Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2000 Heilbrigðisráðuneytið

-Nýir vikulegir fréttapistlar - 18. - 24. nóvember - ávarp


Ávarp f.h.heilbrigðismálaráðherra á stórfundi á Hótel Borg 23. nóvember 2000 kl. 20:30.


Átak gegn kynferðisofbeldi

Ágætu fundargestir,
Ég vil byrja á því að bera ykkur kveðju heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Ingibjargar Pálmadóttur, en hún gat því miður ekki verið hér í kvöld.

Ráherra fagnar sameiginlegu auglýsinga- og kynningarátaki Stígamóta, Kvennaathvarfsins og Kvennaráðgjafarinnar sem hrundið er af stað í tilefni af alþjóðlegum degi gegn kynferðisofbeldi n.k. laugardag.

Þessu átaki er sérstaklega beint til þeirra kvenna sem gætu nýtt sér þjónustu þessara aðila en auk þess er markmiðið að almenn vitundarvakning verði meðal almennings. Hér er um mikilvægt verkefni að ræða , því sannarlega er þörf á úrbótum á þessu sviði.

Sem betur fer má þó segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar í þessum málum ef litið er til baka um einn til tvo áratugi.
Mér kemur í hug atvik sem heilbrigðisráðherra sagði mér frá þegar þennan fund bar á góma nú í vikunni. Það átti sér stað fyrir 18 árum þegar ráðherra sat í bæjarstjórn Akranesbæjar. Þá kom þar styrkbeiðni frá Kvennaathvarfinu sem ráðherra mælti með að yrði samþykkt og sett í fjárhagsáætlun bæjarains. Eftir all nokkrar umræður um málið varð einum fundarmanna að orði: "Ingibjörg, ætlar þú að koma óorði á bæinn og láta alla halda að hér séu karlar sem berji konur sínar".

Í dag er staðan önnur eins og þessi fundur ber með sér. Umræðan er opin og hreinskiptin sem er afar mikilvægt til að draga úr fordómum og vanþekkingu. Þetta er ekki síst að þakka grasrótarsamtökum eins og þeim sem standa að þessum fundi hér í kvöld.

Það kann þó að vera að málið sé enn viðkvæmt í litlum bæjarfélögum þar sem nálægð einstaklinganna er meiri en í Reykjavík, en þá er einmitt mikilvægt að samtök eins og Stígamót, Kvennaathvarfið og Kvennaráðgjöfin eigi sína tengiliði á hverjum stað.

Það þarf ekki að fletta mörgum skýrslum eða greinum til að sjá að ofbeldi gegn konum, þar með talið kynferðisofbeldi, er alþjóðlegt vandamál. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO telur t.d. að þetta sé eitt af alvarlegustu heilbrigðisvandamálum heims.

Tölur frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni sýna að að minnsta kosti fimmtungur kvenna verður fyrir líkamlegri árás karlmanns einhvern tíma á ævinni og oft er um að ræða mann sem konan þekkir vel. Þar kemur fram að konur á aldrinum 15 - 44 ára eiga einkum ofbeldi og nauðganir á hættu.

Niðurstöður könnunar á nauðgunum í Bandaríkjunum sýna að 14% til 20% kvenna er einhvern tíma á ævinni nauðgað.

Árið 1993 ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að setja sérstakan fulltrúa í það verkefni að fylgjast með þessum málum alls staðar í heiminum. Tilgangurinn var að varpa ljósi á hve víðfeðmur vandinn er . Þó hægt virðist miða á alþjóðlegan mælikvarða er þó mikilvægt að alþjóðasamfélagið skuli hafa sett ofbeldi gegn konum á verkefnalista sinn.

Afleiðingar kynferðislegs ofbeldis eru alvarlegar bæði hjá konunni sjálfri sem í því lendir en oftar en ekki líða einnig börnin fyrir slíkt.
Konur sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi verða gjarnan hlédrægar og bældar en áfallið getur einnig leitt til þunglyndis og jafnvel sjálfsvíga. Því er mikilvægt að stuðningur sé aðgengilegur og veittur fljótt.

Stofnun neyðarmóttöku vegna nauðgunar á slysa- og bráðmóttökudeild Landspítala í Fossvogi (sem þá hét Borgarspítalinn) árið 1993 markaði ákveðin þáttaskil í þjónustu við þennan hóp. Megin markmiðið með starfseminni er að draga úr eða koma í veg fyrir andlegt og líkamlegt heilsutjón í kjölfar kynferðisofbeldis, nauðgunar eða tilraunar til nauðgunar. Þar starfar hópur fólks með sérþekkingu á ýmsum sviðum og hafa 670 einstaklingar, mest konur, leitað aðstoðar þar frá því að starfsemin hófst.

Starfsemi grasrótarsamtaka hefur einnig víða skipt sköpum fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Ýmsar rannsóknir, bæði innlendar og erlendar, benda til að sú hugmyndafræði sem starf þeirra grunvallast á um jafningjafræðslu og sjálfshjálp nýtist konum vel.

En stöðugt eykst skilningur fólks víða um veröld og þar með talið hér á Íslandi á því að grípa þurfi til aðgerða til að fyrirbyggja ofbeldi, ekki síst kynferðislegt ofbeldi gegn konum.

Heilbrigðisráðuneytið hefur undanfarin þrjú ár styrkt Karlanefnd jafnréttisráðs vegna verkefnisins "Karlar til ábyrgðar" sem felst í því að körlum sem beitt hafa ofbeldi á heimilum er boðin einstaklings- og hópmeðferð hjá sálfræðingum og mun þetta hafa reynst vel.

Heilbrigðisráðherra hefur einnig nýlega lagt fram á Alþingi heilbrigðisáætlun til ársins 2010 þar sem sett eru fram markmið um að draga úr hvers kyns ofbeldi þar með talið kynferðisofbeldi.

Víða um heim eru haldin námskeið fyrir starfsfólk í heilbrigðisþjónustu og löggæslu, neyðarmiðstöðvar og athvörf fyrir konur og börn eru opnuð og stofnaðir hafa verið kvennahópar í fjölmörgum löndum.

Það er ljóst að til að sem bestur árangur náist er mikilvægt er að samstarf takist á sem breiðustum grunni milli allra þeirra sem málið snertir, bæði opinberra aðila, svo sem ráðuneyta, sveitarfélaga og heilbrigðisstofnana, og einnig grasrótarsamtaka.

Og þó flestir skjólstæðingar þeirra samtaka sem standa að þessum fundi hér í kvöld komi af Stór-Reykjavíkursvæðinu er eigi að síður mikilvægt að hafa tengsl inn í minni bæjarfélög eins og ég vék hér að í upphafi.

Þar sem markhópur Stígamóta, Kvennaathvarfs og Kvennaráðgjafarinnar er að nokkru leyti sameiginlegur er það fagnaðarefni að þessir aðilar skuli sameinast um það verkefni að vinna gegn kynferðislegu ofbeldi á Íslandi. Það gefur öllu starfinu aukinn styrk og mun þannig hafa meiri áhrif úti í samfélaginu.

Ég vil að lokum ítreka kveðjur ráðherra og óska ykkur góðs gengis með mikilsvert verkefni.

Takk fyrir
Talað orð gildir


Margrét Björnsdóttir
deidarstjóri,
heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum