Hoppa yfir valmynd
16. júlí 2010 Innviðaráðuneytið

Breyting á reglugerð um ökuskírteini til umsagnar

Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um ökuskírteini nr. 501/1997 eru nú til umsagnar á vef samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Unnt er að senda ráðuneytinu athugasemdir til 23. júlí nk.  

Með reglugerð nr. 591/2009 frá 12. júní  2009 sem er breyting á reglugerð um ökuskírteini nr. 501/1997 var kveðið svo á að ökunemar sem hæfu nám eftir 1. janúar 2010 skyldu fá þjálfun í ökugerði og/eða með skrikvagni sem hluta af ökunámi. Þar sem með öllu óljóst var hvar á landinu og í hvaða mæli boðið yrði uppá slíka þjálfun var kveðið á í reglugerðinni um heimild til að þjálfunin færi fram á fyrstu þremur árum eftir að umsækjandi fengi bráðabirgðaskírteini en áður en hann fengi fullnaðarskírteini.

Nú er komin nokkur reynsla á þennan hluta ökunáms og er almenn ánægja með að ökunemum gefist kostur á að þjálfa akstur á lokuðum svæðum undir handleiðslu ökukennara. Hins vegar hefur komið í ljós að ökunemar draga að fara í slíka þjálfun þar sem hún er ekki skilgreind sem hluti grunnökunáms. Leiða má að því líkur að ekki sé eins árangursríkt fyrir ökumann sem hefur ekið bifreið í allt að þrjú ár að fara í þjálfun á æfingaaksturssvæði og fyrir óvanan ökunema sem þarf að læra að aka við mismunandi akstursskilyrði.

Nú standa mál þannig að búið er að koma upp kennsluaðstöðu á Kirkjusandi í Reykjavík fyrir æfingaakstur í skrikvagni og auk þess stendur ökukennurum til boða að nota flugvöllinn á Bakka í Landeyjum og í Aðaldal fyrir þjálfun ökunema. Fleiri staðir eru í athugun.

Að undanförnu hefur verið skoðaður möguleiki á því að akstursþjálfun í ökugerði og/eða með skrikvagni fari fram um leið og ökunám fyrir verklegt ökupróf. Að öllu athuguðu er lagt er til að 4. mgr. 26. gr. reglugerðar um ökuskírteini verði breytt þannig að slík þjálfun fari fram áður en bráðabirgðaskírteini er gefið út. Gerð er sú undantekning að leiði búseta ökunema til þess að þetta ákvæði sé erfitt í framkvæmd megi ökunemi ljúka þjálfun í ökugerði á næstu þremur árum eða áður en hann fær fullnaðarskírteini. Í ákvæði til bráðabirgða er síðan tekið fram að reglur verði óbreyttar fyrir þá sem hafa hafið ökunám eftir 1. janúar 2010 og ljúka því fyrir 1. október 2010, þ.e. þeir geta farið í þjálfun í ökugerði/með skrikvagni samkvæmt gömlu reglunum. Þeir sem hefja ökunám eftir að reglugerðin tekur gildi verða að ljúka þjálfun í ökugerði áður en þeir fá bráðabirgðaskírteini.

Umsagnarfrestur um reglugerðardrögin eru sem fyrr segir til 23. júlí n.k. og skulu umsagnir sendar á [email protected] .

Reglugerðardrögin fara hér á eftir: 

Reglugerð

um breytingu á reglugerð nr. 501/1997 um ökuskírteini

1. gr.

26. gr. breytist þannig.

Í stað 4. mgr. 26. gr. kemur ný málsgrein sem orðist svo:

Æfingaakstur í ökugerði og með skrikvagni skal fara fram undir stjórn löggilts ökukennara og skal að jafnaði vera lokið áður en umsækjandi fær útgefið bráðabirgðaskírteini. Umferðarstofa leggur mat á hvort búseta ökunema leiði til þess að ekki verði með sanngirni krafist að æfingaakstur í ökugerði fari fram meðan á ökunámi fyrir verklegt ökupróf stendur. Verði undanþága veitt skal akstur í ökugerði fara fram á fyrstu þremur árum eftir að umsækjandi fær bráðabirgðaskírteini en þó áður en hann fær fullnaðarskírteini.

2 .gr.

X. viðauki breytist þannig:

Í 4. mgr. 1. kafla, almennt, falla út orðin: eða handhafa bráðabirgðaskírteinis.

3. gr.

Á eftir c-lið undir fyrirsögninni „ákvæði til bráðabirgða“ kemur nýr liður, d-liður, sem orðist svo:

d. Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 26. gr. er þeim sem lýkur ökuprófi fyrir 1. október 2010 í flokki B heimilt að ljúka æfingaakstri í ökugerði sem lið í ökunámi á fyrstu þremur árum eftir að umsækjandi fær bráðabirgðaskírteini en þó áður en hann fær fullnaðarskírteini.

4. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 50., 52. og 73. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu,  2010

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum