Hoppa yfir valmynd
22. september 2006 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Rætt um strandflutninga og vöruflutninga á landi

Verið er að kanna á vegum samgönguráðuneytisins hvort hugsanlegt sé að taka upp strandsiglingar við landið að nýju að einhverju leyti. Í tengslum við endurskoðun á samgönguáætlun sem nú stendur og í kjölfar umræðna um álag á vegakerfinu hefur Sturla Böðvarsson samgönguráðherra óskað eftir því að málið verði kannað.

Fundur var í samgönguráðuneytinu í gær þar sem málið var rætt milli fulltrúa frá nokkrum flutningafyrirtækjum, Samtaka verslunar og þjónustu, Siglingastofnunar Íslands og fulltrúa ráðuneytisins. Fram kom á fundinum að Eimskip og Samskip sigla frá Reykjavík til hafna á Austurlandi og til Vestmannaeyja til að taka vörur til útflutnings og nýta mætti betur þær strandsiglingar en gert er í dag. Þá flytur Olíudreifing eldsneyti til rúmlega 30 hafna víðs vegar um landið í dag en líklegt að þeim fari fækkandi á næstu árum. Jafnframt eiga sér stað umtalsverðirr flutningar með svokölluðum söfnunarskipum sem safna saman sjávarafurðum á ströndinni til útflutnings.

Fulltrúar flutningarfyrirtækjanna sögðu atvinnulífið í dag krefjast tíðra ferða til og frá Reykjavík og að vara væri afhent við dyr viðskiptavina. Slíkt væri vart gerlegt með siglingum og því væri viðskiptavinum nú þjónað nær eingöngu með vöruflutningabílum. Það álit flutningafyrirtækjanna kom einnig fram að sú eftirspurn eftir strandflutningum sem var fyrir hendi þegar Mánafoss sigldi á ströndina (síðasta áætlunarskipið sem það gerði) væri að stórum hluta ekki lengur fyrir hendi.

Ráðgert er að aftur verði fundað um málið og skoðað hvort skynsamlegt sé að taka upp strandsiglingar til afmarkaðra landshluta eða ákveðinna hafna en ekki verður bæði sleppt og haldið því slíkt myndi óhjákvæmilega þýða minni þjónustu landflutninga á sömu staði að mati flutningafyrirtækjanna. Jafnframt verður í áframhaldinu rætt um þarfir landflutninga fyrir góðar og öruggar flutningaleiðir en atvinnulífið hefur lagt áherslu á að stofnvegakerfið verði allt byggt upp með varanlegum hætti sem fyrst og telur mikilvægt að forgangsraða verkefnum í samræmi við þessar þarfir.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira