Hoppa yfir valmynd
14. september 2006 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Á ábyrgð okkar allra að fækka slysum

Kringum fimm hundruð manns sóttu fund í Hallgrímskirkju síðdegis í dag, einn af sjö fundum sem haldinn var vegna tíðra umferðarslysa á árinu, til að minnast þeirra sem látist hafa og til að greina frá hertum aðgerðum sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra kynnti. Kjörorð fundanna var: Nú segjum við stopp!

Stopp
Sturla Böðvarsson og Ólafur Ragnar Grímsson skrifuðu undir áskorunina. Hjá þeim standa Geir H. Haarde og Katrín Jakobsdóttir.

Samgönguráðuneytið og Umferðarstofa skipulögðu fundina í samráði við lögregluna, Vegagerðina og ýmis félagasamtök sem heyra undir Umferðarráð. Fundað var í Borgarnesi, Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum, Selfossi og Reykjanesbæ auk Reykjavíkur. Allir fundirnir voru með sama sniði.

Samgönguráðherra flutti ávarp í Reykjavík sem lesið var á hinum stöðunum og sjúkraflutningamenn eða lögreglumenn fluttu ávarp svo og ættingjar þeirra sem hafa á einhvern hátt orðið fyrir missi vegna umferðarslysa. Í Reykjavík fluttu ávarp þeir Lárus Petersen sjúkraflutningamaður og Lárus Kjartansson sem missti 16 ára son sinn í umferðarslysi fyrir 10 árum. Sagði Lárus Kjartansson að það væri á ábyrgð okkar allra að fækka slysum.

Forseti Íslands, Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og nokkrir stjórnmálaleiðtogar skrifuðu nafn sitt á síðuna stopp.is þar sem menn heita því að fara að lögum í umferðinni. Undir kvöldmat höfðu á sjöunda þúsund manns skrifað nöfn sín undir þetta heit.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira