Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 57/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 8. febrúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 57/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19010021

 

Beiðni [...] um endurupptöku

I.                    Málsatvik

Þann 6. desember 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 19. september 2018 um að synja einstaklingi er kveðst heita [...], vera fæddur [...], og vera ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 10. desember 2018. Þann 18. janúar 2018 barst kærunefnd beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði úrskurð hans ásamt fylgigögnum. Þann 24. janúar 2018 barst kærunefnd uppfært eintak af beiðni kæranda með minniháttar lagfæringum.

Kærunefnd leggur þann skilning í beiðni kæranda að hann fari þar fram á endurupptöku í máli hans á grundvelli 1. og 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.                  Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Kærandi heldur því fram að þau viðbótargögn sem fylgdu beiðni kæranda um endurupptöku sýni fram á með óyggjandi hætti að lífi hans sé stefnt í hættu verði honum gert að snúa aftur til Pakistan. Um sé að ræða þrjár eiðsvarnar yfirlýsingar einstaklinga í Pakistan og FIR skýrslu.

Fyrsta yfirlýsingin sé dags. 8. janúar 2019 þar sem lögfræðingur kæranda að nafni [...] staðfestir frásögn kæranda þess efnis að land fjölskyldu kæranda hafi verið tekið með eignarnámi árið 2015 og í kjölfarið hafi kæranda og fjölskyldu hans verið hótað af mönnum að nafni […] og […]. Þá heldur lögmaðurinn því fram að kærandi sé enn í hættu í heimaríki.

Önnur yfirlýsingin sé gerð af vini kæranda að nafni […], dags. 14. janúar 2019. Þar kemur fram að kærandi hafi átt í deilum við mann að nafni […] vegna landspildu og að kærandi hafi farið með málið fyrir dómstóla. Í yfirlýsingunni kemur fram að í nóvember 2015 hafi […] verið vitni af því þegar […], […] og fimm aðrir menn hafi ráðist á kæranda, föður hans og frænda. […] og hinir mennirnir hafi skotið í átt að kæranda, föður hans og frænda og hafi frændi kæranda síðar látist af sárum sínum. Þá kemur fram að í kjölfarið hafi kærandi flúið til Íslands og að hann sé enn í hættu í heimaríki.

Þriðja yfirlýsingin er gerð af fjölskylduvini kæranda að nafni […], dags. 14. janúar 2019. Þar kemur fram að kærandi hafi átt í deilum við mann að nafni […] vegna landspildu og að kærandi hafi höfðað einkamál á hendur honum. Í yfirlýsingunni kemur fram að í nóvember 2015 hafi […], […] og fimm aðstoðarmenn ráðist á kæranda, föður hans og frænda og skotið í átt að þeim og hafi frændi kæranda látist af sárum sínum. Þá kemur fram að kærandi hafi flúið til Íslands eftir þetta og að fjölskylda kæranda sé í felum.

Í FIR skýrslu dags. 2. nóvember 2015 ásamt þýðingu sem kærandi hefur lagt fram frásögn sinni til stuðnings komi fram að hún hafi verið lögð fram af manni að nafni […]. […] saki kæranda um að hafa ráðist á hann og […] með því að hafa ekið bílnum sínum fyrir mótorhjól þeirra og stöðvað. Kærandi hafi stigið vopnaður út úr bílnum og öskrað að hann hygðist drepa […]. Hafi vopnaðir vinir […] komið honum til bjargar og hafi kærandi því flúið vettvang. Í skýrslunni segir að […] kveði að hann eigi í deilum við kæranda vegna landspildu og þess vegna vilji kærandi drepa hann. Þá haldi […] því fram að kærandi hafi rænt síma, armbandsúri og gullkeðju hans.

Kærandi kveðst óttast um líf sitt í Pakistan. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis telji hann að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi alls framangreinds telji kærandi tilefni til þess að mál hans verði tekið upp að nýju og að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

III.                Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 6. desember 2018 og var úrskurðurinn birtur fyrir kæranda 10. desember 2018. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því eigi hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í úrskurði kærunefndar, dags. 6. desember 2018, kemur fram að kærandi lagði m.a. fram pakistanskt skilríki, tvö útskriftarskírteini og gögn um eignarhald fjölskyldu kæranda á umdeildu landi í Pakistan frásögn sinni til stuðnings. Var það mat kærunefndar að umrædd gögn styddu hvorki við frásögn kæranda né þá málsástæðu kæranda að maður að nafni […] hafi tekið land fjölskyldu kæranda eignarnámi.

Kærandi byggir beiðni um endurupptöku aðallega á framlögðum skjölum sem kærandi telur styrkja enn frekar frásögn sína. Kærandi lagði fram afrit af FIR skýrslu (e. first instance report), dags. 2. nóvember 2015, ásamt þýðingu þar sem kemur fram að […] ásaki kæranda um að hafa beint skotvopni að honum og hótað honum lífláti. Í skýrslunni kemur fram að […] hafa átt í deilum við kæranda út af landspildu. Þýðandinn gerir athugasemd við FIR skýrsluna þar sem það vanti undirritun, stimpil eða fingrafar af þumli lögreglumannsins sem skrifi skýrsluna. Ljóst er að innihald skýrslunnar er ekki í samræmi við frásögn kæranda um samskipti hans við […]. Þá hefur kærunefnd litið til þess að skýrslan er rúmlega þriggja ára gömul og að löggiltur þýðandi hafi gert athugasemd við form hennar.

Þá lagði kærandi einnig fram afrit þriggja eiðsvarinna yfirlýsinga (e. affidavit) þar sem ýmist lögfræðingur, fjölskylduvinur og vitni halda því fram að […] hafi tekið jörð fjölskyldu kæranda eignarnámi, hótað fjölskyldunni, beitt fjölskyldumeðlimi ofbeldi og hafi myrt frænda kæranda. Halda þeir því allir fram að kærandi muni vera í hættu verði honum gert að snúa aftur til Pakistan. Kærunefnd telur að þessar yfirlýsingar kunni að hafa sönnunargildi um skoðanir þessara einstaklinga um þá stöðu sem þeir telja kæranda vera í en raski þó ekki því mati kærunefndar sem niðurstaða úrskurðar hennar frá 6. desember byggir á.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á framangreindum úrskurði ásamt þeim gögnum sem kærandi vísar í. Telur kærunefnd að umrædd gögn renni ekki frekari stoðum undir trúverðugleika frásagnar kæranda. Er því óbreytt það mat kærunefndar er fram kom í úrskurði hennar 6. desember 2018 að gögnin styðji hvorki við frásögn kæranda né þá málsástæðu hans að maður að nafni […] hafi tekið land fjölskyldu kæranda eignarnámi. Að teknu tilliti til frásagnar kæranda og gagna málsins er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 6. desember 2018 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd er því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir                                                                          Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum