Hoppa yfir valmynd
29. september 2017 Innviðaráðuneytið

Nefnd geri tillögur um jarðgangatengingu við Seyðisfjörð

Jón Giunnarsson flytur ávarp á aðalfundi SSA á Breiðdalsvík. - mynd

Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra tók í dag þátt í aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi sem haldinn er á Breiðdalsvík. Ráðherra hafði um morguninn flogið ásamt vegamálastjóra og forsætisráðherra yfir þau svæði á Suðausturlandi þar sem víða hefur orðið tjón á samgöngumannvirkjum og flætt yfir tún bæja vegna vatnavaxta og úrkomu. Er nú unnið að viðgerðum á Hringveginum þar sem vegasamband rofnaði.

Auk venjulegra aðalfundarstarfa fór fram umræða um annars vegar fjármálaáætlun til fimm ára og hins vegar um hver væri grunnþjónusta á landsbyggðinni. Inngang að umræðunum fluttu Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðerra og Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar. Einnig fór fram umræður á milli sveitarstjórnarmanna og þingmanna svæðisins og fleira.

Heilsársvegur um Öxi forgangsmál

Jón Gunnarsson nefndi í ávarpi sínu fjölmargt sem unnið hefði verið að í ráðuneytinu á liðnum mánuðum og staldraði einkum við samgöngumál. Fram kom að uppbyggður heilsársvegur um Öxi væri að hans mati forgangsmál. Ráðherra tilkynnti þá ákvörðun að skilgreining og merking Hringvegarins, þjóðvegar 1, yrði framvegis um firðina í stað þess að liggja um Breiðdalsheiði eins og nú er. Farið væri þar að ráðum Vegagerðarinnar sem hefði metið þessa breytingu út frá ýmsum hliðum.

Þá kynnti ráðherra skipan starfshóps sem fara á yfir möguleika á jarðgangagerð til að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar. Yrði hópnum falið að meta möguleika á annars vegar jarðgöngum milli Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs eða hins vegar jarðgangatenginingu Seyðisfjarðar, Mjóafjarðar og Norðfjarðar með göngum milli Fagradals og Mjóafjarðar. Sagði ráðherra það skoðun sína að þessi framkvæmd væri næst í röðinni þegar Dýrafjarðargöngum lyki.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fjallaði einnig um niðurstöðu starfshóps sem hann skipaði snemma á árinu til að fjalla um mögulegt átak í að flýta framkvæmdum við stofnleiðirnar þrjár út frá höfuðborgarsvæðinu sem væru orðnar brýnar. Sagði hann heildarfjárfestingu þess verkefnis vera um 56 milljarða króna og framkvæmdatími um 8 ár. Hann sagði að ekki yrði ráðist í þessar umfangsmiklu framkvæmdir nema með sérstakri fjármögnun, til dæmis með veggjaldi. Þessi leið myndi verða til þess að fjárframlag ríkissjóðs til vegamála nýttist í framkvæmdir annars staðar og því myndi ekki draga úr þeim.

Ráðherra ræddi einnig um tillögur starfshóps um stöðu og framtíð sveitarfélaga og sagði þar meðal annars koma fram tillögur um að taka upp lágmarks íbúafjölda sveitarfélaga. 

  • Frá aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi sem nú stendur. - mynd
  • Frá aðalfundi SSA sem nú stendur á Breiðdalsvík. - mynd
  • Frá aðalfundi SSA. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum