Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2002 Heilbrigðisráðuneytið

-Nýir vikulegir fréttapistlar - 2. - 8. febrúar 2001 - meira

Landspítalinn og heilbrigðisráðherra styðja byggingu spítala í Malaví



Þróunarsamvinnustofnun Íslands er nú að byggja heilsugæslustöð og spítala í Malaví, búa stofnunina tækjum og búnaði og þjálfa starfsfólk. Upptökusvæði spítalans nær til héraðs með um 170 þús. íbúa þar sem aðeins var fyrir lítil heilsugæslustöð í mjög frumstæðu húsnæði, sem verður lögð niður þegar nýja stofnunin verður tekin í notkun. Byggingar heilsugæslustöðvarinnar og spítalans ná yfir um 5 hektara landssvæði. Þar eru byggingar m.a. fyrir almenna heilsugæslustöð, ungbarna og mæðraeftirlit, lyfjaafgreiðslu, legudeildir fyrir 80 sjúklinga, fæðingarstofnun, skurðstofu, líkhús, stjórnsýslu auk starfsmannahúsa, geymslu fyrir sjúkrabíl o.fl.

Verkefnisstjóri uppbyggingastarfsins er Halldór Jónsson, læknir og auk hans sér Hildur Sólveig Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, um að byggja upp heilbrigðisþjónustuna á svæðinu í samstarfi við heilbrigðisyfirvöldin í landinu. Heilsugæslustöðin og spítalinn rísa við Malavívatn, þar sem fátækt er einna mest í Malaví. Einmitt á þessum slóðum starfaði læknirinn og landkönnuðurinn heimsfrægi, dr. Livingstone, og er Halldór Jónsson fyrsti evrópskmenntaði læknirinn, sem þar hefur starfað, síðan dr. Livingstone leið. Fyrra áfanga bygginganna, þ.e. þær byggingar og aðstaða, sem tilheyra heilsugæslustöðinni, er nú lokið, byggingarnar hafa verið afhentar og er verið að afla búnaðar og tækja. Væntanlega verður hafist handa við síðari byggingaráfangann, sjúkrahússhlutann, á árinu 2003, en heilsugæslustöðin verður formlega tekin í notkun á þessu ári.

Landspítalinn - háskólasjúkrahús ásamt heilbrigðisráðherra, Jóni Kristjánssyni, hafa stutt dyggilega við bakið á uppbyggingastarfinu í heilbrigðismálum í Malaví ásamt lyfjafyrirtækinu DELTA. Er nú verið að hlaða 40 feta gám á lóð Landspítalans á Vífilsstöðum ýmis konar búnaði s.s. sjúkrahúslíni, skoðunarbekkjum, barnarúmum, hjólastólum svo og einföldum tækjum svo sem svæfingavélum, hjartalínuriturum og fleiru, sem endurnýjuð hafa verið til samræmis við kröfur nútímalegra og tæknivæddra sjúkrahúsa, eins og Landspítalinn er, en eru í góðu lagi og koma að fullkomnum notum í Malaví. Þá hafa apótek Landspítalans og lyfjafyrirtækið DELTA gefið umtalsvert magn lyfja til nota á hinni nýju heilbrigðisstofnun, sem Íslendingar eru að reisa í Malaví. Leitað var eftir því við Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, að ráðuneytið greiddi fyrir flutninginn á vörunum hina löngu leið til Malaví og varð ráðherra við þeirri beiðni.. Er þessum aðilum öllum innilega þakkað fyrir höfðinglegar gjafir og mikilsverðan stuðning.

Þá hefur tækifærið einnig verið notað til þess að flytja með sömu ferð varning, sem gefinn hefur verið af íslenskum aðilum til annara þarfa í Malaví. Mýrarhúsaskóli á Seltjarnarnesi hefur verið í vináttusamskiptum við barnaskóla í Chirombo-þorpi, sem ÞSSÍ byggði við Malavívatn. Börn í Mýrarhúsakóla hafa að undanförnu safnað ýmsum skólamunum, fatnaði og reiðhjólum, sem einnig fara í gáminn til Malaví og Kennaraháskóli Íslands og EIMSKIP hafa gefið tölvur, sem m.a. munu nýtast í þágu tölvuskóla, sem einn af starfsmönnum ÞSSÍ hefur byggt upp við Malavívatn svo og til þarfa framhaldsskóla þar sem m.a. stunda nám ungar malavískar stúlkur, sem Lionsklúbburinn í Njarðvík styrkir nú til náms. Öllum þessum aðilum eru færðar einlægar þakkir.

(Fréttatilkynning frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands, 7. feb. 2002)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum