATT-samninginn, GATS-samninginn um þjónustuviðskipti og TRIPS-samninginn um hugverkarétt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum