Hoppa yfir valmynd
7. júlí 2010 Innviðaráðuneytið

Vegna álits umboðsmanns Alþingis um úrskurð ráðuneytisins

Vegna um fjöllunar í fjölmiðlum um nýlegt álit umboðsmanns Alþingis á úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins 9. mars 2009 sem varðaði kaup Akraneskaupstaðar á tölvuþjónustu, mál nr. 67/2008, vill ráðuneytið taka fram eftirfarandi:

Umboðsmaður Alþingis telur málsmeðferð ráðuneytisins hvað varðar rannsókn þess ekki hafa verið í samræmi við 10. grein stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveður á um rannsóknarskyldu stjórnvalds. Af því tilefni vill ráðuneytið taka fram að umrædd grein er matskennd þar sem segir að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Það var mat ráðuneytisins að frekari rannsókn málsins hefði engu breytt um niðurstöðu þess.

Ráðuneytið rannsakaði allan feril málsins hjá Akraneskaupstað. Umboðsmaður telur að við mat ráðuneytisins á hæfi forseta bæjarstjórnar hafi því borið að afla nægjanlegra upplýsinga um hvort hann hafi haft vitneskju um tengsl sonar síns við Tölvuþjónustuna SecurStore ehf. (TSS) á fundum bæjarstjórnar í apríl 2008. Athugun ráðuneytisins beindist annars vegar að tímasetningu á tilkynningu um kaup sonar forseta bæjarstjórnar á hlut í umræddu fyrirtæki og hins vegar að tímasetningu ákvörðunar bæjarstjórnar um að ganga til samninga við fyrirtækið um kaup á tölvuþjónstu. Niðurstaða ráðuneytisins var sú að ekkert hefði fram komið sem sýndi fram á að forseti bæjarstjórnar hafi haft vitneskju um aðkomu og tengsl sonar síns að TSS þegar hann tók afstöðu á fundum þann 10. og 22. apríl 2008. Hins vegar hefði ekki verið hjá því komist að telja stöðu hans óheppilega í þessu tilviki eins og tekið var sérstaklega fram í úrskurðinum.

Þá segir í áliti umboðsmanns að  ráðuneytið hafi ekki verið bært að lögum til að leysa úr því hvort ákvarðanir Akraneskaupstaðar um að láta hjá líða að bjóða út kaup á tölvuþjónustu árið 2008 hafi verið í samræmi við innkaupareglur sveitarfélaga. Slíkt falli undir valdsvið kærunefndar útboðsmála. Ráðuneytið mun í framtíðinni hafa þetta atriði í áliti umboðsmanns Alþingis til hliðsjónar við umfjöllun hliðstæðra mála.

Í lokin beinir umboðsmaður Alþingis þeim tilmælum til ráðuneytisins að það taki málið til endurskoðunar komi um það beiðni frá kæranda. Ráðuneytið mun verða við því.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum