Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2002 Heilbrigðisráðuneytið

9. - 15. febrúar 2002

Fréttapistill vikunnar
9. - 15. febrúar 2002



Nýjar reglur Tryggingaráðs um endurgreiðslur vegna sjúkraþjálfunar

Félag sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara hefur tilkynnt að félagsmenn segi sig frá samningi við Tryggingastofnun ríkisins frá 1. mars nk. Í kjölfar uppsagnarinnar hefur tryggingaráð sett nýjar reglur um endurgreiðslur vegna sjúkraþjálfunar. Engin breyting verður á endurgreiðslum til þeirra sem kaupa sér þjónustu sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara sem kjósa að vera á samningi við Tryggingastofnun ríkisins. Í nýjum reglum tryggingaráðs er sérstaklega tekið til greiðsluþátttöku í tilvikum þar sem samningar eru ekki fyrir hendi. Leitast er við að gæta hagsmuna þeirra sem reikna má með að mesta hafi þörfina og séu síst í stakk búnir til að mæta auknum útgjöldum vegna einhliða gjaldskrár sjúkraþjálfara. Samningaviðræður við sjúkraþjálfara eru nú í höndum samninganefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins sem tók til starfa um síðustu áramót.
NÁNAR...

Tillaga til þingsályktunar um óhefðbundnar lækningar

Gera verður þær kröfur til óhefðbundinna lækninga að þær séu sannarlega ekki skaðlegar, ekki sé haldið fram ósönnuðum áhrifum þeirra til læknungar eða líknunar, að fólk sem leitar þessara lækninga sé ekki haft að féþúfu og að þeir sem bjóði óhefðbundnar lækningar villi ekki á sér heimildir. Þetta kom fram í munnlegu svari heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á Alþingi við fyrirspurn um óhefðbundnar lækningar, umfang þeirra og eftirlit með þeim. Ráðherra vakti athygli á því að fyrir þinginu liggur tillaga til þingsályktunar um stöðu óhefðbundinna lækninga sem borin er fram af þingmönnum úr öllum flokkum. Þar er m.a. gert ráð fyrir að heilbrigðisráðherra verði falið að skipa nefnd til að gera úttekt á stöðu óhefðbundinna lækninga hér á landi og bera saman við stöðu þessara mála hjá nágrannaþjóðunum. Málið er nú til umfjöllunar hjá heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis.
SVAR RÁÐHERRA...

Umræður á Alþingi um bann við umskurði stúlkna og viðurlög við slíkum verknaði
Umskurður á stúlkum telst ekki læknisverk og læknum er óheimilt að framkvæma hann samkvæmt læknalögum. Ef einhver annar en læknir myndi framkvæma umskurð á stúlku hér á landi teldist það líkamsmeiðing í skilningi refsilöggjafarinnar. Þetta kom fram í svari Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi í vikunni um það hvort tímabært sé að setja í íslensk lög bann við umskurði stúlkna og viðurlög við slíkum verknaði. Ráðherra sagði ljóst að umskurður á stúlkum er algjörlega óheimill hér á landi og að engin þekkt dæmi væru um umskurð stúlkna hér á landi. ,,...aðgerð þessi getur ekki talist til heilbrigðisþjónustu heldur hlýtur hún að falla undir líkamlegt ofbeldi og um það gilda refsilög líkt og um annað líkamlegt ofbeldi. Réttur stúlknanna gegn þessu ofbeldi er varinn í stjórnarskrá, í lögum um réttindi sjúklinga, barnaverndarlögum, mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og víðar. Ráðherra sagðist ekki sjá því neitt til fyrirstöðu að setja í refsilöggjöf fortakslaust bann við umskurði og ákvæði um viðurlög við þessum verknaði og það værí í raun í samræmi við ákvæði Barnasáttmála Sameinuð þjóðanna en benti á að breyting á refsilöggjöfinni heyrir undir dómsmálaráðherra.
SVAR RÁÐHERRA...

Stofnun endurlífgunarráðs

Landlæknir hefur stofnað og skipað sk. endurlífgunarráð sem ætlað er að auka vitund og þekkingu almennings á viðbrögðum við hjartastoppi og framkvæmd endurlífgunar. Skyndidauði vegna hjartastopps er algengur hér á landi. Fyrstu viðbrögð við hjartastoppi geta skipt sköpum um afdrif sjúklingsins og ef vitni eru að atburðinum er mikilvægi grunnendurlífgunar meðan beðið er eftir sjúkrabifreið ótvírætt. Ráðið skal vera ráðgefandi um framkvæmd og kennslu í endurlífgun, kynna viðurkenndar alþjóðlegar leiðbeiningar á þessu sviði og fylgjast með og kynna helstu nýjungar.
MEIRA

...



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
15. febrúar 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum