Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2010 Innviðaráðuneytið

Málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga með 10,7 milljörðum króna

Sveitarfélög munu um næstu áramót taka við ábyrgð og þjónustu við fatlaða þegar verkefnið verður flutt frá ríkinu. Samkomulag þessa efnis var undirritað í forsætisráðuneytinu í gær með fulltrúum ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Samið um flutning málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.
Samið um flutning málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kynnti samninginn með nokkrum orðum svo og þeir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, og Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Einnig lögðu þeir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Karl Björnsson framkvæmdastjóri þess orð í belg.

Samið um flutning málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

Allir lögðu ráðherrarnir áherslu á mikilvægi flutnings málaflokksins til sveitarfélaga og sagði Kristján L. Möller það í rökréttu samhengi við átak um eflingu og stækkun sveitarfélaga sem ráðuneyti hans ynni nú að í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Fréttatilkynning ráðuneytanna fer hér á eftir:

Tekist hefur samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um fjárhagslegar forsendur fyrir flutningi málefna fatlaðra til sveitarfélaganna 1. janúar 2011. Þetta er viðamesta endurskipulagning á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá flutningi grunnskólanna árið 1996. Tekjustofnar sem nema 10,7 milljörðum króna flytjast til sveitarfélaganna á næsta ári samhliða yfirfærslu málaflokksins.

Flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga varðar um 2.500 einstaklinga sem þurfa þjónustu vegna fötlunar sinnar og um 1.500 starfsmenn í rúmlega 1.000 stöðugildum sem annast þjónustuna. Eftir yfirfærsluna ber eitt stjórnsýslustig ábyrgð á stærstum hluta almennrar félagsþjónustu. Þjónustan færist nær notandanum, möguleikar á samhæfingu þjónustusviða og aðlögun þjónustunnar að persónulegum aðstæðum notandans aukast til mikilla muna.

Samkomulagið var undirritað í dag. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, og Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, undirrituðu samkomulagið fyrir hönd ríkisins en Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri sambandsins fyrir hönd sveitarfélaganna.

 

Samið um flutning málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

10,7 milljarðar króna í aukna tekjustofna sveitarfélaga árið 2011

Árið 2011 verða tekjur sveitarfélaga til að fjármagna þjónustu við fatlaða 10,7 milljarðar króna. Útsvarshlutfall sveitarfélaga verður hækkað um 1,2% gegn samsvarandi lækkun á tekjuskattshlutfalli ríkisins. Framlög verða á fjárlögum næstu þrjú árin til að vega upp á móti veikri stöðu útsvarsstofnsins. Auk þess verða framlög á fjárlögum vegna samstarfsverkefnis um nýja þjónustu, notendastýrða persónulega aðstoð og vegna biðlista eftir þjónustu.

Sameiginlegt mat á faglegum og fjárhagslegum árangri yfirfærslunnar fer fram árið 2014. Samhliða endurmatinu er stefnt að því að útsvarshlutfall vegna þjónustu við fatlaða verði endurskoðað og að framlög á fjárlögum falli niður, þannig að þjónustan verði alfarið fjármögnuð með útsvari.

Með samkomulaginu er lagður grunnur að því að færa ábyrgð á fjármögnun þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga og tryggja sveitarfélögum sanngjarnan fjárhagsramma sem tekur tillit til umfangs verkefna. Jafnframt er tekið mið af brýnni þörf fyrir aðhald í opinberum rekstri og sameiginlegum áformum ríkis og sveitarfélaga um að bæta afkomu hins opinbera og skapa þannig forsendur fyrir lækkun skulda.

Nú fer í hönd vinna við undirbúning nauðsynlegra lagabreytinga vegna yfirfærslunnar og gerð heildarsamnings við sveitarfélögin. Gert er ráð fyrir að slíkur samningur liggi fyrir eigi síðar en um miðjan september næst komandi. Í samningnum verða skilgreind heildarmarkmið og forsendur yfirfærslunnar og tekið á útfærslu einstakra efnisþátta, svo sem stöðu og réttindum starfsmanna, fasteignamálum, gæðaeftirliti, jöfnunaraðgerðum og notendastýrðri persónulegri aðstoð. Auk opinberra aðila munu fulltrúar hagsmunasamtaka notenda og starfsmanna koma að þeirri miklu vinnu sem framundan er svo yfirfærslan komist farsællega til framkvæmda um næstu áramót.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum