Hoppa yfir valmynd
28. janúar 2002 Heilbrigðisráðuneytið

26. janúar - 1. febrúar 2001

Fréttapistill vikunnar
26. janúar - 1. febrúar 2002



Bólusett gegn meningókokkum

Ríkisstjórnin ákvað í dag (föstudag) að tillögu heilbrigðisráðherra að hefja undirbúning að bólusetningu vegna meningókokka C hér á landi en sýkillinn veldur heilahimnubólgu, sem er lífshættuleg. Gera má ráð fyrir um tíu tilvikum smitunar af völdum sýkilsins hér á landi á hverju ári en hætta á faraldri getur verið fyrir hendi á 15–20 ára fresti. Tilfellum hefur heldur fjölgað síðustu árin og hefur sóttvarnarlæknir lýst áhyggjum sínum vegna þessa, að sögn Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra. Til er virkt bóluefni við sjúkdómnum og myndi bólusetning ná til þeirra sem eru einkum í áhættu en það er fólk á aldrinum þriggja mánaða til 18 ára. Reiknað er með að bólusetningar geti hafist á síðustu mánuðum þessa árs og að aðalþungi bólusetninganna verði á næsta ári.

Komugjald á heilsugæslustöðvar lækkar og fastagjald til sérfræðilækna sömuleiðis
Á fundi ríkisstjórnarinnar 15. janúar sl. var fjallað um hækkun vísitölu neysluverðs í byrjun janúar og hlut opinberra verðhækkanna í hækkun vísitölunnar. Var ákveðið að láta fara sérstaklega yfir hækkanirnar og kanna hvaða leiðir væru til þess að sporna gegn þeim. Í framhaldi af þessu var ákveðið að lækka gjaldskrár í heilbrigðiskerfinu á eftirfarandi hátt: Komugjald á dagvinnutíma á heilsugæslustöðvum lækkar úr 850 í 400 krónur og úr 350 í 200 krónur fyrir lífeyrisþega og börn. Jafnframt verður hækkun komugjalda utan dagvinnutíma dregin til baka. Fastagjald til sérfræðilækna lækkar úr 2.100 í 1.600 krónur og verður því 200 krónum lægra en það var fyrir áramót. Eftir sem áður greiða notendur 40% af því sem umfram er. Nánari grein er gerð fyrir öðrum aðgerðum til að sporna gegn hækkun vísitölunnar á heimasíðu forsætisráðuneytisins. Gjaldskrárlækkanir hafa þegar tekið gildi með reglugerð 70/2002 um 7. br. á reglugerð nr. 68/1996 um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.

Tannverndardagurinn er í dag, 1. febrúar
Í dag er árlegur tannverndardagur þar sem vakin er athygli á ýmsum mikilvægum atriðum sem varða tannheilsu og tannhirðu. Spjótum er beint að mikilli sykurneyslu og hafa ýmsar greinar birst í dagblöðum þar sem fjallað er um sykurneyslu og skaðsemi hennar frá ýmsum sjónarhornum. Fræðslubæklingurinn Biti milli mála hefur nú verið endurskoðaður og gefinn út á ný. Hann er m.a. hægt að nálgast á heimasíðu Tannverndarráðs; www.tannheilsa.is. Á heimasíðunni er hægt að nálgast margvíslegar upplýsingar, fræðsluefni fyrir fagfólk, almenning og skóla. Á heimsíðunni Doktor.is er fjallað um tannheilsu og tannhirðu aldraðra sem Helga Ágústsdóttir, sérfræðingur í öldrunartannlækningum og deildarstjóri tanneilsudeildar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins skrifar.

Offita meðal íslenskra skólabarna
Samkvæmt nýlegri íslenskri rannsókn er fimmta hvert níu ára barn of þungt og fimm prósent þeirra eru of feit. Flest börn sem eru of feit glíma áfram við offitu þegar þau verða fullorðin. Því er talið mikilvægt að ráðast gegn vandanum þegar í bernsku. Manneldisráð sendi nýverið frá sér niðurstöður rannsóknar þar sem könnuð voru áhrif hópmeðferðar á líkamsástand, sjálfsmat og líðan of feitra barna og unglinga.
MEIRA...




Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
1. febrúar 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum