Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

19. - 25. janúar 2002

Fréttapistill vikunnar
19. - 25. janúar


Um 23 milljónum króna ráðstafað úr tíundarsjóðum heilsugæslustöðva á síðasta ári
Alls var tæplega 23 m.kr. ráðstafað úr tíundarsjóðum heilsugæslustöðva á síðast liðnu ári. Rúmum 12 m.kr. var ráðstafað til viðhaldsmenntunar starfsmanna og um 600 þúsund krónum til tækjakaupa. Á síðast liðnu ári fóru heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu út í viðamikið stefnumótunarverkefni. Var þetta samstarfsverkefni heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Kostnaður við verkefnið var fjármagnaður af tíundarsjóði stöðvanna, tæpar 8 m.kr. á síðast liðnu ári.
Þetta kom fram í svari Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, við fyrirspurn á Alþingi í vikunni. Í samræmi við reglugerð nr. 582/1991 hafa 10% af komugjöldum sem renna til reksturs heilsugæslustöðva verið lögð í sérstakan sjóð og hafa stjórnir stöðvanna getað ráðstafað úr honum fé til tækjakaupa, endurbóta aðstöðu, viðhaldsmenntunar starfsmanna o.fl. Með reglugerð nr. 953/2001 voru reglur um 10%-sjóð heilsugæslustöðva felldar niður og renna nú komugjöld óskipt til reksturs heilsugæslustöðvanna, þ.m.t. til tækjakaupa, endurbóta og viðhaldsmenntunar. Ráðherra sagði í svari sínu að eðlilegt sé að einhver hluti rekstrarkostnaðar fari í endurmenntun starfsmanna til að auka hæfni þeirra. Fram kom að við samruna heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa í heilbrigðisstofnanir víða um land hefðu skapast ýmis vandamál með tíundarsjóðina þar sem aðeins var heimilt að leggja 10% af komugjöldum heilsugæslustöðva í sjóðina en aftur á móti var ekki hægt að nýta tekjur sjúkrahúsanna á þennan hátt.
NÁNAR...

Stefnt að samningi til þriggja ára um rekstur Sjúkrahótelsins við Rauðarárstíg í Reykjavík

Samningur Landspítala - háskólasjúkrahúss og Rauða kross Íslands sem gerður var á síðasta ári um aukið samstarf um rekstur Sjúkrahótelsins við Rauðarárstíg hefur gefist vel og hafa samningsaðilar ákveðið að halda áfram á sömu braut. Þetta kom fram í svari Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, við fyrirspurn á Alþingi um sjúkrahótel. Samningurinn var gerður í tilraunaskyni og fól í sér tímabundna fjölgun rýma, aukið samstarf göngudeildar og endurhæfingardeildar spítalans og reglubundnum ferðum komið á milli sjúkrahótelsins og spítalans. Samningsaðilar, ásamt heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti vinna nú að undirbúningi nýs samnings til þriggja ára. Í svari sínu vísaði ráðherra í könnun sem gerð var árið 1995 á vegum landlæknisembættisins á sjúkrahúsunum í Reykjavík til að kanna hvort sjúklingar sem þá lágu inni á deildum sjúkrahúsanna gætu mögulega nýtt sér vistun á sjúkrahóteli í stað vistunar á sjúkrahúsi. Niðurstaðan sýndi að vistun á sjúkrahóteli hefði getað nýst um 20% sjúklinganna.
NÁNAR...

Styrkir Forvarnarsjóðs til áfengis- og vímuvarna um 205 milljónir króna frá árinu 1999
Frá árinu 1999 hafa verið veittar um 205 milljónir króna til áfengis- og vímuvarna úr Forvarnarsjóði. Þetta kom fram í svari Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi í vikunni. Að hluta til er fé úr sjóðnum veitt til áfangaheimila og fá að jafnaði 6 - 8 heimili styrki úr sjóðnum árlega. Áfengis- og vímuvarnaráð sem fer með stjórn sjóðsins hefur jafnframt að leiðarljósi að styrkja verkefni sem lúta að grasrótarstarfi í sveitarfélögum, meðal foreldra og ungmenna, innan heilsugæslu og í skólum, auk verkefna sem varða eftirlit og löggæslu á sviði vímuvarna. Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir að tæpum 80 milljónum króna verði úthlutað úr sjóðnum. Áfengis- og vímuvarnaráð fer með stjórn sjóðsins og gerir tillögur um úthlutanir úr honum til heilbrigðisráðherra.
NÁNAR...

Yfirmaður Miðstöðvar tannverndar
Laus er til umsóknar staða yfirmanns Miðstöðvar tannverndar. Miðstöðin starfar á landsvísu og er meðal annars ætlað það hlutverk að skipuleggja og sjá um framkvæmd tannverndar fyrir skólabörn um allt land. Aðsetur stöðvarinnar verður í Heilsuverndarstöð Reykjavíkur og fellur starfsemi hennar undir stjórn Heilsugæslunnar í Reykjavík. Gerð er sú krafa til umsækjenda að þeir séu menntaðir tannlæknar. Frestur til að sækja um stöðuna rennur út 11. febrúar.
NÁNAR... (pdf-skjal)

Veruleg fjölgun gerviliða- og bakflæðisaðgerða - hagkvæmt fyrir einstaklinga og samfélag
Stefnt er að því að stytta biðtíma sjúklinga eftir gerviliðaaðgerðum og aðgerðum vegna bakflæðis, með samningi sem Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur gert við Landspítala - háskólasjúkrahús, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og Heilbrigðisstofnunina á Akranesi. Samningurinn felur í sér verulega fjölgun aðgerða af þessu tagi. Við Landspítala - háskólasjúkrahús verður gerviliðaaðgerðum fjölgað um 50% og bakflæðisaðgerðum um 65% miðað við síðasta ár. Við FSA verður gerviliðaaðgerðum fjölgað um 60 á þessu ári og við Heilbrigðisstofnunina á Akranesi verða gerðar 20 fleiri hnjáaðgerðir á árinu en áætlað hafði verið. Heildarkostnaður vegna þessa átaks er tæplega 85 milljónir króna. Þessar tilteknu aðgerðir eru valdar m.a. í ljósi þess að þær eru taldar hagkvæmar fyrir einstakling og samfélag. Liðskiptaaðgerðir eru þær aðgerðir sem taldar eru borga sig hvað best og taka menn í mati sínu tillit til umtalsverðs lyfjakostnaðar, óþæginda sjúklinganna sem í hlut eiga og skertrar starfsgetu þeirra. Meðalaldur þeirra sem bíða eftir aðgerð á mjaðmar- og hnjálið er 68 ár. Sama gildir að mörgu leyti um bakflæðisaðgerðir og þeir sem bíða eftir slíkum aðgerðum eru að jafnaði yngri en þeir sem þurfa á liðskiptaaðgerðum að halda. Hægt er að halda niðri einkennum vegna bakflæðis með lyfjum. Lyfjakostnaður fyrir hvern sjúkling er um 150.000 krónur á ári og meðferðin til æviloka. Sá kostnaður fellur oftast niður við aðgerð.

NÁNAR...

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
25. janúar 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira